Afkoma Kópavogsbæjar 1,1 milljarði betri en gert var ráð fyrir
Rekstrarafgangur samstæðu Kópavogsbæjar er 655 milljónir króna á fyrri hluta árs 2017 en áætlun gerði ráð fyrir 160 milljón króna halla. Þá þurfti að gera 280 milljóna króna gjaldfærslu vegna lífeyrisskuldbindinga í kjölfar samkomulags sveitarfélaga við ríkið sem ekki lá fyrir við gerð fjárhagsáætlunar. Afkoman er því 1,1 milljarða króna betri en fjárhagsáætlunin gerði ráð fyrir.
Ástæða mismunarins er einkum að skatttekjur eru heldur hærri en reiknað var með, verðbólga lægri og að bókuð tekjufærsla vegna lóðaúthlutana var ekki á áætlun.
Þetta kemur fram í árshlutareikningi Kópavogs fyrir 1. janúar til 30. júní 2017 sem lagður var fram í bæjarráði Kópavogs í dag, 7. september.
„Rekstur Kópavogsbæjar gengur vel, ekki hafa verið tekin lán vegna framkvæmda eins og nýju íþróttahúsi, færanlegum kennslustofum við Kársnesskóla eða vegna kaupa á nýju húsnæði undir bæjarskrifstofur Kópavogs. Við vitum líka að við erum í hámarki hagsveiflunnar og lítum svo á að áfram þurfi að gæta aðhalds í rekstri.“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.
Skuldahlutfall bæjarins heldur áfram að lækka, það var 148% síðustu áramót og lækkar enn frekar á þessu ári ef svo heldur fram sem horfir.
Samkvæmt uppgjörinu hafa vaxtaberandi skuldir lækkað um tvo milljarða þrátt fyrir að verðtryggð lán hafi hækkað á fyrri árshelming vegna verðbólgu. Þá hækkuðu lífeyrisskuldbindingar um 2.198 milljónir króna.
Þess má geta að á fyrri helmingi árs falla um 48%-49% af skatttekjum ársins en hins vegar stærri hluti útgjalda á ákveðnum sviðum.
Rekstrarniðurstaða samstæðu fyrir fjármagnsliði, afskriftir og lífeyrisskuldbindingar var jákvæð um 2.642 milljónir króna. Þetta þýðir að framlegðarhlutfall samstæðu var rúmlega 18% en í reglum frá eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga er gert ráð fyrir að framlegðarhlutfallið sé á bilinu 15-20%.