Verulegur afgangur af rekstri ársins hjá Mosfellsbæ


21. mars 2018

Mosfellsbær – ársreikningur 2017

Verulegur afgangur af rekstri ársins

Ársreikningur Mosfellsbæjar fyrir árið 2017 var lagður fram í bæjarráði í dag og jafnframt tekinn til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

Rekstrarniðurstaða A og B hluta er talsvert betri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins. Það má helst skýra með auknum tekjum vegna hærri launatekna íbúa, íbúafjölgun og því að verðlag þróaðist hagstæðara en ráð var fyrir gert. Rekstrarniðurstaða ársins var jákvæð um 560 milljónir en hafði verið áætluð 159 milljónir.

Tekjur ársins námu alls 10.016 milljónum, launakostnaður 4.724 milljónum og annar rekstrar­kostnaður 4.039 milljónum. Framlegð nemur því 1.253 milljónum en að teknu tilliti til fjármagnsliða. Veltufé frá rekstri er 1.236 milljónir eða rúmlega 12,3% af tekjum. Eigið fé í árslok nam 5.594 milljónum og eiginfjárhlutfall 32,2%. Skuldaviðmið fer lækkandi og er 103,9% sem er vel innan þess 150% hámarks sem kveðið er á um í lögum.

Framundan er áframhaldandi uppbygging innviða í Mosfellsbæ. Á síðustu árum hefur verið verið lögð áhersla á uppbyggingu framhaldsskóla, íþróttahúss, hjúkrunarheimilis og aðstöðu fyrir félagsstarf eldri borgara. Stærsta verkefnið sem sveitarfélagið hefur með höndum nú er bygging Helgafellsskóla. Það er leik- og grunnskóli í nýbyggingarhverfi í hraðri uppbyggingu sem áætlað er að muni kosta um 3.500 milljónir á næstu tíu árum. Einnig má nefna byggingu knatthúss sem tekið verður í notkun á fyrri hluta næsta árs.

Skuldastaða sveitarfélagsins er góð miðað við þá uppbyggingu sem átt hefur sér stað á undanförnum árum. Sú uppbygging er í samræmi við markmið sveitarfélagsins um góða heildstæða þjónustu við alla aldurshópa og fjölgun íbúa.

Íbúar Mosfellsbæjar voru 10.560 um síðustu áramót en fjölgunin var um 8% á milli ára sem er meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Mosfellsbær er sjöunda fjölmennasta sveitarfélag landsins og þar störfuðu 656 starfsmenn í 528 stöðugildum í árslok 2017.

Fjárhagsstaða Mosfellsbæjar er traust og reksturinn ábyrgur. Fræðslumál eru langstærsti málaflokkurinn en til hans runnu 3.988 milljónir eða 50% skatttekna. Til félagsþjónustu var veitt 1.477 milljónum og eru þar meðtalin málefni fatlaðs fólks. Íþrótta- og tómstundamál er þriðja stærsta verkefni bæjarins en til þeirra mála var varið um 874 milljónum. Samtals er því 79% skatttekna Mosfellsbæjar varið til fræðslu-, félagsþjónustu, íþrótta- og tómstundamála.

Ársreikningurinn verður tekinn til seinni umræðu í bæjarstjórn þann 4. apríl 2018.

Nánari upplýsingar veitir Haraldur Sverrisson bæjarstjóri í síma 862 0012

Ársreikningur 2017 til fyrri umræðu í bæjarstjórn 21.03.2018


Pièces jointes

Ársreikningur 2017 til fyrri umræðu í bæjarstjórn 21.03.2018