Origo hf. - Heildarhagnaður á fyrri árshelmingi var 351 mkr og EBITDA 451 mkr


REYKJAVÍK - 22. ágúst 2019 - Origo kynnti í dag uppgjör fyrri árshelmings 2019 

Helstu upplýsingar:

  • Sala á vöru og þjónustu nam 3.493 mkr á öðrum ársfjórðungi 2019 (6,4% tekjusamdráttur frá F2 2018) og 7.046 mkr á fyrsta árshelmingi (6,2% tekjusamdráttur frá 1H 2018) [F2 2018: 3.731 mkr, 1H 2018: 7.512 mkr]. Tempo ehf. er nú ekki hluti af samstæðureikningi félagsins. Tekjuvöxtur án Tempo var 7,9% á öðrum ársfjórðungi og 7,4% á fyrsta árshelmingi 2019
  • Framlegð nam 851 mkr (24,4%) á öðrum ársfjórðungi og 1.773 mkr á fyrri árshelmingi (25,2%) (F2 2018: 27,1%, 1H 2018: 25,5%)
  • EBITDA nam 213 mkr (6,1%) á öðrum ársfjórðungi og 451 mkr (6,3%) á fyrsta árshelmingi [F2 2018: 235 mkr (6,3%), 1H 2018: 336 mkr (4,5%)]
  • Þýðingarmunur vegna starfsemi dóttur- og hlutdeildarfélaga  er jákvæður um 39 mkr í F2 2019 (var -6 mkr í F2 2018) og 188 mkr á fyrri árshelmingi (var -4 mkr 1H 1018)
  • Heildarhagnaður nam 138 mkr á öðrum ársfjórðungi (15 mkr í F2 2018) og 351 mkr á fyrri árshelmingi (Heildartap 11 mkr á 1H 2018)
  • Eiginfjárhlutfall er 62,0%
  • Veltufjárhlutfall er 1,76
  • Origo keypti allt hlutafé í Strikamerki ehf. og sprotafyrirtækinu CBS (Bus Travel IT)

Finnur Oddsson, forstjóri:
„Rekstur Origo á fyrri árshelmingi 2019 gekk ágætlega miðað við aðstæður, betri en á síðasta ári, en þó heldur undir væntingum. Afkoma af hugbúnaðartengdri starfsemi hefur verið góð að undanförnu og hefur vægi hugbúnaðarlausna verið markvisst aukið í rekstri Origo með áherslu á þróun og fjárfestingu á því sviði.  Lakari afkoma hefur verið að rekstrarþjónustu og sölu á notendabúnaði en við höfum leitast við að auka hagræði í öllum okkar rekstri, m.a. með útvistun afmarkaðra verkefna og aukinni sjálfvirknivæðingu í eigin starfsemi og fyrir viðskiptavini okkar. Þeirri vegferð verður haldið áfram.

Þegar horft er til afmarkaðra þátta í starfsemi Origo, þá hefur heldur hægt á búnaðarsölu eftir því sem liðið hefur á árið og spilar óvissa um efnahagshorfur þar eflaust inn í.  Fyrirtæki og einstaklingar virðast vera meira hikandi við stærri fjárfestingar sem hefur bein áhrif á bæði vörusölu og framlegð, en launakostnaður hefur hækkað m.v. sama tímabil í fyrra.  Nýleg aðkoma okkar að Tölvuteki mun treysta mikilvæga söluleið fyrir PC notendabúnað til einstaklinga og gerir Origo kleift að einbeita sér fyrst og fremst að beinni sölu til fyrirtækja og endursöluaðila.

Það er áfram góð eftirspurn eftir almennri upplýsingatækniþjónustu og rekstri frá Origo, m.a. útvistun grunnþjónustu og stuðning við sérverkefni til að auka sjálfvirkni ferla hjá viðskiptavinum og styðja við stafræna vegferð þeirra. Að sama skapi er mjög góður vöxtur í sölu viðskipta- og hugbúnaðarlausna þar sem áfram er unnið að því að efla vöruframboð og auka fjölbreytni með eigin þróun og ytri fjárfestingum.

Origo keypti allt hlutafé í Strikamerki og CBS (Bus Travel IT) nýverið. Markmið með kaupum á Strikamerki er að styrkja framboð Origo á afgreiðslulausnum, hugbúnaði og vélbúnaði, fyrir verslunar-, þjónustu- og vöruhúsastarfsemi þar sem þróun er hröð og ákall viðskiptavina um aukið hagræði skýrt.  Lausnin Bus Travel IT, sem CBS hefur þróað fyrir hópferða- og afþreyingarfyrirtæki, henta afar vel inn í núverandi lausnamengi Origo fyrir ferðaþjónustufyrirtæki.  Kaupin á CBS styrkja lausnir okkar fyrir ferðaþjónustuna og það er skýr stefna okkar að koma þeim á framfæri utan lands ekki síður en hér á okkar heimamarkaði.

Við lítum björtum augum til framtíðar vegna sterkrar stöðu Origo og með auknum líkum á stöðugleika í íslensku efnahagslífi.  Við munum áfram fjárfesta í vöruþróun til að efla lausnaframboð og stefnum að auknu hagræði í rekstri. Það eru áhugaverð tækifæri í flestum þáttum starfsemi fyrirtækisins, hvort sem horft er til hugbúnaðarlausna, rekstrarþjónustu eða sölu á notendabúnaði og við metum horfur því góðar.“


Sjá viðhengi.


Nánari upplýsingar
Finnur Oddsson forstjóri í síma 862-0310 eða fo@origo.is og Gunnar Petersen framkvæmdastjóri fjármálasviðs í síma 825-9001 eða gp@origo.is.

Til athugunar fyrir fjárfesta

Origo vekur athygli á því að staðhæfingar sem finna má í þessari fréttatilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins, en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna af birtingu tilkynningarinnar. Eðli málsins samkvæmt fela slíkar staðhæfingar í sér óvissu. Athygli fjárfesta er vakin á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi félagsins og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í tilkynningunni. Þessi tilkynning verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar. Staðhæfingar sem finna má í þessari fréttatilkynningu gilda eingöngu á því tímamarki þegar fréttatilkynningin er birt og takmarkast gildi þeirra við það sem segir í fyrirvara þessum.

Viðhengi


Pièces jointes

Fréttatilkynning Árshlutauppgjör Origo hf. F2 2019 Origo hf. árshlutareikningur 30.6.2019