Marel 3F 2019: Góð afkoma og þjónustutekjur aldrei hærri


Marel kynnir afkomu þriðja ársfjórðungs 2019 (allar upphæðir eru í evrum)

Helstu atriði 3F 2019

  • Pantanir námu 285,0 milljónum evra (3F18: 267,7m).
  • Tekjur námu 312,5 milljónum evra (3F18: 282,0m).
  • EBIT* nam 44,3 milljónum evra (3F18: 40,0m), sem var 14,2% af tekjum (3F18: 14,2%).
  • Hagnaður nam 33,4 milljónum evra (3F18: 26,7m).
  • Hagnaður á hlut (EPS) var 4,38 evru sent (3F18: 3,94 evru sent).
  • Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 47,7 milljónum evra (3F18: 31,6m).
  • Skuldahlutfall (nettó skuldir/EBITDA) var x0,5 í lok september (2F19: x0,6). Markmið félagsins um fjármagnsskipan er að halda skuldahlutfalli milli x2-3 nettó skuldir/EBITDA.
  • Pantanabókin stóð í 431,9 milljónum evra við lok annars ársfjórðungs (2F19: 459,4m og 3F18: 510,8m).

*Rekstrarniðurstaða aðlöguð fyrir afskrift á óefnislegum eignum sem tengjast yfirtökum (PPA).

Ítarlegri umfjöllun um rekstur og afkomu félagsins má finna í enskri útgáfu fréttatilkynningarinnar (íslenska útgáfan fjallar einungis um helstu þætti uppgjörsins, horfur, fjárfestafund og fjárhagsdagatal).

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri

“Rekstur Marel gekk vel á þriðja ársfjórðungi þar sem tekjur námu 313 milljónum evra.  Tekjur og EBIT aukast um 11% á milli ára og EBIT framlegð er stöðug í 14.2%. Tekjur af þjónustu og varahlutum fara vaxandi og námu 37% af heildartekjum. Sjóðsstreymi er gott og hagnaður á hlut eykst um 11% á milli ára.    

Mótteknar pantanir voru 285 milljónir evra sem er nokkuð lægra en við vonuðumst eftir. Engu að síður aukast pantanir um 7% milli ára. Aðstæður á markaði eru krefjandi fyrir matvælaframleiðendur vegna umróts á alþjóðamörkuðum. Í slíkum aðstæðum geta pantanir auðveldlega sveiflast á milli ársfjórðunga. Sameiginlegt verkefni okkar og viðskiptavina okkar er að tryggja framboð til að mæta sívaxandi eftirspurn eftir kjúklingi, kjöti og fiski á heimsvísu. Alþjóðlegt sölu- og þjónustunet ásamt framsæknu vöruframboði setur Marel í lykilstöðu.     

Við tryggjum áframhaldandi vöxt með nýsköpun og markaðssókn, studda af yfirtökum og strategískum samstarfssamningum. Kaup á Cedar Creek Company munu styrkja stöðu Marel í hugbúnaðarlausnum í Eyjaálfu. Samstarf við TOMRA Food er ætlað að styrkja enn frekar okkar sterku stöðu í skynjaralausnum til að hámarka verðmæti afurða, lágmarka sóun í framleiðslu og auka matvælaöryggi.

Síðast en ekki síst, þá erum við mjög spennt að taka höndum saman með Curio sem færir okkur nær því að bjóða heildarlausnir fyrir fiskvinnslu um heim allan.”

Marel undirritar kaup á Curio og Cedar Creek Company

Þann 22. október 2019 samþykkti Marel kaup á 50% hlut í Curio, framleiðanda hátækni fiskvinnsluvéla fyrir frumvinnslu hvítfisks. Marel eignast jafnframt kauprétt á eftirstandandi 50% hlut eftir fjögur ár. Með vöruframboði Curio í flökun, hausun og roðflettingu færist Marel nær því að geta boðið viðskiptavinum heildarlausnir fyrir hvítfiskvinnslu. Curio er íslenskt félag með árstekjur sem nema um 10 milljónum evra. Búist er við því að kaupin gangi formlega í gegn á fjórða ársfjórðungi 2019 að uppfylltum hefðbundnum skilyrðum. Frekari upplýsingar: https://marel.com/is/curio

Þann 23. október 2019 samþykkti Marel kaup á Cedar Creek Company, áströlskum framleiðanda sem sérhæfir sig í hugbúnaðar- og vélbúnaðarlausnum fyrir kjöt-, fisk- og kjúklingavinnslu. Árstekjur félagsins eru um 3 milljónir evra. Búist er við því að kaupin gangi formlega í gegn á fjórða ársfjórðungi 2019 að uppfylltum hefðbundnum skilyrðum. Frekari upplýsingar: https://marel.com/cedarcreek

Horfur

Markaðsaðstæður hafa verið einstaklega góðar á síðustu árum en eru nú meira krefjandi í ljósi umróts á heimsmörkuðum. Marel býr að góðri dreifingu tekna á milli markaða og iðnaða í gegnum alþjóðlegt sölu- og þjónustunet sitt ásamt breiðu og framsæknu vöru- og þjónustuframboði. 

Marel stefnir að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum.

  • Marel gerir ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi 4-6% til lengri tíma. Með sterkri markaðssókn og nýsköpun stefnir Marel að innri vexti umfram almennan markaðsvöxt.
  • Gera má ráð fyrir að áframhaldandi traustur rekstur og sterkt sjóðstreymi geti stutt við 5-7% ytri meðalvöxt á ári.
  • Marel gerir ráð fyrir að hagnaður á hlut vaxi hraðar en tekjur.

Áætlaður vöxtur er háður hagsveiflum og þeim tækifærum sem eru í boði hverju sinni og því má gera ráð fyrir að hann verði því ekki línulegur. Reikna má með breytilegri afkomu á milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar, sveifla í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna.

Afkomuefni

Ítarlegri umfjöllun um rekstrarafkomu er að finna í enskri útgáfu fréttatilkynningar sem er í viðhengi. Sé misræmi á milli uppgjörstilkynninga félagsins á íslensku annars vegar og ensku hins vegar, skal enska útgáfan gilda þar sem tilkynningar eru þýddar af ensku yfir á íslensku.

Fjárfestafundur

Fimmtudaginn 24. október 2019 kl. 8:30 verður haldinn afkomufundur með markaðsaðilum og fjárfestum. Þar munu Árni Oddur Þórðarson forstjóri og Linda Jónsdóttir fjármálastjóri kynna afkomu félagsins og helstu atriði úr rekstri á þriðja ársfjórðungi.

Afkomufundurinn verður haldinn í höfuðstöðvum félagsins að Austurhrauni 9 í Garðabæ. Boðið verður upp á morgunverð frá kl. 8:00.

Fundinum verður einnig vefvarpað beint á www.marel.com/webcast og upptaka verður aðgengileg á www.marel.com/IR eftir fundinn.

Markaðsaðilar geta einnig hringt inn á fundinn:

•           IS: +354 800 7520
•           NL: +31 20 721 9496
•           UK: +44 333 300 9269
•           US: +1 833 526 8347

Fjárhagsdagatal

Marel mun birta árshluta- og ársuppgjör félagsins og halda aðalfund samkvæmt neðangreindu fjárhagsdagatali:

  • 4F 2019 - 5. febrúar 2020
  • Aðalfundur - 18. mars 2020

Birting fjárhagsupplýsinga mun eiga sér stað eftir lokun markaðar.

Fjárfestatengsl

Nánari upplýsingar veita Fjárfestatengsl Marel í gegnum netfangið IR@marel.com og í síma 563 8001.

Um Marel

Marel (NASDAQ: MAREL; AEX: MAREL) er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, heildarlausna, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski. Hjá félaginu starfa yfir 6.000 manns í yfir 30 löndum, þar af um 720 á Íslandi. Marel velti 1,2 milljarði evra árið 2018 en árlega fjárfestir Marel um 6% af veltu í nýsköpun og vöruþróun sem styður við aukna hagkvæmni, öryggi og sjálfbærni í matvælavinnslu. Félagið var skráð í Kauphöll Íslands árið 1992, en í júní 2019 fór fram tvíhliða skráning á 15% hlutabréfa í félaginu í Euronext kauphöllinni í Amsterdam.

Athygli fjárfesta er vakin á eftirfarandi:

Sumar staðhæfingar í þessari fréttatilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu hennar. Í eðli sínu fela slíkar staðhæfingar því í sér óvissu. Vakin er athygli fjárfesta á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í þessari tilkynningu. Tilkynningin verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar.

Gögn um markaðshlutdeild

Yfirlýsingar um markaðshlutdeild, þar með taldar þær sem varða samkeppnisstöðu Marel, byggjast á utanaðkomandi heimildum og gögnum, svo sem gögnum frá rannsóknastofnunum, iðnaðar- og sölunefndum og hópum, ásamt mati stjórnenda Marel. Séu upplýsingar ekki tiltækar fyrir Marel kunna slíkar yfirlýsingar að vera byggðar á áætlunum og mati utanaðkomandi aðila og/eða stjórnenda. Markaðsstaða er byggð á sölutölum nema annað sé tekið fram.

Sé misræmi á milli uppgjörstilkynninga félagsins á íslensku annars vegar og ensku hins vegar, skal enska útgáfan gilda þar sem tilkynningar eru þýddar af ensku yfir á íslensku.

Viðhengi


Pièces jointes

Marel Q3 2019 Condensed Consolidated Interim Financial Statements - EXCEL Marel Q3 2019 Condensed Consolidated Interim Financial Statements_vF Marel Q3 2019 Press Release_vF