Tryggingamiðstöðin hf. – Tillögur til afgreiðslu á hluthafafundi 13. nóvember 2019.


Á hluthafafundi í Tryggingamiðstöðinni hf. 13. nóvember næstkomandi leggur stjórn félagsins eftifarandi tillögur fyrir fundinn til samþykktar:

1. Tillaga um kaup félagsins á öllu hlutafé í Lykli fjármögnun hf.

Hluthafafundur í Tryggingamiðstöðinni hf. 13. nóvember 2019 samþykkir kaup félagsins á öllu hlutafé í lánafyrirtækinu Lykill fjármögnun hf., kt. 621101-2420.

2. Tillaga um tvær breytingar á samþykktum félagsins.

Annars vegar að 1. gr. samþykktanna hljóði svo: „Félagið er hlutafélag. Nafn þess er TM hf.“

Hins vegar að 3. gr. samþykktanna hljóði svo: „Tilgangur félagsins er eignarhald á hlutum í félögum á sviði fjármála-, lána- og fjárfestingastarfsemi, vátryggingastarfsemi og annars skylds reksturs. Enn fremur eignarhald og rekstur fasteigna, eigin fjárfestingarstarfsemi og þjónusta við dótturfélög.“

3. Tillaga um hækkun hlutafjár.

Til að fjármagna kaup á Lykli fjármögnun hf. samþykkir hluthafafundur í Tryggingamiðstöðinni hf. 13. nóvember 2019 að stjórn félagsins verði veitt heimild til að hækka hlutafé félagsins um allt að kr. 125.000.000 að nafnvirði með útgáfu nýrra hluta. Hluthafar skulu hafa forgangsrétt til nýrra hluta sem verða gefnir út á grundvelli heimildarinnar í samræmi við lög um hlutafélög nr. 2/1995 og samþykktir félagsins. Efnt verður til almenns hlutafjárútboðs til að safna áskriftum að hinum nýju hlutum þar sem núverandi hluthafar njóta forgangsréttar í samræmi við hlutafjáreign sína en almennum fjárfestum verður gefinn kostur á að skrá sig fyrir þeim hlutum sem forgangsréttarhafar nýta sér ekki. Í útboðsferlinu er stjórninni veitt heimild til að ákvarða útboðsgengi hluta, áskriftar- og greiðslufresti og sölureglur að öðru leyti.

Arion banka hf. verður falið að hafa umsjón með útboðinu sem mun fara fram jafnskjótt og útboðslýsing hefur verið gerð og skylt er gefa út í tengslum við útboðið.

Við samþykktir félagsins bætist svohljóðandi ákvæði til bráðabirgða:

Stjórn félagsins er heimilt að auka hlutafé félagsins um allt að kr. 125.000.000 að nafnvirði með útgáfu nýrra hluta. Hluthafar njóta forgangs til áskriftar að hinum nýju hlutum i samræmi við hlutafjáreign sína en almennum fjárfestum verður gefinn kostur á að skrá sig fyrir þeim hlutum sem forgangsréttarhafar nýta sér ekki. Andvirði hlutafjáraukningarinnar skal notað til fjármögnunar á kaupum félagsins á öllu hlutafé Lykils fjármögnunar hf. Stjórn félagsins ákveður útboðsgengi þessara hluta, sölureglur, fresti til áskriftar og fresti til greiðslu þeirra. Stjórn félagsins skal heimilt að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum félagsins í tengslum við útgáfuna. Heimild þessi fellur úr gildi eigi síðar en 31. mars 2021.

Stjórn Tryggingamiðstöðvarinnar hf.