Vel heppnað skuldabréfaútboð Landsnets í Bandaríkjunum


Landsnet hefur gefið út óveðtryggð skuldabréf að fjárhæð 100 milljónir bandaríkjadollara (12,3 milljarðar króna) á gjalddaga eftir tíu til tólf ár. Bréfin voru seld til alþjóðlegra fagfjárfesta í lokuðu skuldabréfaútboði í Bandaríkjunum og verða ekki skráð í Kauphöll.

Guðlaug Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri fjármála hjá Landsneti, segir að það sé ánægjulegt að sjá að enn sem fyrr sé mikill áhugi erlendra fjárfesta á félaginu. Rekstur félagsins er stöðugur,  fjárhagsstaðan er sterk og mikill áhugi er á innviðafyrirtækjum eins og Landsneti. „Í hópi þeirra fjárfesta sem tóku þátt í þessari skuldabréfaútgáfu eru bæði aðilar sem tóku þátt í síðustu skuldabréfaútgáfu félagsins á árinu 2016 sem og nýir fjárfestar. Áhugi þeirra var, eins og í fyrra útboði, mikill og bárust tilboð í rúmlega tvöfalda þá fjárhæð sem fyrirtækið leitaði eftir. Skuldabréfaútgáfan er á betri kjörum en síðasta skuldabréfaútgáfa félagsins sem endurspeglar aukið traust fjárfesta á okkur og Íslandi. Með þessari útgáfu höfum við aflað fjármagns til að endurgreiða stofnlán frá Landsvirkjun auk fjármögnunar á hluta af fjárfestingum félagsins á næsta ári.“ segir Guðlaug.

Barclays banki hafði umsjón með skuldabréfaútgáfunni.

Nánari upplýsingar veitir Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármála s: 861 1766