Í dag samþykktu stjórnir Kviku banka og TM að hefja viðræður um sameiningu félaganna. Forsendur viðræðna byggjast á því að TM verði dótturfélag Kviku banka og að Lykill fjármögnun hf., núverandi dótturfélag TM, sameinist Kviku banka. Þá er gert ráð fyrir að hluthafar í TM fái sem endurgjald fyrir hlutabréf sín í TM 55% hlut í sameinuðu félagi miðað við útgefna hluti félaganna í dag.
Viðræðurnar munu fara fram á næstu vikum, ásamt því sem gagnkvæmar áreiðanleikakannanir verða framkvæmdar. Þar sem bæði félög búa við viðvarandi upplýsingaskyldu sem útgefendur skráðra verðbréfa er ekki gert ráð fyrir að sú vinna taki langan tíma. Væntanleg sameining er háð samþykki eftirlitsaðila og hluthafa beggja félaga.
Stjórnir félaganna telja raunhæft að ná fram eins milljarðs króna kostnaðarsamlegð með sameiningu félaganna, án viðskipta- og einskiptiskostnaðar. Gert er ráð fyrir að stærsti hluti kostnaðarsamlegðar komi til vegna hagkvæmari fjármögnunar.
Sameinað félag verður fjárhagslega sterkt fyrirtæki með breiðan tekjugrunn sem mun geta boðið viðskiptavinum sínum upp á fjölþætta þjónustu á öllum helstu sviðum fjármála- og tryggingaþjónustu.