Marel 3F 2020: Sterk framlegð og stefnumarkandi skref til vaxtar


Marel kynnir afkomu þriðja ársfjórðungs (allar fjárhæðir eru í evrum)

Helstu atriði:

Þriðji ársfjórðungur 2020 (3F20)

  • Pantanir námu 282,5 milljónum evra (3F19: 285,0m).
  • Pantanabókin stóð í 434,3 milljónum evra (2F20: 439,0m og 3F19: 431,9m).
  • Tekjur námu 287,2 milljónum evra (3F19: 312,5m).
  • EBIT* nam 44,1 milljónum evra (3F19: 44,3m), sem var 15,4% af tekjum (3F19: 14,2%).
  • Hagnaður nam 29,4 milljónum evra (3F19: 33,4m).
  • Hagnaður á hlut (EPS) var 3,93 evru sent (3F19: 4,38 evru sent).
  • Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 54,1 milljónum evra (3F19: 47,7m). Frjálst sjóðstreymi nam 36,6 milljónum evra (3F19: 29,0m).
  • Skuldahlutfall (nettó skuldir/EBITDA) nam x0,5 í lok september (2F20: x0,6). Markmið félagsins um fjármagnsskipan er að halda skuldahlutfalli á milli x2-3. Gengið var formlega frá kaupum á þýska félaginu TREIF þann 8. október síðastliðinn. Eftir kaupin nam skuldahlutfall (nettó skuldir/EBITDA) 1,1x.

Janúar - september 2020 (9M20)

  • Pantanir námu 914,4 milljónum evra (9M19: 919,5m).
  • Tekjur námu 894,5 milljónum evra (9M19: 963,6m).
  • EBIT* nam 114,5 milljónum evra (9M19: 141,4m), sem var 12,8% af tekjum (9M19: 14,7%).
  • Hagnaður nam 73,5 milljónum evra (3F19: 99,9m).
  • Hagnaður á hlut (EPS) var 9,75 evru sent (3F19: 14,19 evru sent).
  • Einskiptiskostnaður vegna hagræðingar fyrr á árinu, sem ekki er sérstaklega leiðrétt fyrir, er um 4 milljónir evra. Hagræðingaraðgerðir á fyrri helmingi ársins munu skila sér að fullu árið 2021, með lækkun á kostnaðargrunni sem nemur 8 milljónum evra á ársgrundvelli.
  • Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 178,7 milljónum evra (9M19: 129,6m).

*Rekstrarniðurstaða aðlöguð fyrir afskrift á óefnislegum eignum sem tengjast fyrirtækjakaupum (PPA).

Ítarlegri umfjöllun um rekstur og afkomu félagsins má finna í enskri útgáfu fréttatilkynningarinnar (íslenska útgáfan veitir aðeins yfirlit yfir helstu þætti uppgjörsins, horfur, fjárfestafund og fjárhagsdagatal).

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri:

„Við erum ánægð með afkomuna á þriðja ársfjórðungi og það sem af er ári og erum áfram bjartsýn á framtíðarhorfur félagsins. Mótteknar pantanir á þriðja ársfjórðungi og á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 eru á pari við sömu tímabil á síðasta ári. Eftirspurn er mikil eftir aukinni sjálfvirkni og sveigjanleika í framleiðslu á matvælamarkaði til að mæta eftirspurn sem sveiflast milli smásöluverslunar og veitingageirans. Breytingarnar eru  örar og drifnar áfram af neytendum um allan heim sem sækjast eftir fjölbreyttum, hollum og hagkvæmum afurðum sem tilbúnar eru til eldunar. Stafrænar lausnir Marel og alþjóðlegt sölu- og þjónustunet félagsins sem er til staðar í hverri heimsálfu eru lykillinn að árangri félagsins á þessum krefjandi tímum.

Á þriðja ársfjórðungi nema tekjurnar 287 milljónum evra með EBIT framlegð upp á 15,4%. Enda þótt tekjur séu lægri en á sama fjórðungi í fyrra skilum við sambærilegu EBIT í fjórðungnum að fjárhæð 44 milljónir evra. Þessi góða afkoma er drifin áfram af sterkri framlegð sem byggist á góðu hlutfalli háframlegðar vara og þjónustu, með vel skipulagðri framleiðslu og afhendingu og almennt lægri rekstarkostnaði. Sérfræðingar í iðnaðarsetrum félagsins styðja við sölu- og þjónustufólk Marel um allan heim með stafrænum lausnum sem hefur leitt til minni ferðalaga og með þessu móti höfum við lækkað kostnað og minnkað kolefnisfótspor félagsins.  Búist var við því að þessi þróun myndi taka mörg ár en faraldurinn hefur nú hraðað henni verulega.

Góð framlegð og sterkt sjóðstreymi styður við frekari vöxt og virðisaukningu. Þann 8. október var gengið endanlega frá kaupum okkar á TREIF, og fjárhagsleg staða Marel er áfram sterk en skuldahlutfall eftir kaupin var 1,1x EBITDA. TREIF er frábær viðbót við Marel, vöruframboð félaganna fellur vel saman og kaupin munu bæta framboð á heildarlausnum okkar fyrir kjötiðnað. Við sjáum einnig tækifæri í að nýta frábæra tækni og þekkingu TREIF til að hraða vöruþróun og styðja við frekari vöxt í kjúklinga- og fiskiðnaði Marel. Viðskiptavinahópur TREIF er í hæsta gæðaflokki og umfang tæknilausna þeirra sem seldar hafa verið víðsvegar um heiminn er mikið.

Marel er í lykilstöðu til að umbylta matvælaiðnaði enn frekar í samstarfi við langtíma viðskiptavini okkar. Við munum halda áfram að fjárfesta með markvissum hætti í nýsköpun og innviðum, langt umfram það sem þekkist í okkar iðnaði, til viðbótar við kaup á fyrirtækjum og stefnumarkandi samstarfi til að hraða leið okkar fram á við.  Stafræn þróun er á ógnarhraða og með betri nýtingu gagna og upplýsingatækni mun virðiskeðja matvæla taka betur mið af eftirspurn og þannig minnka sóun og bæta nýtingu á hráefni, sem leiðir ennfremur til aukins framboðs af öruggum og hollum matvælum á góðu verði. Á umbrotatímum sem þessum, að teknu tilliti til efnahagslegrar óvissu sem nú ríkir, má gera ráð fyrir sveiflum á milli ársfjórðunga. Við hjá Marel stöndum við metnaðarfull vaxtar- og rekstrarmarkmið til meðallangs- og langs tíma með áframhaldandi vexti og virðisaukningu.“

Marel lýkur kaupum á TREIF

Þann 8. október 2020 gekk Marel frá kaupum á TREIF, þýskum framleiðanda skurðtæknilausna, en tilkynnt var um viðskiptin 4. september síðastliðinn.

TREIF er með yfir 80 milljónir evra í árstekjur og um 500 starfsmenn, en vöruframboð félaganna falla vel saman og munu kaupin einkum styrkja vöruframboð Marel á heildarlausnum, styðja við sölu staðlaðra lausna og auka þjónustutekjur. Stærstu tekjusvið TREIF í dag eru í kjötiðnaði og bökuðum vörum, en með því að nýta þá tækni og þekkingu má hraða vöruþróun og styðja við frekari vöxt í kjúklinga- og fiskiðnaði Marel.

TREIF er leiðandi fyrirtæki á sínu sviði með alþjóðlegan hóp viðskiptavina. Með því að nýta stafrænar lausnir og alþjóðlegt sölu- og þjónustunet Marel í öllum heimsálfum skapast skilyrði fyrir frekari vexti í sölu til annarra geira matvælaiðnaðar, sókn inn á nýja markaði, sem og vexti í þjónustutekjum.

Kaupverðið, sem byggist á heildarvirði (e. enterprise value), var greitt með 128 milljónum evra í reiðufé og 2,9 milljónum hluta í Marel. Eitt af lykilmarkmiðum tvískráningarinnar í Euronext kauphöllina í Amsterdam var að ná fram auknum seljanleika bréfanna á alþjóðavísu sem veitir félaginu gjaldmiðil í tengslum við fyrirtækjakaup sem styður við fyrirætlanir félagsins um langtímavöxt og virðisaukningu.

Áreiðanlegt viðskiptamódel á krefjandi tímum

Aukin fjárfesting Marel í alþjóðlegu sölu- og þjónustuneti, stafrænni þróun og innviðum á síðustu árum, hefur gert fyrirtækinu kleift að aðlaga sig að nýjum veruleika á tímum sem þessum, þar sem markaðsaðstæður hafa litast af viðskiptahindrunum og umróti á heimsmörkuðum, sem og breyttri neytendahegðun í  kjölfar heimsfaraldurs.

Marel býr yfir víðfeðmu sölu- og þjónustuneti og sveigjanleika í framleiðslu sem dregur úr áhættu. Í heimsfaraldrinum hefur félagið markvisst byggt upp öryggisbirgðir af varahlutum og íhlutum til framleiðslu til að tryggja  stöðugt framboð og skamman afhendingartíma. 

Marel starfar með sjálfbærni að leiðarljósi. Sjálfbærni er ekki aðeins varanlegt viðmið í vöruþróun og í þeim heildarlausnum félagsins sem ætlað er að draga úr sóun og stuðla að sjálfbærni, heldur hafa breyttar vinnuaðstæður í för með sér lægra kolefnisfótspor félagsins þar sem stafrænar lausnir hafa komið í stað ferðalaga og hefðbundinna vöru- og iðnaðarsýninga.

Horfur

Markaðsaðstæður hafa verið krefjandi í ljósi umróts á heimsmörkuðum og yfirstandandi COVID-19 heimsfaraldurs. Marel býr að góðri dreifingu tekna á milli markaða og iðnaða í gegnum alþjóðlegt sölu- og þjónustunet sitt ásamt breiðu og framsæknu vöru- og þjónustuframboði. Sem stendur er ekki vitað hver fjárhagsleg áhrif COVID-19 munu verða á Marel.
Marel stendur við vaxtarmarkmið sín til meðallangs- og langs tíma.

Marel stefnir að um 40% framlegð (e. gross profit), 18% sölu-, markaðs- og stjórnunarkostnaði og 6% þróunarkostnaði, til meðallangs tíma.

Marel stefnir að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum.

  • Marel gerir ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi 4-6% til lengri tíma. Með sterkri markaðssókn og nýsköpun stefnir Marel að innri vexti umfram almennan markaðsvöxt.
  • Gera má ráð fyrir að áframhaldandi traustur rekstur og sterkt sjóðstreymi geti stutt við 5-7% ytri meðalvöxt á ári.
  • Marel gerir ráð fyrir að hagnaður á hlut vaxi hraðar en tekjur.

Áætlaður vöxtur er háður hagsveiflum og þeim tækifærum sem eru í boði hverju sinni og því má gera ráð fyrir að hann verði ekki línulegur. Reikna má með breytilegri afkomu á milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar, sveifla í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna.

Afkomuefni

Ítarlegri umfjöllun um rekstrarafkomu má finna í enskri útgáfu fréttatilkynningar sem er í viðhengi. Sé misræmi á milli uppgjörstilkynninga félagsins á íslensku annars vegar og ensku hins vegar, skal enska útgáfan gilda þar sem tilkynningar eru þýddar af ensku yfir á íslensku.

Rafrænn afkomufundur með markaðsaðilum

Miðvikudaginn 21. október 2020 kl. 8:30 verður haldinn afkomufundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta. Fundurinn verður eingöngu rafrænn en þar munu Árni Oddur Þórðarson forstjóri og Linda Jónsdóttir fjármálastjóri kynna afkomu félagsins og helstu atriði úr rekstri á þriðja ársfjórðungi.

Fundinum verður vefvarpað beint á www.marel.com/webcast og upptaka verður aðgengileg á www.marel.com/ir eftir fundinn.

Markaðsaðilar geta einnig hringt inn á fundinn:

  • IS: +354 800 7520
  • NL: +31 20 721 9496
  • UK: +44 33 3300 9035
  • US: +1 833 823 0586

Fjárhagsdagatal

Marel mun birta árshluta- og ársuppgjör félagsins samkvæmt neðangreindu fjárhagsdagatali:

      ·4F 2020 – 3. febrúar 2021

Birting fjárhagsupplýsinga mun eiga sér stað eftir lokun markaðar. Vinsamlegast athugið að dagsetningarnar eru birtar með fyrirvara um breytingar.

Fjárfestatengsl

Nánari upplýsingar veita Fjárfestatengsl Marel í gegnum netfangið IR@marel.com og í síma 563 8001. 

Um Marel

Marel (NASDAQ: MAREL; AEX: MAREL) er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, heildarlausna, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski. Hjá Marel starfa nú um 6.800 manns í yfir 30 löndum, þar af um 720 á Íslandi. Þann 8. október lauk Marel við kaupin á TREIF, þýskum framleiðanda skurðtæknilausna, með 500 starfsmenn og um 80 milljón evrur í veltu. Árið 2019, velti Marel um 1,3 milljarði evra, en árlega fjárfestir félagið um 6% af veltu í nýsköpun og vöruþróun sem styður við aukna hagkvæmni, öryggi og sjálfbærni í matvælavinnslu. Félagið var stofnað 1983, skráð í Kauphöll Íslands árið 1992, og tvíhliða skráð í Euronext kauphöllina í Amsterdam í júní 2019.

Athygli fjárfesta er vakin á eftirfarandi:

Sumar staðhæfingar í þessari fréttatilkynningu kunna að vera byggðar á mati og áætlunum stjórnenda félagsins en ekki á staðreyndum sem hægt er að sannreyna við birtingu hennar. Í eðli sínu fela slíkar staðhæfingar því í sér óvissu. Við vekjum þess vegna athygli fjárfesta á því að margir þættir geta haft þau áhrif að rekstrarumhverfi og afkoma verði með öðrum hætti en forsendur gera ráð fyrir í þessari tilkynningu. Tilkynningin verður ekki endurskoðuð eftir birtingu hvað þetta varðar.

Gögn um markaðshlutdeild

Yfirlýsingar um markaðshlutdeild, þar með taldar þær sem varða samkeppnisstöðu Marel, byggjast á utanaðkomandi heimildum og gögnum, svo sem gögnum frá rannsóknastofnunum, iðnaðar- og sölunefndum og hópum, ásamt mati stjórnenda Marel. Séu upplýsingar ekki tiltækar fyrir Marel kunna slíkar yfirlýsingar að vera byggðar á áætlunum og mati utanaðkomandi aðila og/eða stjórnenda. Markaðsstaða er byggð á sölutölum nema annað sé tekið fram.

Sé misræmi á milli uppgjörstilkynninga félagsins á íslensku annars vegar og ensku hins vegar, skal enska útgáfan gilda þar sem tilkynningar eru þýddar af ensku yfir á íslensku.

Viðhengi



Pièces jointes

Marel Q3 2020 Condensed Consolidated Financial Statements - Excel Marel Q3 2020 Condensed Consolidated Interim Financial Statements_vF Marel Q3 2020 Press Release_vF