Stjórnir Kviku, TM og Lykils undirrita samrunaáætlun


Þann 25. nóvember síðastliðinn samþykktu stjórnir Kviku banka hf. (Kvika), TM hf. (TM) og Lykils fjármögnunar hf. (Lykill) að sameina félögin.

Í dag gengu stjórnir félaganna frá undirritun samrunaáætlunar vegna fyrirhugaðs samruna þeirra. Stjórnir félaganna telja að samruninn verði félögunum og hluthöfum þeirra hagstæður.

Eftirfarandi fyrirvarar í samrunasamningnum frá 25. nóvember sl. eru enn óuppfylltir:

  1. Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) veiti samþykki fyrir samrunanum, sbr. 106 gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002;
  2. FME veiti Kviku samþykki fyrir eignarhaldi á virkum eignarhlut í TM tryggingum hf., TM líftryggingum hf. og Íslenskri endurtryggingu hf., sbr. 58 gr. laga um vátryggingastarfsemi nr. 100/2016;
  3. Samkeppniseftirlitið ógildi ekki samrunann eða setji íþyngjandi skilyrði að mati samrunaaðila, sbr. V. kafla samkeppnislaga nr. 44/2005; og
  4. hluthafar samþykki samrunann í samræmi við 93. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995 á löglega boðuðum hluthafafundum Kviku, TM og Lykils.

Samkvæmt samrunaáætluninni munu hluthafar TM fá, sem endurgjald fyrir hluti sína í TM, 2.509.934.076 hluti í Kviku sem greitt verður með útgáfu nýs hlutafjár.

Stjórnir félaganna telja raunhæft að fyrirvarar samrunasamningsins verði uppfylltir og að félögin verði sameinuð í lok fyrsta ársfjórðungs 2021.

Eins og áður hefur verið gefið út telja stjórnir félaganna raunhæft að með samrunanum megi ná fram 1.200-1.500 m.kr. árlegri kostnaðarsamlegð, án viðskipta- og einskiptiskostnaðar. Því til viðbótar er talið að það séu önnur tækifæri í kostnaðarsamlegð en þau þarfnast frekari greiningar eftir samruna. Stjórnir félaganna telja einnig raunhæft að samruninn geri félögunum kleift að auka tekjur sínar en ekki hefur verið lagt fjárhagslegt mat á þau tækifæri.

Stefnt er að því að samruninn verði borinn upp á hluthafafundum félaganna í lok mars. Samrunagögn verða aðgengileg á heimasíðum félaganna eigi síðar en mánuði fyrir hluthafafundi í samræmi við 5. mgr. 124. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995, en boðað verður til þeirra síðar.