Góður árangur í ljósi aðstæðna
Fjórði ársfjórðungur (4F)
- Rekstrartekjur á 4F 2020 voru 78,7 m€ samanborið við 90,8 m€ á 4F 2019.
- EBITDA nam 13,7 m€ á 4F samanborið við 12,3 m€ á sama tímabili 2019.
- Hagnaður á 4F var 7,9 m€ samanborið við 5,5 m€ á 4F 2019.
Árið 2020
- Rekstrartekjur ársins 2020 voru 292,4 m€ samanborið við 261,3 m€ árið 2019.
- EBITDA ársins 2020 var 57,4 m€ (19,6%) en var 63,3 m€ (24,2%) árið 2019. Með innkomu sölufélaganna í Asíu eykst velta Brim en EBITDA framlegð lækkar.
- Hagnaður ársins 2020 var 29,4 m€, en var 34,0 m€ árið áður.
- Hagnaður á hlut var 0,015 en var 0,019 árið 2019.
- Heildareignir við árslok voru 765,0 m€ samanborið við 700,7 m€ í árslok 2019, aukning er 64 m€ sem má að miklu rekja til kaupa á Fiskvinnslunni Kambi.
- Eiginfjárhlutfall var í lok árs 44% og eigið fé samtals 337,5 m€.
Helsta atriði úr starfseminni
- Heimsfaraldurinn sem geisaði mest allt árið 2020 hafði mikil áhrif á starfsemi félagsins. Starfsfólkið var undir miklu álagi og stóð sig mjög vel við að halda rekstri félagsins gangandi.
- Fiskvinnsla félagsins í Norðurgarði í Reykjavík var endurnýjuð með hátæknibúnaði.
- Tekjur af botnfiski minnkuðu á milli ára, bæði vegna áhrifa frá heimsfaraldrinum og endurnýjunar á botnfiskvinnslu. Heildartekjur jukust vegna sölufélaga í Asíu en tekjur þeirra skiluðu sér til samstæðunnar allt árið 2020 en aðeins á fjórða ársfjórðungi árið 2019.
- Samstæðan stækkaði á árinu með kaupum á Fiskvinnslunni Kambi ehf. sem gengu í gegn miðað við 30. apríl 2020.
- Aðrar fjárfestingar á árinu 2020 voru kaup á 41% hlut í útgerðarfélaginu Þórsbergi ehf. á Tálknafirði, kaup á 33% hlut í sölufélaginu Iceland Pelagic ehf. og fjárfesting í sjávarútvegsfyrirtækinu Arctic Prime Fisheries ApS á Grænlandi.
- Skipastóll samstæðunnar var 9 skip í árslok en krókabáturinn Kristján bættist við á árinu.
- Á árinu 2020 var afli skipa félagsins 47 þúsund tonn af botnfiski og 82 þúsund tonn af uppsjávarfiski samanborið við tæpt 51 þúsund tonn af botnfiski árið áður og tæp 89 þúsund tonn af uppsjávarfiski.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri:
„Afkoman á árinu 2020 er ásættanleg í ljósi aðstæðna. Covid-19 hafði mikil áhrif á alla starfsemi félagsins. Styrkur Brims kom vel í ljós því að þrátt fyrir lokanir og samgönguhöft í öllum heimsálfum gátu viðskiptavinir félagsins treyst á afhendingu gæðafisks frá félaginu.
Starfsfólk félagsins sem var undir miklu álagi og stóð sig mjög vel við erfiðar aðstæður. Brim veiddi allar fisktegundir sem eftirspurn var eftir og vann þær og seldi á mörkuðum um allan heim. Tekjur af veiðum og vinnslu botnfisks dróst saman vegna Covid-19 og vegna lokunar á fiskvinnslu félagsins í Reykjavík í nokkra mánuði vegna endurnýjunar á vinnslubúnaði og í því ljósi er afkoma félagsins viðunandi.
Brim fjárfesti verulega á árinu. Á Íslandi jók félagið aflaheimildir með fjárfestingum í Fiskvinnslunni Kambi í Hafnarfirði og útgerðarfélaginu Þórsbergi á Tálknafirði. Einnig endurnýjaði félagið botnfiskvinnslu sína í Norðurgarði í Reykjavík með uppsetningu á hátæknibúnaði. Þá fjárfesti félagið einnig í grænlenska sjávarútvegsfélaginu Arctic Prime Fisheries og í sölufélaginu Iceland Pelagic.
Heildareignir Brims jukust um 64 milljónir evra á árinu og voru við árslok 765 milljónir evra. Eiginfjárstaða félagsins er mjög sterk og er eigið fé yfir 50 milljarðar króna sem er að mestu leyti kyrrsettur hagnaður félagsins síðustu áratugi.
Þó svo árið 2020 hafi á köflum verið erfitt munum við hjá Brimi ekki síður minnast þess fyrir miklar fjárfestingar í gagngerri endurnýjun og vexti. Erfiðleikarnir hertu okkur og styrktu. Við erum vel í stakk búin til að takast á við vaxandi samkeppni á alþjóðamörkuðum og á sama tíma sinna því hlutverki félagsins að hámarka á ábyrgan hátt verðmæti úr sameiginlegum náttúruauðlindum sem Brimi er treyst fyrir og að tryggja viðskiptavinum um allan heim stöðugt framboð af heilnæmu sjávarfangi sem unnið er úr sjálfbærum fiskistofnum við Ísland.“
Rekstur
Rekstrartekjur Brims hf. árið 2020 námu 292,4 m€ samanborið við 261,3 m€ árið áður. Tekjur af botnfiski lækkuðu milli ára, bæði vegna áhrifa Covid-19 og endurnýjunar á botnfiskvinnslu. Á móti kemur að tekjur vegna sölufélaganna í Asíu koma inn allt árið samanborið við síðasta fjórðung á árinu 2019.
Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 57,4 m€ eða 19,6% af rekstrartekjum, en var 63,3 m€ eða 24,2% árið áður. Skýring á lækkun EBITDA sem hlutfalls af tekjum er vegna innkomu sölufélaganna í Asíu þar sem velta þeirra er hlutfallslega mikil miðað við framlegð þegar borið er saman við veiðar og vinnslu. Fjármagnsgjöld voru 6,8 m€ samanborið við 4,6 m€ árið áður. Hækkun fjármagnsgjalda skýrist af gengistapi árið 2020 samanborið við gengishagnað 2019, áhrif milli ára eru 2,4 m€.
Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 0,8 m€ samanborið við neikvæð áhrif um 1,6 m€ árið áður. Hagnaður fyrir tekjuskatt var 36,4 m€, samanborið 43,0 m€ árið áður. Gjaldfærður tekjuskattur nam 7,5 m€, en var 9,3 m€ árið áður. Hagnaður ársins varð því 29,4 m€ en var 34,0 m€ árið áður.
Meðalfjöldi ársverka árið 2020 var 769 en var 798 árið 2019. Laun og launatengd gjöld námu samtals 66,9 m€, samanborið við 76,6 m€ árið áður (10,3 milljarðar króna á meðalgengi ársins samanborið við 10,5 milljarða árið áður).
Efnahagur
Heildareignir félagsins námu 765 m€ árslok 2020. Þar af voru fastafjármunir 647,9 m€ og veltufjármunir 117,1 m€. Fjárhagsstaða félagins er sterk og nam eigið fé 337,5 m€ og var eiginfjárhlutfall 44,1%, en var 45,3% í lok árs 2019. Heildarskuldir félagsins í árslok 2020 voru 427,5 m€. Nettó vaxtaberandi skuldir voru 206,5 m€ samanborið 224,8 m€ í árslok 2019. Stækkun efnahagsreiknings á árinu 2020 má að stórum hluta rekja til fjárfestinga í dótturfélögunum Fiskvinnslunni Kambi ehf. og Grunni ehf.
Sjóðstreymi
Handbært fé frá rekstri nam 43,1 m€ árið 2020, en var 56,7 m€ árið áður. Fjárfestingarhreyfingar voru neikvæðar um 83,0 m€. Fjárfestingar í rekstrarfjármunum námu samtals 36,3 m€ árið 2020 samanborið við 18,8 m€ árið 2019. Stærstu fjárfestingar ársins voru vegna endurnýjunar fiskvinnslunnar í Norðurgarði. Fjármögnunarhreyfingar voru jákvæðar um 8,0 m€. Handbært fé lækkaði því um 31,9 m€ á tímabilinu og var í árslok 21,6 m€.
Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna
Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi ársins 2020 (1 evra = 154,52 ísk) voru tekjur 45,2 milljarður króna, EBITDA 8,9 milljarðar og hagnaður 4,5 milljarðar. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á lokagengi ársins 2020 (1 evra = 156,1 ísk) voru eignir samtals 119,4 milljarðar króna, skuldir 66,7 milljarðar og eigið fé 52,7 milljarðar.
Covid-19
Áhrif veirufaraldursins Covid-19 á rekstur samstæðunnar hafa verið umtalsverð á árinu. Stjórnendur og starfsmenn félagsins hafa markvisst unnið að því að hlúa að öryggi starfsmanna og með samstilltu átaki hefur tekist að koma í veg fyrir röskun á starfseminni.
Breytingar hafa orðið á mörkuðum víða um heim, með breyttu neyslumynstri matvara og margvíslegum efnahagslegum áhrifum. Til að mynda hafa veitingahús og mötuneyti á lykilmörkuðum samstæðunnar ýmist verið lokuð eða með skerta starfsemi og söluleiðir því aðrar en áður. Með sölufélögunum í Asíu hefur félagið styrkt viðskiptasambönd og stöðu sína á mörkuðum. Flutningaleiðir, ekki síst í lofti, en einnig á sjó, hafa raskast og kostnaður aukist og einnig hefur framleiðslusamsetning breyst vegna framangreindra þátta.
Áhrif veirufaraldursins á rekstur Brims á næstu mánuðum ræðst eðlilega af þróun heimsfaraldursins og þar ríkir áfram óvissa. Stjórnendur samstæðunnar fylgjast náið með þróun mála á helstu mörkuðum en samstæðan er tilbúin til að takast á við breyttar aðstæður enda er hún fjárhagslega sterk og býr að sveigjanleika í rekstri. Ekki er hægt að segja til um það hversu mikil áhrif faraldurinn hefur á rekstur og efnahag samstæðunnar til framtíðar en félagið er vel í stakk búið til að takast á við næstu misseri þar sem Brim er með samþætta virðiskeðju frá veiðum til viðskiptavina.
Aðalfundur
Aðalfundur Brims hf. verður haldinn fimmtudaginn 25. mars 2021 klukkan 17:00. Nánari upplýsingar verða veittar á heimasíðu félagsins www.brim.is.
Tillaga stjórnar á aðalfundi um arðgreiðslu
Samkvæmt stefnu félagsins sem kynnt var í skráningarlýsingu félagsins árið 2014 leggur stjórn félagsins til að arðgreiðsla á árinu 2021 vegna rekstrarársins 2020 verði 1,2 kr. á hlut í arð til hluthafa, eða 2.305 millj. kr. (um 14,8 millj. evra á lokagengi ársins 2020), eða 2,4% af markaðsvirði hlutafjár í lok árs 2020. Arðurinn verði greiddur 30. apríl 2021. Síðasti viðskiptadagur þar sem arður fylgir bréfunum er 25. mars 2021 og arðleysisdagur því 26. mars 2021.
Arðsréttindadagur er 29. mars 2021. Arður greiðist þeim sem skráðir eru í hlutaskrá félagsins í lok arðsréttindadags.
Samþykkt ársreiknings
Ársreikningurinn var samþykktur á stjórnarfundi Brims hf. 25. febrúar 2021. Ársreikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS – International Financial Reporting Standards) og hefur verið endurskoðaður af endurskoðendum félagsins.
Kynningarfundur þann 26. febrúar 2021
Rafrænn kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta vegna uppgörsins verður haldinn föstudaginn 26. febrúar klukkan 8:30. Fundurinn fer fram í gegnum fjarfundabúnað og hægt er að sækja um aðgang að fundinum á póstfangið kynning@brim.is. Á fundinum mun Guðmundur Kristjánsson forstjóri kynna rekstur og afkomu félagsins ásamt því að svara spurningum.
Brim hf.
Brim er öflugt sjávarútvegsfyrirtæki sem starfar í sátt við samfélagið og umhverfið. Við stuðlum að verðmætasköpun í sjávarútvegi með vöruþróun, tæknilausnum og öflugu starfsfólki. Við tryggjum með ábyrgum veiðum og vinnslu, þar sem áhersla er á sjálfbærni og nýsköpun, að sjávarútvegur verði áfram burðarstólpi í íslensku samfélagi. Við leitum allra leiða til að lágmarka áhrif starfseminnar á umhverfið hvort sem er á sjó eða í landi.
Fjárhagsdagatal
Aðalfundur 25. mars 2021
Arðgreiðsludagur 30. apríl 2021
Fyrsti ársfjórðungur 20. maí 2021
Annar ársfjórðungur 26. ágúst 2021
Þriðji ársfjórðungur 18. nóvember 2021
Fjórði ársfjórðungur 24. febrúar 2022
Nánari upplýsingar
Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Kristjánsson forstjóri, sími 550-1000.
Viðhengi