Góð rekstrarafkoma Kópavogsbæjar


Rekstrarafgangur Kópavogsbæjar var 325 milljónir króna árið 2020 en gert hafði verið ráð fyrir 487 milljónum króna í fjárhagsáætlun með viðaukum, samþykktum af bæjarstjórn.

„Ársreikningur Kópavogsbæjar fyrir árið 2020 ber með sér hversu vel Kópavogsbær stendur. Þrátt fyrir þau áhrif sem Covid-19 hefur haft á þjóðfélagið og þar með rekstur Kópavogsbæjar þá er rekstrarafkoman miklu betri en búast mátti við eftir að faraldurinn skall á,“ segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs. „Skýringin er traustur rekstrargrundvöllur  bæjarins um leið og allir hafa lagst á árarnar með að nýta þá fjármuni sem við höfum úr að spila með sem bestum hætti.  Þá hafa aðgerðir ríkisstjórnarinnar haft sitt að segja. Stuðningur ríkisins í gegnum atvinnuleysistryggingasjóð tryggði það að fall útsvarstekna sveitarfélaga varð miklu minna en ella hefði orðið.“

Fjárfestingar

Fjárfestingar og framkvæmdir í eignum bæjarins námu rúmum þremur milljörðum króna.

Meðal stærstu verkefna eru bygging þjónustuíbúða í Fossvogsbrún sem ætlað er að ljúka 2021, lok framkvæmda við húsnæði Skólahljómsveitar Kópavogs, endurnýjun íþróttahúss í Digranesi, endurbætur á skóla- og íþróttahúsnæði í Kórnum og hönnun og undirbúningur nýs Kársnesskóla sem þegar hefur verið boðinn út.

Alls var varið rúmlega 160 milljónum til endurnýjunar og viðhalds leik- og grunnskólalóða. Þá var rúmlega 191 milljónum varið til framkvæmda í skólum bæjarins. Vega þar þyngst framkvæmdir við Kársnesskóla, Kópavogsskóla og Vatnsendaskóla.

Þá voru gatnaframkvæmdir ýmiskonar og framkvæmdir við hjólreiðastíga um 1,2 milljarða króna.

Niðurgreiðsla skulda

Skuldir við lánastofnanir lækkuðu að raungildi árið 2020 að teknu tilliti til verðbólgu. Hins vegar komu inn aðrir þættir eins og hækkun lífeyrisskuldbindinga og dómur í Vatnsendamáli, sem féll 23. desember síðastliðinn. Dómurinn leiðir til hækkunar heildarskulda og þar með til hækkunar skuldaviðmiðs úr 102% í 105% en viðmið samkvæmt lögum er 150%.

Dómur í Vatnsendamáli þýðir eignfærslu á landi sem gefur tekjur í framtíðinni við úthlutun lóða sem lækkar þá skuldir og skuldaviðmið að nýju.

Vaxtaberandi skuldir í ársreikningi 2020 voru 32,7 milljarðar.

Tekjur og eignir

Rekstrartekjur Kópavogsbæjar voru 35,8 milljarðar  króna samkvæmt rekstrarreikningi fyrir A og B hluta en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum að fjárhæð 35,7 milljörðum króna.

Rekstrartekjur A-hluta námu rúmlega 34 milljörðum króna en fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir rekstrartekjum að fjárhæð tæplega 34 milljörðum króna. Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um 143 milljónir króna en fjárhagsáætlun með viðaukum gerði ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu að fjárhæð 321 milljón króna.

Eigið fé samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi A og B hluta í árslok 2020 nam 30,7 milljörðum króna en eigið fé á A hluta nam 19,8 milljörðum króna.

Veltufé frá rekstri samstæðu var 3,3 milljarðar króna en gert var ráð fyrir 3,7 milljörðum með viðauka. Veltufé frá rekstri sýnir hvað rekstur gefur af sér til að standa undir framkvæmdum og afborgunum lána.

Ólíkt síðustu árum eru engar tekjur vegna lóðaúthlutunar árið 2020.

Laun og launatengd gjöld

Laun og launatengd gjöld A og B hluta á árinu námu alls 19,4 milljarði króna. Laun og launatengd gjöld bæjarstjórnar, bæjarráðs og bæjarstjóra námu 113 milljónum á árinu 2020.

Íbúar Kópavogsbæjar þann 1. desember 2020 voru 38.209.

Ársreikningur Kópavogs verður tekinn til fyrri umræðu í bæjarstjórn Kópavogs þriðjudaginn 13. apríl.

Viðhengi



Pièces jointes

KOP-Ársreikningur 2020-fyrri