Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2022 og þriggja ára áætlun 2023-2025


Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2022 - 2025 tillaga til bæjarstjórnar 0411-2021

Fimmtudaginn 4. nóvember 2021 er tekin til fyrri umræðu í bæjarstjórn Fjarðabyggðar fjárhagsáætlun sveitarfélagsins og stofnana fyrir árið 2022 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2023-2025. Seinni umræða bæjarstjórnar um fjárhagsáætlunina hefur ekki verið ákveðin en verður fyrir miðjan desember nk.

Áætlunin sýnir styrka stöðu Fjarðabyggðar og að sveitarfélaginu hefur tekist langt umfram væntingar að bregðast við áhrifum af Covid-19 faraldrinum. Óvæntar loðnuveiðar á árinu 2021 og síðan drjúgur loðnukvóti fyrir næsta ár valda straumhvörfum í viðspyrnu Fjarðabyggðar. Gert er áfram ráð fyrir varfærinni nálgun í skatttekjum sem og tekjum Fjarðabyggðarhafna, sem er annar stærsti hafnarsjóður landsins og stærsta löndunarhöfn á uppsjávarafurðum hérlendis. Ekki var í upphafi gert ráð fyrir loðnuveiðum á árinu 2021 í fjárhagsáætlun ársins vegna óvissu í mælingum á stofnstærð, hvorki í útsvarstekjum eða tekjum hafnarsjóðs. Þessara breytinga sér stað í útgönguspá ársins 2021 og áætlun ársins 2022.

Nokkur breyting hefur orðið á rekstri B hluta stofnana Fjarðbyggðar þar sem rekstur Rafveitu Reyðarfjarðar var seldur á árinu 2020 og rekstri Hjúkrunarheimila hefur verið skilað til ríkisins á árinu 2021. Jafnframt hefur Fjarðbyggð selt umtalsverðan hluta af íbúðum á árinu 2021 sem áður voru reknar undir Félagslegum íbúðum í B hluta.

Eins og verið hefur undanfarin ár er með fjárhagsáætluninni áfram lögð áherslu á velferð fjölskyldufólks í Fjarðabyggð. Við gerð fjárhagsáætlunar 2022 munu flestar gjaldskrár hækka í samræmi við áætlaða verðlagsbreytingum eða 2,4%. Álagningarstuðull fasteignaskatts íbúðarhúsnæðis mun lækka um 4% sem og stuðull vatnsgjalds um 10%.   Gjaldskrár leikskóla, frístundaheimila og tónlistarskóla standast vel samanburð við önnur sveitarfélög þ.m.t. systkinaafsláttur sem og afsláttarkjör milli frístundaheimila og leikskóla. Systkinaafsláttur leikskóla- og frístundagjalda ásamt tónlistarskólagjöldum er með því hagstæðasta sem gerist á landinu. Skólamáltíða í Fjarðabyggð urðu gjaldfrjálsar frá haustinu 2021. Með þessu og hófstilltum gjaldskrám er lögð áhersla á velferð fjölskyldufólks í Fjarðabyggð.  

Fjarðabyggð býr að sterkum innviðum og sjást merki þess í áhuga fjárfesta á Fjarðabyggð. Áhuginn hefur einkum beinst að atvinnuuppbyggingu í hafnsækinni starfsemi. Þetta má m.a. sjá á áhuga fyrirtækja í fiskeldi á að koma starfsemi sinni fyrir í fjörðum Fjarðabyggðar. Á árinu 2021 hófst samstarf um að nýta innviði Fjarðbyggðar til uppbyggingar á grænum orkugarði á Reyðarfirði. Slíkur orkugarður yrði leiðandi fyrir þátttöku Íslands í grænum orkuskiptum og hefði verulega jákvæð áhrif á samfélagið í Fjarðabyggð samhliða    Slíkur áhugi sýnir sterka stöðu sveitarfélagsins til framtíðar litið, sem endurspeglast m.a. í þeirri fjárhagsáætlun sem hér er lögð fram.

Eins og áður verður aðhald í rekstri sveitarfélagsins viðvarandi á næstu árum og áfram verður leitað hagræðingartækifæra. Sú fjárhagsáætlun sem hér er lögð fram, er unnin með hliðsjón af fjármálareglum og fjárhagslegum viðmiðum sveitarfélaga, samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011.

Heildartekjur samstæðu A og B hluta eru áætlaðar rúmir 8,7 milljarðar króna á árinu 2022 en heildar rekstrarkostnaður um tæpa 7,8 milljarða króna. Þar af eru launaliðir um 4,9 milljarðar króna, annar rekstrarkostnaður um 2,3 milljarðar króna og afskriftir um 641 milljónir króna. Heildartekjur í A-hluta eru áætlaðar rúmar 6,8 milljarðar króna en heildar rekstrarkostnaður um rúma 6,5 milljarðar króna. Þar af eru launaliðir um 4,5 milljarðar króna, annar rekstrarkostnaður um 1,7 milljarðar króna. og afskriftir um 310 milljónir króna.

Rekstrarafgangur samstæðu A og B hluta fyrir fjármagnsliði er áætlaður 920 milljónir króna. Þar af er rekstrarafgangur A hluta 318 milljónir króna. Að teknu tilliti til fjármagnsliða verður rekstrarafgangur samstæðunnar 703 milljónir króna en rekstrarafgangur í A hluta að fjárhæð 113 milljónir króna. Hrein fjármagnsgjöld samstæðu eru áætluðuð 218 milljónir króna og 204 milljónir króna hjá A-hluta.

Skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar rúmlega 9,1 milljarðar króna í árslok 2022 hjá samstæðu A og B hluta og um 9,8 milljarðar króna hjá A hluta. Þar af eru reiknaðar lífeyrisskuldbindingar rúmlega 3 milljarðar króna hjá samstæðu og rúmlega 2,8 milljarðar hjá A-hluta.

Í sjóðstreymisyfirliti er handbært fé frá rekstri í samstæðu 2022 áætlað tæpur 1,5 milljarður króna, afborganir langtímalána eru áætlaðar 563 milljónir króna og fjárfestingar rúmlega 920 milljónir króna.   Handbært fé frá rekstri A hluta er áætlað að nemi um 528 milljónum króna og afborganir langtímalána eru áætlaðar 423 milljónir króna í A hluta.

Samkvæmt fjárhagsáætlun ársins 2022 er framlegðarhlutfall (EBIDTA) um 18% í samstæðu og rúm 9% í A hluta.

Nánari upplýsingar um fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar veita Jón Björn Hákonarson bæjarstjóri og Snorri Styrkársson fjármálastjóri í síma 470-9000.


Viðhengi



Pièces jointes

Fjárhagsáætlun Fjarðabyggðar 2022 - 2025 tillaga til bæjarstjórnar 0411-2021 Fréttatilkynning Fjarðabyggð fjárhagsáætlun 2022-2025