Fjárhagsáætlun 2022 samþykkt


Fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar fyrir árið 2022 var samþykkt einróma í bæjarstjórn Kópavogs við seinni umræðu þriðjudaginn 23.nóvember. Í sameiginlegri bókun bæjarstjórnar segir:

"Fjárhagsáætlun Kópavogs fyrir árið 2022 er stefnumarkandi fjárhagsáætlunargerð sem felur í sér að við gerð hennar var tekið mið af stefnum og aðgerðaáætlun bæjarins, mælanlegum markmiðum, mælingum og aðgerðum.
Í fjárhagsáætluninni er áhersla lögð á málefni barna, lýðheilsu og velferð, og endurspeglast það í ýmsum verkefnum og framkvæmdum. Lögð er rækt við grunnþjónustu sveitarfélagsins auk þess sem öflug framkvæmdaáætlun fylgir.
Fjárhagsáætlunin var unnin í samvinnu allra flokka í bæjarstjórninni sem sýnir að bæjarfulltrúar eru tilbúnir til að bera sameiginlega ábyrgð á fjármálum bæjarins, hvar í flokki sem þeir standa, þó að fulltrúar einstakra framboða undirstriki ólíkar áherslur flokkanna.
Bæjarstjórn þakkar starfsfólki bæjarins fyrir mikla og góða vinnu við gerð fjárhagsáætlunarinnar."

Áætlunin gerir ráð fyrir 105 milljón króna rekstrarafgangi samstæðu Kópavogsbæjar árið 2021.

Fjárhagsáætlun var lögð fram til fyrri umræðu 9. nóvember síðastliðinn.

Helsta breyting á fjárhagsáætlun milli umræðna var, að í samræmi við breytingu á reglugerð um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga, er við seinni umræðu búið að reikna inn hlutdeild Kópavogsbæjar í byggðasamlögum og sameignarfélögum bæjarins. Þetta þýðir hækkun á heildartekjum og heildargjöldum samstæðu Kópavogs sem skilar sér í að rekstrarafgangur hækkar um 28,4 milljónir kr. Einnig hækkar þessi breyting efnahagsreikning bæjarins um 2,5 milljarða króna, skuldir um 1,2 milljarð og eigið fé um 1,3 milljarð. Aðrar breytingar eru óverulegar.

Gjaldskrár voru samþykktar við seinni umræðu. Gjaldskrár fyrir grunnskóla, leikskóla og frístund og gjaldskrár eldri borgara fyrir heimilishjálp og mat hækka um 3,5%. Aðrar gjaldskrár bæjarins hækka um 4,2%.

Einnig var samþykkt þriggja ára áætlun 2023-2025.

Viðhengi



Pièces jointes

1. Fjárhagsáætlun 2022-seinni umræða 5. Þriggja ára áætlun Kópavogsbæjar 2023-2025-seinni umræða