Marel: Bráðabirgðauppgjör annars ársfjórðungs 2022 sýnir metpantanir sem nema 472 milljónum evra, tekjur voru 397 milljónir evra og EBIT framlegð 6,3%


Samkvæmt óendurskoðuðu bráðabirgðauppgjöri Marel fyrir annan ársfjórðung 2022 voru metpantanir að upphæð 472 milljónir evra (2F21: 371m) og tekjur námu 397 milljónum evra (2F21: 328m). Kaupin á Wenger skiluðu pöntunum sem nema 17 milljónum evra og tekjum sem nema 12 milljónum evra í fjórðungnum. Pantanabókin er einnig sterk og nam 775 milljónum evra (mars ´22: 619m og júní ´21: 499m), að meðtaldri pantanabók frá Wenger og Sleegers að upphæð 81 milljón evra.

Rekstrarniðurstaða fjórðungsins er undir væntingum með 6,3% EBIT framlegð (2F21: 11,8%). Kaupin á Wenger höfðu jákvæð áhrif á rekstrarniðurstöðuna. Í ljósi áframhaldandi áskorana tengdum aðfangakeðju og hárrar verðbólgu sem leiddi til hægari tekjuvaxtar en vænt var, mun Marel grípa til aðgerða þegar í stað til að bæta rekstrarafkomu og styðja við fjárhagsleg markmið sín fyrir árslok 2023.

Til að lækka kostnað hefur sú erfiða ákvörðun verið tekin að fækka starfsmönnum félagsins um 5% á heimsvísu. Áætlað er að þessar breytingar muni skila sér í lækkun á kostnaðargrunni sem nemur 20 milljónum evra á ársgrundvelli, en einskiptiskostnaður nemur um 10 milljónum evra. Sterk staða pantanabókar og virk verðstýring á vörum Marel munu styðja við stighækkandi tekjuvöxt og bætta rekstrarafkomu á síðari helmingi ársins, eins og fram kom í afkomutilkynningu vegna 1F 2022.

Pípan af nýjum verkefnum er áfram sterk og drifin áfram af nýsköpun og aukinni markaðssókn um heim allan til að mæta væntum vexti. Eftirspurn í alifugla- og fiskiðnuðum er sterk, en veikari í kjötiðnaði sem mun hafa áhrif á samsetningu tekna. Í núverandi umhverfi verðbólgu, skorts á vinnuafli og breytilegri neytendahegðun er Marel í einstakri stöðu til að styðja við matvælaiðnaðinn með hátækni- og hugbúnaðarlausnum sem leiða til meiri sjálfvirkni, öryggis og rekjanleika.

Bráðabirgðauppgjörið er óendurskoðað og kann að taka breytingum. Marel mun birta afkomu fyrir annan ársfjórðung á bæði NASDAQ Iceland og Euronext Amsterdam samkvæmt fjárhagsdagatali sínu þann 27. júlí 2022.

*Rekstrarniðurstaða aðlöguð fyrir afskrift á óefnislegum eignum sem tengjast yfirtökum (PPA) og fyrir kostnaði tengdum yfirtökum.

Rafrænn afkomufundur með markaðsaðilum 28. júlí kl. 8:30

Fimmtudaginn 28. júlí 2022 kl. 8:30 verður haldinn afkomufundur fyrir fjárfesta og markaðsaðila. Fundurinn verður eingöngu rafrænn en þar munu stjórnendur kynna afkomu félagsins og helstu atriði úr rekstri á öðrum ársfjórðungi.

Fundinum verður vefvarpað beint á marel.com/webcast og upptaka verður aðgengileg á marel.com/ir eftir fundinn. Nánari upplýsingar um afkomufundinn verða birtar síðar í vikunni.

Fjárfestatengsl

Nánari upplýsingar veita fjárfestatengsl Marel í gegnum netfangið ir@marel.com og í síma 563 8001.

Um Marel

Marel (NASDAQ: MAREL; AEX: MAREL) er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski. Í gegnum árin, hefur Marel skref fyrir skref, útvíkkað starfsemi sína. Með kaupunum á Wenger, sem tilkynnt voru 27. apríl, myndast fjórða stoðin í viðskiptamódeli Marel með áherslu á lausnum fyrir matvælavinnslu fyrir gæludýr, plöntuprótein og fóður fyrir fiskeldi. Hjá félaginu starfa 7.000+ manns í yfir 30 löndum. Marel velti um 1,4 milljarði evra árið 2021 en árlega fjárfestir Marel um 6% af veltu í nýsköpun og vöruþróun sem styður við aukna hagkvæmni, öryggi og sjálfbærni í matvælavinnslu. Félagið hefur verið skráð í Kauphöll Íslands síðan árið 1992 og var lokið við tvíhliða skráningu í Euronext Kauphöllina í Amsterdam árið 2019. Frekari upplýsingar má finna á marel.com/ir.



Mot-clé