Brim kaupir aukinn kvóta og Sólborgu RE-27


Brim kaupir aukinn kvóta og Sólborgu RE-27
- Aflahlutdeild Brims mun nema 11.82% af heildarþorskígildistonnum - verðmæti viðskiptanna eru 88.5 milljónir evra

Brim hf. hefur gengið frá samkomulagi við Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. um kaup á félaginu RE 27 ehf. en eignir þess eru frystitogarinn Sólborg RE og veiðiheimildir. Verðmæti eigna félagsins eru 88.5 milljónir evra. Verðmæti kvóta miðast við markaðsverð í dag og óháð mat skipasala á Sólborgu RE. Skuldir RE 27 ehf. hjá viðskiptabanka nema 81.5 milljónum evra og mun Brim yfirtaka þær. Kaupverð félagsins er því 7 milljónir evra sem verða greiddar við frágang viðskipta og eftir að búið er að uppfylla hefðbundna fyrirvara. 

Keyptar veiðiheimildir á Íslandsmiðum eru 5.84% aflahlutdeild í loðnu, 3.39% í makríl, 11.42% í gulllaxi og 16.86% af þorskveiðikvóta Íslendinga í Barentshafi. Aflaheimildir í loðnu eru ekki komnar til úthlutunar á þessu ári og heimildir til þorskveiða í Barentshafi eru ekki taldar með í heildaraflaheimildum og því eykur viðbótarkvótinn í makríl og gulllaxi aflaheimildir Brims úr 11.56% af heildarþorskígildistonnum í 11.82%. Ekki er komin úthlutun í loðnu fyrir þetta fiskveiðiár og þar af leiðandi er loðnan 0 þorskígildi í dag. Á síðasta ári fóru heildaraflaheimildir Brims í 14.19% við mikla úthlutun á loðnukvóta, þá var ígildisstuðullinn 0,36 í loðnu en er fyrir þetta fiskveiðiár 0,11.

Markmið þessara viðskipta er að efla uppsjávarsvið Brims og styrkja uppsjávarvinnslu félagsins á Vopnafirði. Þá eykur félagið getu sína til veiða á Norðurslóðum. Á undanförnum árum hefur Brim fjárfest í auknum aflaheimildum m.a. með kaupum á félögunum Ögurvík í Reykjavik og Kambi í Hafnarfirði og hafa þau viðskipti bætt afkomu félagsins til muna og aukið arðsemi rekstrarins. 

Útgerðarfélag Reykjavíkur er eigandi að 43.97% af hlutafé í Brimi hf. og er eigandi félagsins, Guðmundur Kristjánsson, jafnframt forstjóri Brims.