Marel 3F 2022: Tekjur voru 451 milljón evra, upp 36% á milli ára og EBIT framlegð 10,3%


Marel kynnir afkomu þriðja ársfjórðungs 2022 (allar upphæðir eru í evrum).

Helstu atriði í afkomu þriðja ársfjórðungs 2022 (3F22):

  • Marel færist nær rekstrarmarkmiði um 14-16% EBIT framlegð í lok árs 2023.
  • Bætt rekstrarafkoma drifin áfram af hærri tekjum í kjölfar fjárfestinga í sjálfvirkni og stafrænum lausnum í framleiðslu okkar, aðfangakeðju og þjónustu, auk góðrar afhendingargetu og betri kostnaðarþekju á nýjum pöntunum.
  • Áhrif verðhækkana munu koma að fullu fram á næstu ársfjórðungum og stuðla að betri kostnaðarþekju og rekstrarframlegð.
  • Endurskoðað mat á væntu hagræði vegna 5% fækkunar starfsfólks nú 25 milljónir evra á ársgrundvelli (áður 20 milljónir evra), mun skila lægra kostnaðarhlutfalli á komandi ársfjórðungum.
  • Þjónustu- og hugbúnaðartekjur námu 42% af heildartekjum sem endurspeglar sterka stöðu Marel sem lykilþjónustuaðila. Marel færist sífellt nær markmiði sínu um að stöðugar tekjur (e. recurring revenues) frá þjónustu og hugbúnaði nemi um 50% af heildartekjum félagsins í árslok 2026.
  • Góður vöxtur er í pöntunum á nýrri verðlagningu, pantanabók áfram sterk og mikil eftirspurn, drifin áfram af stöðugri nýsköpun og víðfeðmu sölu- og þjónustuneti Marel um heim allan.
  • Pantanir námu 427,1 milljónum evra (2F22: 471,8m, 3F21: 360,6m).
  • Pantanabókin1 stóð í 751,0 milljónum evra (2F22: 774,5m, 3F21: 527,8m) sem samsvarar 47,3% af tekjum síðustu tólf mánaða.
  • Tekjur námu 450,6 milljónum evra (2F22: 397,3m, 3F21: 331,9m).
  • Hlutfall pantana á móti tekjum (e. book-to-bill) var 0,95.
  • EBIT2 nam 46,2 milljónum evra (2F22: 25,0m, 3F21: 36,0m), sem var 10,3% af tekjum (2F22: 6,3%, 3F21: 10,8%).
  • Hagnaður nam 8,9 milljónum evra (2F22: 9,6m, 3F21: 23,2m).
  • Hagnaður á hlut (EPS) var 1,18 evru sent (2F22: 1,27 evru sent, 3F21: 3,10 evru sent).
  • Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 1,0 milljón evra (2F22: 18,4m, 3F21: 19,7m).
  • Frjálst sjóðstreymi var neikvætt sem nam 34,8 milljónum evra (2F22: -7,9m, 3F21: 0,1m), vegna lægri EBITDA framlegðar, aukinna fjárfestinga í innviðum og óhagstæðra hreyfinga í hreinu veltufé.
  • Skuldahlutfall (nettó skuldir/EBITDA) var 3,9x í lok september (2F22: 3,8x, 3F21: 0,9x), eftir kaupin á Wenger. Áhersla lögð á að ná aftur markmiði félagsins um fjármagnsskipan sem er að halda skuldahlutfalli milli 2-3x nettó skuldir/EBITDA.

Helstu atriði í afkomu janúar - september 2022 (9M22):

  • Pantanir námu 1.320,6 milljónum evra (9M21: 1.101,3m).
  • Tekjur námu 1.219,5 milljónum evra (9M21: 993,4m).
  • EBIT1 nam 102,5 milljónum evra (9M21: 112,6m), sem var 8,4% af tekjum (9M21: 11,3%).
  • Hagnaður nam 40,2 milljónum evra (9M21: 67,7m).
  • Hagnaður á hlut (EPS) var 5,33 evru sent (9M21: 9,05 evru sent).
  • Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 52,1 milljónum evra (9M21: 157,8m).
  • Frjálst sjóðstreymi var neikvætt sem nam 28,1 milljónum evra (9M21: 100,2m).

Ítarlegri umfjöllun um rekstur og afkomu félagsins má finna í enskri útgáfu fréttatilkynningarinnar (íslenska útgáfan veitir aðeins yfirlit yfir helstu þætti uppgjörsins, horfur, fjárfestafund og fjárhagsdagatal).

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri:

Frammistaða og samstaða starfsmanna Marel hefur verið einstök á síðustu mánuðum. Tekjur félagsins aukast um 36% á milli ára, og að undanskildum nýlega yfirteknum fyrirtækjum nemur vöxturinn um 20%. Tekjur nema alls 451 milljón evra með EBIT framlegð upp 10,3%. Þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í styðja við 14-16% EBIT markmið félagsins fyrir árslok 2023.

Markmið okkar er að umbylta matvælavinnslu og styðja við sjálfbærari matvælaiðnað þar sem sjálfvirkni og stafræn þróun gegna lykilhlutverki. Við erum sömuleiðis að umbreyta Marel. Fjárfestingar okkar síðustu ár, bæði í fyrirtækjum sem og í vöruþróun og innviðum, eru til þess fallnar að auka sveigjanleika og dreifa áhættu. Við erum að grípa til markvissra aðgerða til að tryggja samkeppnisforskot Marel og markaðsstöðu félagsins sem lykil sölu- og þjónustuaðila á sviði heildarlausna í matvælavinnslu fyrir viðskiptavini okkar – matvælaframleiðendur um heim allan – allt frá minni kjötframleiðendum til alþjóðlegra smásöluaðila. Stöðugar þjónustu- og hugbúnaðartekjur halda áfram að vaxa og nema nú 42% af heildartekjum, sem styður við skýrt markmið okkar um að þær nemi 50% af heildartekjum í lok árs 2026. Metnaðarfullar innviðafjárfestingar okkar nema um 4-5% af tekjum, sem er vel yfir meðaltali sambærilegra félaga, og munu tryggja okkur forystu í nýjum veruleika í alþjóðlegri aðfangakeðju.

Sjóðstreymislíkan félagsins er sterkt og hefur handbært fé frá rekstri fyrir vexti og skatta á móti leiðréttri EBIT framlegð (e. cash conversion rate) numið að meðaltali 125% undanfarin ár, þrátt fyrir tímabundna lækkun vegna truflana í aðfangakeðju. Skuldahlutfall (nettó skuldir/EBITDA) var 3,9x í lok september og stefnt er að því að hlutfallið verði nær 2,0x í byrjun árs 2024 sem eru neðri mörk markmiðs félagsins um skuldahlutfall á bilinu 2-3x.

Í dag tilkynnum við jafnframt um 300 milljón dollara sambankalán til næstu þriggja ára, með möguleika á framlengingu til tveggja ára. Lánið, sem veitt er af hópi alþjóðlegra banka sem hafa fylgt okkur um langt skeið, er m.a. til uppgreiðslu á 150 milljón evra skammtímafjármögnun í tengslum við kaup Marel á Wenger auk þess að rýmka lausafjárstöðu félagsins. Lánveitingin endurspeglar bæði fjárhagslegan styrk félagsins og það mikla traust sem bankarnir hafa á Marel og fjárfestingu félagsins í nýrri stoð til framleiðslu á afurðum úr plöntupróteini, matvælum fyrir gæludýr og fóðri fyrir fiskeldi.

Við þurfum ávallt að sníða okkur stakk eftir vexti. Fækkun stöðugilda um 5% á liðnum ársfjórðungi mun lækka kostnaðargrunn félagsins á ársgrundvelli um 25 milljónir evra á næstu misserum. Á sama tíma þurfum við að leggja grunn að arðsemi félagsins til lengri tíma og búa félagið undir áframhaldandi vöxt. Með þetta að leiðarljósi erum við að aðlaga og betrumbæta innra skipulag félagsins til þess að auka hraða og sveigjanleika á öllum sviðum félagsins. Með “Focus First” verkefninu sem við kynnum í dag verður félagið enn betur í stakk búið að stuðla að stöðugleika í rekstri, efla verðmætasköpun með viðskiptavini í forgrunni, auka ábyrgð tekjusviða og bæta enn hina árangursríku samvinnu sem á sér stað þvert á svið innan félagsins.

Ég er afar hreykinn af okkar öfluga teymi, samheldnum hópi frumkvöðla sem gegna mikilvægu hlutverki í þeirri sjálfbærnibyltingu sem hafin er. Á hverjum degi eigum við þátt í því að uppfylla kröfur neytenda um allan heim um hágæða matvæli sem framleidd eru á sjálfbæran, hagkvæman og öruggan hátt.

Breyting á framkvæmdastjórn og innra skipulagi félagsins (Focus First)

Marel tilkynnir um breytt skipulag félagsins, Focus First, til að styðja við markmið um framtíðarvöxt og arðsemi til lengri tíma. Breytingunni er ætlað að efla verðmætasköpun með viðskiptavini í forgrunni, auka ábyrgð tekjusviða og virkja enn frekar farsælt samstarf innan félagsins.

Hið breytta skipulag samanstendur af 7 tekjusviðum, stoðsviðum og sölu- og þjónustusetrum (e. Customer Centers).

  • Tekjusviðin eru Poultry, Meat, Fish, Retail and Food Service Solutions (RFS), Software Solutions og Plant, Pet and Feed, til viðbótar við Service sem bætist við sem sérstakt tekjusvið frá og með árinu 2025.
  • Þvert á tekjusvið verða starfrækt stoðsvið (e. functions) sem munu styðja tekjusviðin í samræmdri framkvæmd og veita sérfræðiþekkingu.
  • Sölu- og þjónustusetur munu styðja við alþjóðlegt sölu- og þjónustunet félagsins og styrkja sambandið við viðskiptavini félagsins um allan heim.

Marel semur um nýtt 300 milljón dollara sambankalán

Þann 2. nóvember undirritaði Marel samning um nýtt 300 milljón dollara sambankalán til þriggja ára. Vaxtakjör í upphafi samsvara 250 punkta álagi á millibankavexti (e. Secured Overnight Financing Rate, SOFR) en álag mun taka mið af þróun skuldahlutfalls (nettó skuldir/EBITDA). Lánið er með vilyrði um allt að tveggja ára framlengingu að þremur árum liðnum.

Nýja lánið er sambankalán frá sömu leiðandi bönkum á alþjóðlega vísu og komu að 700 milljón evra sambankalánalínu félagsins í febrúar 2020, þ.e. ABN AMRO, BNP Paribas, Danske Bank, HSBC, ING, Rabobank, og UniCredit. Þessi breiði hópur fjármálastofnana fellur vel að alþjóðlegri starfsemi Marel og lánveiting þeirra nú endurspeglar vilja þeirra og stuðning við starfsemi félagsins til lengri tíma litið.

Marel uppfyllir öll fjárhagsleg skilyrði útistandandi lána. Samhliða nýju lántökunni nú var hins vegar samið um rýmkun á skilmálum 700 milljóna evra sambankalánalínu félagsins í þeim tilgangi að auka svigrúm til að mæta tímabundnum sveiflum gjaldmiðla og sjóðstreymis.

Hluta nýja lánsins verður ráðstafað til uppgreiðslu á 150 milljóna evra ádráttarheimild sem nýtt var samhliða kaupum á Wenger fyrr á árinu.

Í lok þriðja ársfjórðungs var lausafjárstaða félagsins 170,3 milljónir evra. Nýja lánið mun auka lausafjárstöðuna í 326,6 milljónir evra að teknu tilliti til handbærs fjár.

Horfur

Á öðrum ársfjórðungi 2022, endurskoðaði Marel markmið sín um 14-16% EBIT framlegð fyrir lok árs 2023 í stað 16% áður, í ljósi umróts í aðfangakeðjum og alþjóðlegu efnahagsumhverfi. Marel stendur að öðru leyti við vaxtarmarkmið sín til meðallangs- og langs tíma. Marel stefnir að um 40% framlegð (e. gross profit), 18% sölu-, markaðs- og stjórnunarkostnaði og 6% þróunarkostnaði í árslok 2023.

Markaðsaðstæður eru áfram krefjandi í ljósi áskorana tengdum aðfangakeðju og hárrar verðbólgu sem hafa leitt til óhagkvæmni í framleiðslu og þjónustu og hærri kostnaðar vegna afhendinga. Yfir tímabilið 2022-2023, gerir Marel ráð fyrir auknum tekjum og bættri rekstrarafkomu með sterkri stöðu pantanabókar og virkri verðstýringu á vörum sem mun leiða til betri kostnaðarþekju á nýjum pöntunum. Marel hefur merkt aukna spurn eftir hátækni- og hugbúnaðarlausnum og þjónustu í matvælaiðnaðinum þar sem aukin áhersla er á sjálfvirkni, róbótatækni og stafrænar lausnir við framleiðslu, og tryggja þannig örugg matvæli sem unnin eru á sjálfbæran hátt.

Marel stefnir að 12% meðalvexti árlega yfir tímabilið 2017-2026 sem byggir á öflugri markaðssókn og nýsköpun, samstarfi við lykilaðila og yfirtökum á fyrirtækjum.

  • Gera má ráð fyrir að áframhaldandi traustur rekstur og sterkt sjóðstreymi geti stutt við 5-7% ytri meðalvöxt á ári.
  • Marel gerir ráð fyrir að almennur markaðsvöxtur nemi 4-6% til lengri tíma. Með sterkri markaðssókn og nýsköpun stefnir Marel að innri vexti umfram almennan markaðsvöxt.
  • Á undanförnum fimm árum hefur vöxtur markaða verið undir lengri tíma markaðsvexti. Gert er ráð fyrir að vöxtur á fimm ára tímabili (2021-2026) verði 6-8% í ljósi uppsafnaðrar fjárfestingarþarfar og hröðun eftirspurnar í kjölfar heimsfaraldurs.
  • Marel gerir ráð fyrir að stöðugar tekjur frá þjónustu, varahlutum og hugbúnaði muni nema um 50% af heildartekjum félagsins í árslok 2026.

Marel gerir ráð fyrir að hagnaður á hlut vaxi hraðar en tekjur.

Gert er ráð fyrir að fjárfestingar í rekstrarfjármunum, að frátöldum nýsköpunarverkefnum, muni aukast í að meðaltali 4-5% af tekjum á tímabilinu 2021-2026, en fari svo aftur í eðlilegra horf.

Áætlaður vöxtur er háður hagsveiflum og þeim tækifærum sem eru í boði hverju sinni og því má gera ráð fyrir að hann verði ekki línulegur. Reikna má með breytilegri afkomu á milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar, sveifla í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna.

Afkomuefni

Ítarlegri umfjöllun um rekstrarafkomu má finna í enskri útgáfu fréttatilkynningar sem er í viðhengi. Sé misræmi á milli uppgjörstilkynninga félagsins á íslensku annars vegar og ensku hins vegar, skal enska útgáfan gilda þar sem tilkynningar eru þýddar af ensku yfir á íslensku.

Afkomufundur með markaðsaðilum

Fimmtudaginn 3. nóvember 2022 kl. 8:30 verður haldinn afkomufundur fyrir fjárfesta og markaðsaðila en þar munu stjórnendur kynna afkomu félagsins og helstu atriði úr rekstri á þriðja ársfjórðungi.

Afkomufundurinn verður haldinn í höfuðstöðvum félagins í Austurhrauni 9, Garðabæ. Boðið verður upp á morgunverð frá kl. 8:00.

Fundinum verður streymt beint á marel.com/webcast og upptaka af fundinum verður aðgengileg á marel.com/ir eftir fundinn.

Markaðsaðilar geta einnig hringt inn á fundinn:

  • IS: +354 800 7437 (PIN 84639778#)
  • NL: +31 20 721 9495
  • UK: +44 33 3300 9035
  • US: +1 646 722 4956

Fjárhagsdagatal

  • 4F 2022 – 8. febrúar 2023
  • AGM – 22. mars 2023

Fjárfestatengsl

Nánari upplýsingar veita Fjárfestatengsl Marel í gegnum netfangið IR@marel.com og í síma 563 8001. 

Um Marel

Marel (NASDAQ: MAREL; AEX: MAREL) er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu tækja, hugbúnaðar og þjónustu fyrir matvælavinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski. Í gegnum árin, hefur Marel skref fyrir skref, útvíkkað starfsemi sína. Með kaupunum á Wenger, sem tilkynnt voru 27. apríl, myndast fjórða stoðin í viðskiptamódeli Marel með áherslu á lausnum fyrir matvælavinnslu fyrir gæludýr, plöntuprótein og fóður fyrir fiskeldi. Hjá félaginu starfa yfir +7.000 manns í yfir 30 löndum, þar af um 750 á Íslandi. Tekjur Marel námu um 1,4 milljarði evra árið 2021 en árlega fjárfestir Marel um 6% af tekjum í nýsköpun og vöruþróun sem styður við aukna hagkvæmni, öryggi og sjálfbærni í matvælavinnslu. Félagið hefur verið skráð í Kauphöll Íslands síðan 1992 og var lokið við tvíhliða skráningu í Euronext Kauphöllina í Amsterdam árið 2019. Frekari upplýsingar má finna á marel.com/ir.


1 Að meðtöldum yfirteknum pantanabókum Wenger og Sleegers að fjárhæð 81 milljónum evra frá öðrum ársfjórðungi 2022.
2 Rekstrarniðurstaða aðlöguð fyrir afskrift á óefnislegum eignum sem tengjast yfirtökum (PPA) og fyrir kostnaði tengdum yfirtökum. Á þriðja ársfjórðungi 2022 er rekstrarniðurstaða jafnframt leiðrétt fyrir kostnaði vegna endurskipulagningar vegna fækkunar starfsfólks um 5%.

Viðhengi



Pièces jointes

Marel Q3 2022 Condensed Consolidated Interim Financial Statements Marel Q3 2022 Condensed Consolidated Interim Financial Statements (EXCEL) Marel Q3 2022 Press release