VÍS: Guðný Helga ráðin forstjóri


Gengið hefur verið frá ráðningu Guðnýjar Helgu Herbertsdóttur í starf forstjóra VÍS  ̶   en hún hefur verið starfandi forstjóri síðan 10. janúar sl.  

Guðný Helga hefur verið í framkvæmdastjórn félagsins síðan 2017. Hún hefur frá síðasta vori starfað sem framkvæmdastjóri sölu og þjónustu en var áður framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar. Hún hóf störf hjá félaginu árið 2016 sem markaðsstjóri. Guðný Helga hefur verið í leiðandi hlutverki í stefnumótun félagsins á undanförnum árum. Hún stýrði stafrænni umbreytingu félagsins og innviða uppbyggingu í upplýsingatæknimálum. Hún hefur leitt stefnumarkandi verkefni s.s. Ökuvísi, þróun þjónustugáttar félagsins og nýtt vildarkerfi.

Guðný Helga er með stjórnunargráðu (AMP) frá Viðskiptaháskólanum IESE í Barcelona á Spáni. Hún er jafnframt með meistaragráðu frá Viðskiptaháskólanum í Árósum í Danmörku og B.S. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands.

Í síðustu viku var tilkynnt um viðræður VÍS og Fossa um kaup á hlutafé þess síðarnefnda. Guðný Helga mun leiða tryggingahluta starfseminnar í sameinuðu félagi.

Stefán Héðinn Stefánsson, stjórnarformaður VÍS:
„Framundan eru spennandi tímar hjá félaginu þar sem aukin áhersla er lögð á sókn þess. Guðný Helga kom inn í nýtt hlutverk í upphafi árs af festu og öryggi og nýtur mikils trausts, bæði stjórnar og starfsfólks. Ég tel að hún sé sú rétta til þess að leiða tryggingafélagið til framtíðar. Guðný Helga hefur starfað hjá félaginu undanfarin rúm sex ár og hefur tekið þátt í þróun og stefnumótun þess. Þekking hennar, reynsla og styrkleikar eiga eftir að leika lykilhlutverk í vegferðinni framundan  ̶  enda er hún framúrskarandi stjórnandi. Ég hlakka til áframhaldandi samstarfs.“

Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS:
„Undanfarin ár hefur VÍS tekið miklum breytingum. Stafræn þróun hefur verið á fullri ferð og alger umbreyting átt sér stað hjá félaginu. Nú taka við ný og spennandi verkefni. Tryggingar skipta okkur öll miklu máli  ̶  því rétt vernd getur skipt sköpum í lífi okkar allra. Það er okkar verkefni að gera tryggingar skiljanlegar og aðgengilegar. Við munum halda áfram að breyta því hvernig tryggingar virka og hafa hugrekki til þess að fara ótroðnar slóðir. VÍS er öflugt félag sem býr yfir framúrskarandi mannauði  ̶  og nú tökum við enn stærri skref til móts við nýja tíma með hagsmuni viðskiptavina okkar að leiðarljósi. Ég hlakka til vegferðarinnar sem er framundan.“

Nánari upplýsingar veitir Erla Tryggvadóttir, samskiptastjóri VÍS, í síma 660-5260 eða með netfanginu erlat@vis.is

Viðhengi


Guðný Helga Herbertsdóttir forstjóri VÍS