Stjórn Vátryggingafélags Íslands (VÍS) hefur ákveðið að leggja til við aðalfund að tekin verði til greina ábending Gildis-lífeyrissjóðs um að réttara væri að fjalla um breytingar á tilgangsákvæði félagsins, sbr. dagskrárlið sex á aðalfundi félagsins um breytingar á samþykktum félagsins, í samhengi við umræðu um framtíðarskipulag og fyrirhuguð kaup á Fossum fjárfestingarbanka hf. (Fossar).
Stjórn VÍS mun því leggja til við aðalfund að tillaga stjórnar um breytingar á tilgangi félagsins verði tekin af dagskrá aðalfundar, en upplýsir jafnframt um að tillaga um breytinguna verði tekin upp á síðari hluthafafundi í samhengi við fyrirhuguð kaup á Fossum. Stjórn félagsins vill þó taka fram að breytingarnar hafi verið lagðar fram til þess að skýra heimildir félagsins og endurspegla þá sýn sem sett hefur verið fram af stjórn þess til framtíðar og unnið hefur verið eftir á síðustu misserum. Þær hafi ekki verið settar fram í beinni tengingu við kaup á öllu hlutafé í Fossum.
Verði kaupin á Fossum leidd til lykta er fyrirhugað að boðað verði til hluthafafundar, þar sem óskað verður eftir heimild hluthafa til útgáfu nýs hlutafjár í félaginu til að mæta fyrirhuguðu kaupverði. Á sama tíma verður lögð fram breytingartillaga á tilgangsákvæði að nýju með vísan til þeirrar sýnar sem verður kynnt á fundinum.
Jafnframt hefur stjórn félagsins rætt við Gildi-lífeyrissjóð með vísan til breytingartillögu sjóðsins við tillögu um starfskjarastefnu, sem birt var hluthöfum þann 7. mars síðastliðinn. Samstaða hefur náðst milli Gildis og stjórnar VÍS um að það orðalag sem breytingartillaga sjóðsins gerði ráð fyrir og bætist við gr. „3. Kaupaukakerfi“. Tillagan verður eftirfarandi: „Þá skal upplýst um skilmála slíkra réttinda og forsendur þær sem liggja verðlagningu þeirra til grundvallar í starfskjaraskýrslu, sbr. 7. gr.“ í stað þess orðalags sem fram kemur í breytingartillögunni.
Nánari upplýsingar veitir Erla Tryggvadóttir, samskiptastjóri VÍS, í síma 660-5260 og með tölvupósti fjarfestatengsl@vis.is