Gengið hefur verið frá ráðningu Árna Huldars Sveinbjörnssonar í starf yfirlögfræðings Eikar fasteignafélags hf. og mun hann hefja störf með vorinu.
Árni Huldar kemur til liðs við félagið frá KPMG Law ehf. þar sem hann hefur starfað sem lögmaður og verkefnastjóri. Á árunum 2013 til 2021 gegndi hann stöðum sviðsstjóra viðskiptasviðs og yfirlögfræðings Lykils fjármögnunar hf. Þar áður starfaði hann sem lögfræðingur hjá Íslandsbanka á árunum 2009 til 2013 og hjá Fjármálaeftirlitinu 2006 til 2009. Árni er lögfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og hefur réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi.
Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri:
„Það er akkur í því fyrir félagið að til liðs við það gangi lögfræðingur með umfangsmikla reynslu af stjórnun og samningagerð. Störf Árna Huldars sem lögfræðings bæði hjá hinu opinbera og innan einkageirans gera hann vel í stakk búinn til þess að takast á við verkefni yfirlögfræðings félagsins. Við hlökkum til samstarfsins.“