Gróska ehf - Ársreikningur 2022


Gróska heldur áfram að skapa umhverfi þar sem hugmyndir verða að veruleika!

Rekstrartekjur félagsins á árinu 2022 námu 699,2 millj.kr. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu fjárfestingareigna og afskriftir námu 407,8 millj. kr.  Matshækkun á fjárfestingareignum nam 681,5 millj. kr. Handbært fé frá rekstri nam 122,2 millj.kr. Heildarafkoma ársins nam 182,7 millj. kr.

Heildareignir félagsins í árslok námu 14.662,5 millj. kr. en þar af eru fjárfestingareignir 12.481 millj. kr. Eigið fé nemur 3.718,9 millj.kr. og eiginfjárhlutfall 25,4%.

Vera Dögg Antonsdóttir, framkvæmdastjóri Grósku ehf:

Á árinu var bygging Grósku að Bjargargötu 1 tekin í frekari notkun. Byggingin er að mestu komin í útleigu til traustra leigutaka sem byggja á sameiginlegu markmiði Grósku að efla nýsköpunarsamfélagið á Íslandi. Dagleg starfsemi á árinu fólst í að þjónusta þá leigutaka sem aðsetur hafa í Grósku, innrétta rými fyrir nýja leigutaka og að skapa aðstæður til samskipta og tengsla, hvort sem það er innan hússins eða við fræðasamfélag háskólasvæðisins.

Verðbólga og hækkandi vextir höfðu áhrif á rekstur félagsins. Allir leigusamningar Grósku ehf eru verðtryggðir og hækka þannig í takt við verðbólgu. Verðbólgan hafði hins vegar neikvæð áhrif á fjármagnsgjöld og þar af fjármögnun félagsins. Á árinu hófst endurfjármögnun á framkvæmdalánum og gaf félagið út sjálfbær skuldabréf sem voru tekin til viðskipta á skuldabréfamarkaði Nasdaq Iceland hf. þann 29. september 2022 (GROSKA 29GB). Þessi vegferð mun halda áfram á árinu 2023 en félagið hefur áform um að endurfjármagna það sem eftir stendur af framkvæmdalánum með frekari útgáfu á skuldabréfum og eða langtímalánum.

Stjórnendur félagsins telja að horfur í rekstri séu góðar. Á næstu misserum heldur vinna áfram við að auka þjónustu við leigutaka. Samhliða því er gert ráð fyrir auknum rekstrartekjum. Leigutakar eru traustir og vinna saman að því að efla nýsköpunarsamfélagið á Íslandi.

Nánari upplýsingar veitir:
Vera Dögg Antonsdóttir
framkvæmdastjóri Grósku ehf. Sími 8661207/Tölvupóstur: vera@groska.is

Viðhengi



Pièces jointes

Gróska ehf.  Ársreikningur 2022 - dags. 18.04.2023