Árshlutareikningur Landsnets fyrir janúar - júní 2023



Árshlutareikningur Landsnets fyrir janúar – júní 2023 var lagður fram í dag.

Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármála og árangurs hjá Landsneti segir rekstur gengið vel þrátt fyrir áframhaldandi áskoranir í aðfangakeðjunni 
„Rekstur félagsins hefur gengið vel og hagnaður tímabilsins var 14,9 MUSD. Við erum áfram að takast á við áskoranir við öflun aðfanga, bæði hvað varðar afhendingartíma búnaðar og hækkanir á verðum. Þetta hefur þýtt að fjárfestingar eru undir áætlun á tímabilinu og útlit er fyrir að svo haldist út árið. Með þessa óvissu í ytra umhverfi er enn mikilvægara að viðhalda sterkri stöðu félagsins sem skapast fyrst og fremst út af faglegum vinnubrögðum og stöðugleika í lagaumhverfinu.
Við hjá Landsneti höfum tekist á við ýmsar óvæntar áskoranir og krefjandi verkefni á tímabilinu sem hafa þó ekki haft teljandi áhrif á rekstrarniðurstöðu. Má þar nefna bilun á sæstreng til Vestmannaeyja. Á meðan viðgerð strengsins stóð voru fundnar hagkvæmar lausnir til að tryggja flutning raforku til Eyja sem að öðrum kosti hefði þurft að leysa með keyrslu díselvéla með umtalsverðum kostnaði eða allt að 500 millj.kr. Þessi útfærsla leiddi til verulegs sparnaðar, auk jákvæðra umhverfisáhrifa, en komið var í veg fyrir losun gróðurhúsalofttegunda sem nam 7.400 tonna af koltvísýringi.
Mikilvægur áfangi náðist í afhendingaröryggi þegar tengivirkið í Hrútatungu var tekið í notkun í vor. Þá er ánægjulegt að samkomulag náðist á fyrri hluta ársins um útgáfu framkvæmdaleyfis við síðasta sveitarfélagið á leið Suðurnesjalínu 2. Tvítenging flutningskerfis út á Reykjanes er ein af mikilvægustu framkvæmdum flutningskerfisins en framkvæmdin getur hafist um leið og lokið er við síðustu samninga við landeigendur.“

Helstu atriði árshlutareiknings:

Hagnaður Landsnets hf. samkvæmt rekstrarreikningi nam 14,9 m. USD (2.083,3 millj.kr) 1 fyrstu 6 mánuði ársins 2023 samanborið við 19,5 m. USD (2.721,1 millj.kr) á sama tímabili árið 2022.  Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 29,9 m. USD (4.177,8 millj.kr) samanborið við 32,7 m. USD (4.571,9 millj.kr) árið áður.   

Heildareignir félagsins í lok tímabilsins námu 1.065,6 m. USD (145.823,3 millj.kr) samanborið við 1.032,4 m. USD (141.277,1 millj.kr) í lok árs 2022. Heildarskuldir námu í lok tímabilsins 593,8 m. USD (81.259,1 millj.kr) samanborið við 550,1 m. USD (75.276,9 millj.kr) í lok árs 2022. 

Eiginfjárhlutfall í lok tímabilsins var 44,3% samanborið við 46,7% í lok ársins 2022. Eigið fé í lok tímabilsins nam 471,8 m. USD (64.564,2 millj.kr) samanborið við 482,3 m. USD (66.000,2 millj.kr) í lok árs 2022.

Handbært fé í lok júní nam 52,8 m. USD (7.220,3 millj.kr) og handbært fé frá rekstri á tímabilinu nam 39,4 m. USD (5.510,8 millj.kr).

Nánar á www.landsnet.is  þar sem hægt er að nálgast ársreikninginn.


1 Til viðmiðunar eru sýndar íslenskar krónur, notast var við meðaltal miðgengis Seðlabanka fyrir tímabilið USD/ISK 139,75 fyrir rekstrartölur en lokagengi miðgengis Seðlabanka þann 30. júní 2023 USD/ISK 136,85 fyrir efnahagstölur.

Um Landsnet

Landsnet tók til starfa árið 2005 og ber ábyrgð á flutningskerfi raforkunnar, einum af mikilvægustu innviðum samfélagsins. Hlutverk félagsins er að annast flutning raforku á Íslandi, uppbyggingu flutningskerfisins og stjórnun raforkukerfisins.


Viðhengi



Pièces jointes

Tilkynning til Kauphallar - Landsnet árshlutareikningur 30.06.23 Landsnet árshlutareikn 300623