Hluthafafundur Eikar fasteignafélags hf. var haldinn föstudaginn 15. september 2023 kl. 16:00 í salnum Sjónarhóll, Nauthól, Nauthólsvegi 106, Reykjavík.
Á fundinum var samþykkt svohljóðandi tillaga stjórnar um heimild til að undirrita samrunasamning við Reiti fasteignafélag hf. með 83,88% atkvæða sem farið var með á fundinum:
„Hluthafafundur Eikar fasteignafélags hf. samþykkir að stjórn félagsins sé heimilt að gera samrunasamning við Reiti fasteignafélag hf. þar sem fram koma helstu skilmálar og forsendur samruna við Reiti fasteignafélag hf.
Að öðru leyti en greinir sérstaklega í samþykki þessu skal stjórn félagsins heimilt að semja um efni samrunasamningsins sem og samrunaáætlunar og annarra samrunagagna samkvæmt lögum um hlutafélög sem mynda skulu órjúfanlegan hluta samrunasamningsins.
Stjórn skal eingöngu heimilt að undirrita samrunagögn á grundvelli samrunasamningsins ef fyrir liggur að yfirtökutilboð Regins hf. í félagið hafi ekki verið samþykkt af tilskildum meirihluta hluthafa Eikar fasteignafélags hf.
Samþykki þetta víkur á engan hátt til hliðar skyldum félagsins til að leggja samrunann fyrir hluthafa til endanlegrar ákvörðunar í samræmi við ákvæði laga um hlutafélög nr. 2/1995.““
Engin önnur mál voru tekin til afgreiðslu á fundinum og var honum slitið kl. 17:10.