SKEL fjárfestingafélag hf.: Fyrirvarar uppfylltir í tengslum við áskrift Horns að hlutafé að andvirði 3.500.000.000 kr. í Styrkás


Vísað er til tilkynningar, dags. 4. júlí sl., um fjárfestingu Horns IV slhf., framtakssjóðs í stýringu Landsbréfa hf., í Styrkás, móðurfélagi Skeljungs og Kletts. Horn skráði sig fyrir hlutafé að andviði 3.500.000.000 kr. eða því sem nemur 29,54% af heildarhlutafé félagsins. Kaupverð og fjöldi hluta í viðskiptunum byggði á því að fyrir hlutafjáraukninguna væri samanlagt virði eigna Styrkáss 8.350.000.000 kr. og heildarvirði („Enterprise Value“) 11.200.000.000 kr. Áskriftarsamningur var gerður með fyrirvara um niðurstöðu áreiðanleikakannana og samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Niðurstöður lögfræðilegrar, skattalegrar og fjárhagslegrar áreiðanleikakannanna liggja nú fyrir. Samkeppniseftirlitið hefur sömuleiðis staðfest að það muni ekki aðhafast frekar vegna viðskiptanna. Allir fyrirvarar viðskiptanna eru því uppfylltir. Kaupverð og fjöldi hluta í viðskiptunum er óbreytt frá því sem tilkynnt var um þann 4. júlí.

Ráðgert er að gengið verði endanlega frá viðskiptunum með greiðslu kaupverðs og afhendingu hlutafjár fyrir lok mánaðar.

Ásmundur Tryggvason hefur verið ráðinn forstjóri Styrkáss. Ásmundur var áður framkvæmdastjóri fyrirtækja og fjárfestasviðs Íslandsbanka um tæplega fimm ára skeið. Hann var þar áður forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar bankans í sjö ár en hefur jafnframt setið í stjórnum ýmissa félaga, eins og Símans, Lýsingar og VÍS eignarhaldsfélags. Ásmundur er lögfræðingur að mennt.

Ásmundur Tryggvason, forstjóri Styrkáss:

„Með hlutafjáraukningunni er Styrkás í kjörstöðu til að ýta úr vör framtíðasýn hluthafa um leiðandi þjónustufyrirtæki á fyrirtækjamarkaði sem hefur styrk til að þjónusta þá innviða- og atvinnuvegafjárfestingu sem framundan er. Markmið Styrkáss er að byggja ofan á sterkar stoðir samstæðunnar með innri og ytri vexti á sviði orku og efnavöru, tækja og búnaðar, umhverfis, iðnaðar og eignaumsýslu. Innan samstæðu félagsins í dag eru Skeljungur og Klettur sem eru leiðandi félög á sínum sviðum. Jafnframt er mikill styrkur fyrir félagið að fá Horn í hluthafahópinn en sjóðurinn hefur með virkri aðkomu náð framúrskarandi árangri í sínum fjárfestingum.“

Nánari upplýsingar veitir Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri, fjarfestar@skel.is