Síminn hf. - Fjölbreytt vöruframboð skilar tekjuvexti


Helstu niðurstöður úr rekstri á 3F 2023

  • Tekjur á þriðja ársfjórðungi (3F) 2023 námu 6.501 m.kr. samanborið við 6.210 m.kr. á sama tímabili 2022 og jukust um 4,7%. Tekjur í kjarnaþjónustu Símans, farsíma, gagnaflutningi og sjónvarpsþjónustu aukast um rúm 7% á fjórðungnum.
  • Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 1.811 m.kr. á 3F 2023 og eykst því um 21 m.kr. eða 1,2%. EBITDA hlutfallið er 27,9% fyrir 3F 2023 en var 28,8% á sama tímabili 2022. Rekstrarhagnaður (EBIT) nam 765 m.kr. á 3F 2023 samanborið við 986 m.kr. á sama tímabili 2022.
  • Hrein fjármagnsgjöld námu 126 m.kr. á 3F 2023 en námu 84 m.kr. á sama tímabili 2022. Fjármagnsgjöld námu 303 m.kr., fjármunatekjur voru 161 m.kr. og gengishagnaður nam 16 m.kr.
  • Hagnaður á 3F 2023 nam 507 m.kr. samanborið við 718 m.kr. hagnað af áframhaldandi starfsemi á sama tímabili 2022.
  • Vaxtaberandi skuldir samstæðu að leiguskuldbindingum meðtöldum námu 10,2 ma.kr. í lok 3F 2023, en voru 8,9 ma.kr. í árslok 2022. Handbært fé í lok 3F 2023 nam 2,0 ma.kr., en var 3,7 ma.kr. í árslok 2022. Staða útlána hjá Símanum Pay var 2,5 ma.kr. í lok 3F 2023, en var 1,7 ma.kr. í árslok 2022.
  • Eiginfjárhlutfall Símans var 52,4% í lok 3F 2023 og eigið fé 18,0 ma.kr.

 

Orri Hauksson, forstjóri:

"Frá fyrstu tveimur fjórðungum ársins aukast nú tekjur, EBITDA og EBIT með myndarlegum hætti. Utanaðkomandi kostnaðarhækkanir hafa verið örar undanfarin misseri og við höfum varla náð að láta tekjuvöxt halda í við aukin útgjöld. Þriðji fjórðungur í ár var hagfelldari en hinir fyrri tveir, sem oft er raunin en sú breyting er sérlega áberandi nú, auk þess sem EBITDA vex lítillega milli ára. Við erum enn í miðju afskriftaferli aukinna fjárfestinga okkar frá undanförnum tveimur árum, fyrst og fremst vegna samninga um vinsælt sjónvarpsefni og vegna nýrrar tækni með stuttan afskriftatíma. Til lengri tíma munu þær fjárfestingar nýtast fyrirtækinu vel, en hafa tekið EBIT verulega niður undanfarna ársfjórðunga. Þar hefur botninum nú verið náð og EBIT hafið vaxtarferil sinn á ný.

Við höfum gert fjölmargar breytingar á vöruframboði okkar á árinu sem virðist hafa mætt þörfum neytenda vel. Íslenskir neytendur velja í auknum mæli að kaupa það heildarvöruframboð frá þjónustuveitendum sínum í fjarskiptum og sjónvarpi sem þeim hentar, í stað þess að handvelja hvern þjónustuþátt. Í tilfelli Símans hefur seldum pökkum fjölgað um 10% á árinu, en stökum vörum eins og internetþjónustu hefur fækkað á móti. Viðskiptavinum í farsíma hefur síðan fjölgað duglega undanfarið, bæði innan pakka og utan, auk þess sem reikitekjur hafa vaxið nokkuð með fjölgun ferðamanna.

Í heild á sér stað ör og fjölbreytileg tekjuþróun vegna innri og ytri breytinga, sem aftur hefur framkallað fleiri útgáfur en áður af þeim viðskiptum sem heimili eiga við Símann. Sum heimili hafa þannig lækkað reikning sinn en önnur hafa valið stærri pakka og bætt við vörum. Stærsti ávinningur Símans í þessari vöruþróun er að við mætum nú fjölbreyttari þörfum en áður og ekki síst til yngri markhópa en fyrr.

Sjónvarp Símans er dæmi um vöru sem höfðar sífellt betur til yngri áhorfendahópa, en einnig hins trausta kjarna sem lengi hefur verið í viðskiptum. Áhorf hefur aukist hratt á ný, en fyrst eftir að heimsfaraldrinum lauk dró merkjanlega úr þeim tíma sem fólk varði fyrir framan sjónvarpið. Falla nú ný áhorfsmet viku eftir viku, en fremst fer þáttaröðin um IceGuys hljómsveitina, sem hefur fengið að meðaltali um tíu þúsund spilanir á dag frá því fyrsti þátturinn fór í loftið 6. október síðastliðinn. Erlendar þáttaraðir, barnaefni og fótbolti eiga einnig sína tryggu áhorfendur.

Framundan er meira af öllu framangreindu, sér í lagi hágæða íslenskum þáttaröðum fram að jólum. Einnig er Síminn í spennandi þróunarverkefni með HSÍ sem fyrst íslenskra íþróttasambanda freistar þess að selja aðgengi að íþróttinni milliliðalaust til áhorfenda um kerfi Símans. Í þessu verkefni spilar gervigreind stórt hlutverk og því afar spennandi fyrir Símann sem tæknifyrirtæki. Eftir áramót verður á hinn bóginn áhugavert að sjá hvernig framleiðsla á sjónvarpsefni þróast í heiminum í heild, en vinnudeilur í Hollywood gætu dregið tímabundið úr framboði nýrri þátta frá þessu höfuðvígi afþreyingariðnaðarins.

Fjártækni og notkun léttkorts Símans vaxa hraðast af öllum vöruflokkum félagsins. Munu útlán í lok október nema tæpum þremur milljörðum króna á einstaklingsmarkaði. Fyrirtæki sem eru í viðskiptum við Símann hafa rétt eins og heimili fjölgað þeim þjónustuþáttum sem þau afla sér frá Símanum. Beiðnakerfi Símans fyrir kaupheimildir starfsmanna fyrirtækja í reikningsviðskiptum er sá hluti af fjártækni Símans á fyrirtækjamarkaði sem örast vex í augnablikinu. Kerfið skapar eitt og sér ekki risavaxnar tekjur fyrir Símann enn sem komið er, en er góður grunnur að frekara vöruframboði til fyrirtækja.

Auglýsingar eru einnig ört vaxandi afurð sem fyrirtæki sækja til Símans, enda byggja þær í okkar tilfelli á áhorfstölum í rauntíma frá þeim markhópum sem auglýsandinn hefur sjálfur einsett sér að ná til. Samfélagsmiðlar hafa um langa hríð boðið upp á slíka nákvæmni á netinu, á meðan sjónvarp hefur verið mun ómarkvissari miðill, þar til nú.

Framundan eru frekari fréttir um breytta og eflda tekjuöflun hjá Símanum. Helst verða slíkar breytingar til fjölgunar þjónustuþátta sem Síminn býður upp á, en einnig verða eldri vörur lagðar af. Má þar nefna hliðræna talsímakerfið, sem nýst hefur landsmönnum vel um áratuga skeið. Frá næstu áramótum munu þráðbundin símtöl á Íslandi byggjast eingöngu á internet einingunni IP. Auk innri verkefna af þeim toga verður mikilvægt næstu mánuði fyrir Símann – jafnt sem önnur íslensk fyrirtæki – að efnahagskerfi okkar endi órólegt ferðalag sitt á hagfelldri braut á ný."

 

Kynningarfundur 25. október 2023

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta vegna uppgjörsins verður haldinn miðvikudaginn 25. október 2023 kl. 8:30 í húsnæði félagsins, Ármúla 25, Reykjavík. Hluthafar, fjárfestar og markaðsaðilar eru sérstaklega boðnir velkomnir á fundinn. Á fundinum munu Orri Hauksson forstjóri og Óskar Hauksson fjármálastjóri kynna uppgjör félagsins og svara fyrirspurnum. Kynningarefni fundarins verður hægt að nálgast í fréttakerfi Nasdaq Iceland og á heimasíðu Símans https://www.siminn.is/fjarfestar/uppgjor-og-arsskyrslur

Jafnframt verður hægt að fylgjast með fundinum í netstreymi á vefslóðinni: https://www.siminn.is/fjarfestakynning.

Þeir sem vilja bera upp spurningar geta sent þær á fjarfestatengsl@siminn.is og verður þeim svarað í lok fundarins.

 

Nánari upplýsingar um uppgjörið veita:

Orri Hauksson, forstjóri Símans (orri@siminn.is)
Óskar Hauksson, fjármálastjóri Símans (oskarh@siminn.is)

Viðhengi



Pièces jointes

Síminn hf  - Afkomutilkynning 3F 2023 Síminn hf. - Fjárfestakynning 3F 2023 Síminn hf. - Árshlutareikningur samstæðu 3F 2023