REITIR: Uppgjör fyrstu níu mánaða ársins 2023


Stjórn Reita fasteignafélags hf. hefur samþykkt árshlutareikning fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2023.

Lykiltölur rekstrar 9M 2023 9M 2022
Leigutekjur 11.193 9.949
Rekstrarkostnaður fjárfestingareigna 3.164 2.660
Stjórnunarkostnaður1 562 525
Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu1 7.467 6.764
Matsbreyting fjárfestingareigna 7.271 6.227
Rekstrarhagnaður 14.682 12.991
Hrein fjármagnsgjöld 8.594 8.963
Heildarhagnaður 4.818 3.743
Hagnaður á hlut 6,5 kr. 4,9 kr.
   
Lykiltölur efnahags 30.9.2023 31.12.2022
Fjárfestingareignir 183.873 172.270
Handbært og bundið fé 2.397 871
Heildareignir 187.999 174.880
Eigið fé 58.032 56.104
Vaxtaberandi skuldir 106.530 97.087
Eiginfjárhlutfall 30,9% 32,1%
Skuldsetningarhlutfall 59,9% 58,3%
   
Lykilhlutföll 9M 2023 9M 2022
Nýtingarhlutfall (tekjuvegið) 95,8% 94,9%
Arðsemi eigna 5,9% 5,8%
Rekstrarhagnaðarhlutfall 1 63,9% 64,5%
Rekstrarkostnaðarhlutfall 27,1% 25,4%
Stjórnunarkostnaðarhlutfall 1 4,8% 5,0%

1 Án einskiptiskostnaðar
Fjárhæðir eru í milljónum króna nema annað sé tekið fram.

Guðjón Auðunsson, forstjóri:
„Tekjuvöxtur og rekstrarhagnaður heldur áfram að vera umfram verðlagshækkanir. Þá hækkar nýtingarhlutfall milli ára.

Útleiga gekk vel á þriðja fjórðungi. Í október opnuðu þrjár stórar nýjar verslanir í endurnýjuðum Holtagörðum. Aðsókn og velta fer vel af stað. Útleiga í Kringlunni er mjög góð, öllum rýmum er ráðstafað. Velta og gestafjöldi hefur farið vaxandi bæði á Kúmen og í kvikmyndahúsinu á því tæpa ári síðan svæðið opnaði. Væntingar eru um að afþreying bætist við á Kúmen á fyrri hluta ársins 2024.

Viðbygging við vöruhús Aðfanga í Skútuvogi var afhent í byrjun fjórða fjórðungs. Heildarstærð viðbyggingar er um 2.700 m2 og hefur um ¾ hluti hennar þegar verið afhentur. Heilsugæsla Höfuðborgarsvæðisins hefur undirritað nýjan langtíma leigusamning um 1.150 m2 húsnæði í Spönginni.

Framkvæmdir standa nú yfir á Laugavegi 176, þar er niðurrif hafið vegna uppbyggingar nýs 9.800 fermetra Hyatt Centric hótels. Við Ármúla 7-9 er yfirstandandi vinna við endurbyggingu og stækkun húsnæðis Klíníkurinnar. Áætluð NOI aukning frá árunum 2025/2026 er um 700 m.kr. vegna verkefnanna.

Þriðji fjórðungur hefur verið kröftugur í viðhaldi og endurbótum. Líklegt er að um 100 m.kr. tilflutningur verði á afkomu milli þriðja og fjórða fjórðungs vegna sveiflna í viðhaldi. Horfur fyrir árið eru óbreyttar.

Samrunaviðræðum Reita og Eikar hefur verið slitið en ekki náðist samkomulag um skiptahlutföll milli félaganna. Einskiptiskostnaður vegna viðræðnanna var 56 m.kr. Við undirbúning viðræðna fór fram ítarleg skoðun á rekstri Reita og skipulagi sem gagnast mun stjórn þess og stjórnendum við að skerpa á skipulagi og rekstrarlegum áherslum. Þá verður umgjörð um hagnýtingu þróunareigna efld og áhersla lögð á að nýta enn betur uppbyggingar- og sölutækifæri sem í þeim felast.“

Horfur ársins

Áfram er gert ráð fyrir að tekjur ársins verði á bilinu 14.950 - 15.150 m.kr. og að NOI ársins verði á bilinu 10.200 - 10.400 m.kr. Gera má ráð fyrir að rekstrarafkoman verði við neðri mörk bilsins, vegna þess einskiptiskostnaðar sem fjallað hefur verið um. 

Fyrstu drög áætlunar fyrir árið 2024 gera ráð fyrir tekjum á bilinu 15.900 - 16.100 m.kr. og að NOI ársins verði á bilinu 10.900 - 11.100 m.kr.

Nánari upplýsingar og kynningarfundur

Fjárfestum og markaðsaðilum er boðið til fundar þar sem Guðjón Auðunsson, forstjóri og Einar Þorsteinsson, fjármálastjóri, kynna uppgjörið.

Fundurinn verður haldinn kl. 8:30, þriðjudaginn 14. nóvember n.k. á skrifstofu Reita, Kringlunni 4-12, 103 Reykjavík. Fundinum verður jafnframt streymt í gegnum netið á slóðinni https://vimeo.com/event/3868756/embed/10b3c6d70b.

Fjárfestar sem fylgjast með streymi geta sent spurningar sem óskað er eftir að verði teknar fyrir á fundinum á netfangið fjarfestatengsl@reitir.is.

Kynningarefni fundarins er aðgengilegt á fjárfestasíðu Reita, reitir.is/fjarfestar.

Um Reiti

Reitir fasteignafélag er íslenskt hlutafélag. Samstæða félagsins samanstendur af móðurfélaginu, Reitum fasteignafélagi hf., ásamt dótturfélögum, sem öll eru að fullu í eigu móðurfélagsins. Starfsemi félagsins felst í eignarhaldi, útleigu og umsýslu atvinnuhúsnæðis, sem er að stærstum hluta verslunar- og skrifstofuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Fasteignir í eigu félagsins eru um 135 talsins, um 455 þúsund fermetrar að stærð.

Meðal fasteigna félagsins má nefna stærstan hluta verslunarmiðstöðvarinnar Kringlunnar, Spöngina og Holtagarða, skrifstofubyggingar við Höfðabakka 9 og Vínlandsleið ásamt húsnæði höfuðstöðva Icelandair Group, Sjóvár, Origo og Advania og skrifstofu Landspítalans við Skaftahlíð 24. Hótelbyggingar í eigu Reita eru m.a. Hótel Borg og Hotel Hilton Reykjavík Nordica ásamt Berjaya Reykjavík Natura. Stærstu leigutakar Reita eru Hagar, Berjaya Hotels, ríki og sveitarfélög. Þá heldur félagið á nokkrum verðmætum byggingarreitum.

Upplýsingar veita Guðjón Auðunsson, forstjóri, í síma 575 9000 eða 660 3320, og Einar Þorsteinsson, fjármálastjóri, í síma 575 9000 eða 669 4416.

Viðhengi



Pièces jointes

2023-09 Reitir fasteignafélag hf - árshlutareikningur 2023-09 Reitir fasteignafélag hf - kynning