Alvotech og JAMP Pharma hljóta markaðsleyfi í Kanada fyrir Jamteki, líftæknilyfjahliðstæðu við Stelara

Iceland, Germany, India, U.S.


  • Jamteki (AVT04) er önnur líftæknilyfjahliðstæðan sem samstarfsfélögin setja á markað í Kanada

Alvotech (NASDAQ: ALVO) og JAMP Pharma Group („JAMP Pharma“) tilkynntu í dag Heilbrigðisstofnun Kanada, Health Canada, hafi veitt JAMP Pharma leyfi til markaðsetningar á AVT04, líftæknilyfjahliðstæðu við Stelara (ustekinumab) sem þróuð var af Alvotech. AVT04 verður markaðsett undir vörumerkinu Jamteki og er framleidd af Alvotech í Reykjavík.

Markaðsleyfið er veitt fyrir Jamteki í áfylltum sprautum,  45 mg/0.5ml eða 90mg/ml. Þetta er önnur líftæknilyfjahliðstæðan sem félögin hljóta markaðsleyfi fyrir. Á síðasta ári hófst sala í Kanada á Simlandi (AVT02), líftæknilyfjahliðstæðu Alvotech við Humira (adalimumab).

„Með Jamteki getum við enn aukið við framboð okkar af líftæknilyfjahliðstæðum og haldið áfram að sækja fram á markaðnum í samræmi við stefnu JAMP Pharma,“ sagði Louis Pilon, forstjóri JAMP Pharma. „Alvotech er mikilvægur og framsækinn samstarfsfélagi, sem gerir okkur kleift að bæta aðgengi sjúklinga í Kanada að ustekinumab, með lægri tilkostnaði. Sjúklingar njóta einnig góðs af sérfræðiaðstoð sem í boði er í gegnum JAMP Care þjónustuna, en henni er ætlað að auðvelda aðlögun þeirra að lyfjunum.“

„Við fögnum því að markaðsleyfi í Kanada fyrir aðra líftæknilyfjahliðstæðu okkar er nú í höfn,“ sagði Róbert Wessman, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech. „Við höfum fundið fyrir mikilli eftirspurn eftir líftæknilyfjahliðstæðum í Kanada, sem undirstrikar að það er þörf fyrir gæða líftæknilyf á þessum markaði. Þetta skref er mikilvægt fyrir Alvotech og JAMP Pharma en ekki síður bætt aðgengi að hagkvæmri heilbrigðisþjónustu.“    

Til að ná forystu í markaðsetningu líftæknilyfjahliðstæða í Kanada, hrinti JAMP Pharma af stokkunum BIOJAMP, í febrúar 2022. Þjónustu BIOJAMP og JAMP Care, er ætlað að auðvelda sjúklingum, læknum og hjúkrunarfólki að aðlagast notkun líftæknilyfjahliðstæða.   

Alvotech og JAMP Pharma skrifuðu undir samstarfssamning um markaðsetningu líftæknilyfjahliðstæða í Kanada í janúar 2022 og juku samstarfið með nýjum samningi í október 2022. Auk Simlandi (adalimumab) sem kom á markað í Kanada í apríl 2022 og Jamteki (ustekinumab) nær samstarfssamningurinn yfir fjórar fyrirhugaðar líftæknilyfjahliðstæður sem eru nú í klínískum rannsóknum, auk tveggja fyrirhugaðra hliðstæða sem eru á stigi forklínískra rannsókna.

Um AVT04
AVT04 er einstofna mótefni og líftæknilyfjahliðstæða við Stelara® (ustekinumab). Ustekinumab binst IL-12 og IL-23 frumuboðefnunum í ónæmiskerfinu, sem eru þættir í meinafræði ákveðinna ónæmismiðlaðra sjúkdóma. AVT04 hefur hlotið markaðsleyfi í Kanada og Japan og Lyfjastofnun Evrópu hefur mælt með því við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, að lyfinu verði veitt markaðsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu.

Um Alvotech
Alvotech, stofnað af Róberti Wessman, er líftæknifyrirtæki sem einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech stefnir að því að verða leiðandi fyrirtæki á sviði líftæknihliðstæðulyfja. Til að tryggja hámarksgæði eru allir þættir í þróun og framleiðslu í höndum fyrirtækisins. Alvotech vinnur meðal annars að þróun líftæknilyfjahliðstæða sem nýst geta sjúklingum með sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdóma, beinþynningu eða krabbamein. Alvotech hefur gert samninga um sölu, markaðssetningu og dreifingu við samstarfsaðila á öllum helstu mörkuðum, í Bandaríkjunum, Evrópu, Japan, Kína, öðrum hlutum Asíu,  Rómönsku-Ameríku, Afríku og Mið-Austurlöndum.  Meðal samstarfsaðila Alvotech eru Teva Pharmaceuticals, dótturfélag Teva Pharmaceutical Industries Ltd. (markaðsaðili í Bandaríkjunum), STADA Arzneimittel AG (Evrópa), Fuji Pharma Co., Ltd (Japan), Advanz Pharma (EES, Bretland, Sviss, Kanada, Ástralía og Nýja Sjáland), Cipla/Cipla Gulf/Cipla Med Pro (Ástralía, Nýja Sjáland, Afríka), JAMP Pharma Corporation (Kanada), Yangtze River Pharmaceutical (Group) Co., Ltd. (Kína), DKSH (Taívan, Hong Kong, Kambódía, Malasía, Singapore, Indonesía, Indland, Bangladess og Pakistan), YAS Holding LLC (Miðausturlönd og Norður Afríka), Abdi Ibrahim (Tyrkland), Kamada Ltd. (KMDA; Ísrael), Mega Labs, Stein, Libbs, Tuteur and Saval (Rómanska-Ameríka) og Lotus Pharmaceuticals Co., Ltd. (Taíland, Víetnam, Filippseyjar og Suður-Kórea).

Alvotech, fjárfestatengsl og samskiptasvið
Benedikt Stefánsson, forstöðumaður
alvotech.ir@]alvotech.com