Styrkás ehf., félag í 69,64% eigu SKEL fjárfestingafélags hf., undirritaði í dag samkomulag um helstu skilmála kaupsamnings vegna kaupa á 100% hlutafjár í sex dótturfélögum Máttarstólpa ehf.:
- Stólpi Gámar ehf., kt. 4601211590, Klettagörðum 5, 104 Reykjavík;
- Stólpi Smiðja ehf., kt. 4601211750, Klettagörðum 5, 104 Reykjavík;
- Klettaskjól ehf., kt. 4601210510, Klettagörðum 5, 104 Reykjavík;
- Stólpi ehf., 460121-0430, Klettagörðum 5, 104 Reykjavík;
- Tjónaþjónustan ehf., kt. 460121-1670, Klettagörðum 5, 104 Reykjavík;
- Alkul ehf., kt. 491020-0830, Haukdælabraut 48, 113 Reykjavík.
í sameiningu vísað til þessara félaga sem „hið selda“. Þau verða sem fyrr rekin á samstæðugrunni.
Samkomulagið er gert með fyrirvara um að aðilar nái saman um endanlegan kaupsamning vegna viðskiptanna, fjármögnun, niðurstöðu áreiðanleikakannana og samþykki Samkeppniseftirlits.
Heildarvirði hins selda samkvæmt samkomulagi aðila er samtals 3.548 m.kr. Að frádregnum áætluðum yfirteknum skuldum nemur kaupverð eigin fjár hins selda 2.970 m.kr. Við afhendingu hins selda verður 55% af kaupverði eigin fjár hins selda greitt með reiðufé og 45% greitt með seljendaláni og nýjum hlutum í Styrkási.
Ásgeir Þorláksson, stjórnarformaður og eigandi Máttarstólpa:
“Stólpi ehf. hóf starfsemi sína 1974. Ég tók við sem aðaleigendi og framkvæmdastjóri félagsins af föður mínum árið 1999 og síðan hafa önnur félög bæst við samstæðuna. Nú er komið að því að aðrir taki við keflinu og leiði áframhaldandi uppbyggingu félagsins. Ég er sannfærður um að framtíðin er björt enda hefur félagið á að skipa úrvals hópi starfsfólks og býr að traustum viðskiptasamböndum til áratuga. Áfram verð ég þátttakandi í vegferð félagsins sem hluthafi í Styrkási og hlakka til samstarfsins við nýja eigendur.”
Ásmundur Tryggvason, forstjóri Styrkáss:
“Með kaupum á Stólpa Gámum og tengdum félögum er mikilvægt skref stigið til að útvíkka þjónustu Styrkáss og byggja upp þriðja kjarnann í rekstri félagsins. Stólpi Gámar er leiðandi í gáma- og húseiningalausnum fyrir atvinnulífið og einstaklinga, gámaviðgerðum og tjónaþjónustu fyrir tryggingafélög. Mikil tækifæri eru til staðar til að byggja ofan á þann góða rekstur sem Ásgeir Þorláksson og samstarfsfólk hans hefur byggt upp og auka enn frekar þjónustu við viðskiptavini.”
Börkur Grímsson, framkvæmdastjóri Stólpa Gáma:
“Rekstur Stólpa Gáma hefur verið afar farsæll undir traustri stjórn Ásgeirs Þorlákssonar. Þessi kaflaskil skapa ný tækifæri og ég hlakka til að taka markviss skref til frekari vaxtar með nýjum eigendum og samstarfsaðilum. Framtíðarsýn Stólpa Gáma fellur einkar vel að þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið fyrir Styrkás og mikil sóknarfæri felast í að verða hluti af stærri heild.”
Um Styrkás
Styrkás er í 69,64% eigu SKEL fjárfestingarfélags hf. og 29,54% eigu Horns IV slhf., framtakssjóðs í stýringu Landsbréfa. Styrkás hefur markað sér stefnu um að byggja ofan á sterkar stoðir samstæðunnar með innri og ytri vexti á fimm kjarnasviðum, orku og efnavöru, tækjum og búnaði, umhverfi, iðnaði og eignaumsýslu. Innan samstæðu félagsins í dag eru Skeljungur og Klettur sem eru leiðandi félög á sínum sviðum. Markmið hluthafa er að skrá alla hluti í félaginu á skipulegan markað í Kauphöll Íslands fyrir árslok 2027.
Ráðgjafar Styrkáss í ferlinu eru fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka og BBA // Fjeldco og ráðgjafi Máttarstólpa eru &Pálsson og Landslög.
Nánari upplýsingar veitir Ásmundur Tryggvason, forstjóri Styrkáss, asmundur@styrkas.is