Orkuveita Reykjavíkur | Stöðugleiki í afkomu OR-samstæðunnar


Hagnaður af rekstri samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur á fyrstu níu mánuðum ársins nam 3,6 milljörðum  króna. Innan samstæðunnar eru, auk móðurfélagsins, Veitur, Orka náttúrunnar, Ljósleiðarinn og Carbfix. Veltufé frá rekstrinum jókst lítillega miðað við sama tímabil 2022, eða úr 19,5 milljörðum króna í 19,6. Fjárfestingar jukust um 2,5 milljarð milli ára og námu 17,6 milljörðum  króna á fyrstu níu mánuðum yfirstandandi árs.

Nýtt UFS-mat Reitunar á Orkuveitunni

Matsfyrirtækið Reitun hefur gefið út uppfært UFS-mat á samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur. Matið tekur til sjálfbærni starfseminnar, það er umhverfisþátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta.

„Orkuveita Reykjavíkur stendur sig afburða vel í UFS mati Reitunar líkt og síðustu ár,“ segir í matinu sem fylgir í viðhengi. OR fær einkunnina A3 og er á meðal nokkurra innlendra útgefenda fjármálagerninga sem hafa fengið einkunn sem fellur í þann flokk en enginn útgefandi hefur farið hærra en A3. Umhverfismál eru sérstakur styrkleiki samstæðunnar, samkvæmt matinu, þar sem fyrirtækin í samstæðunni fá 93 stig af 100 mögulegum. Heildarstigafjöldi OR er 87 af 100.

Óvissa á Reykjanesskaga

Ljósleiðarinn er eina fyrirtækið innan samstæðu OR sem á og rekur innviði í Grindavík. Þar hefur hluti bæjarins verið tengdur fjarskiptakerfi fyrirtækisins. Ekki er vitað um beint tjón á lögnum eða öðrum búnaði en þar sem bærinn er mannlaus að verulegu leyti er staðan ekki skýr.

Orkuveita Reykjavíkur hefur, fyrir hönd fyrirtækjanna í samstæðunni, boðið aðstoð starfsfólks vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga. Þar standa fyrirtæki sem eru í samsvarandi orku- og veiturekstri og Orkuveita Reykjavíkur frammi fyrir mikilli ógn og talsverðu tjóni. Neyðarstjórn OR hefur hist tvisvar vegna hættuástandsins einkum til að fara yfir viðbragðsáætlanir vegna hugsanlegs eldgoss. Öskufall getur kallað á aðgerðir til að verja búnað virkjana og veitna og var m.a. gripið til slíkra ráðstafana þegar Eyjafjallajökull gaus.

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri OR

„Hugur okkar hefur verið hjá Grindvíkingum síðustu vikur og starfssystkinum okkar á Suðurnesjum. Óvissan þar er þungbær og miklu skiptir um framhaldið hvernig tekst að tryggja þá grunnþjónustu sem orku- og veitufyrirtækin veita.

Atburðirnir hafa sýnt okkur hversu þungt hitaveitan vegur í orkuöryggi samfélaganna. Þarna gæti áhrifanna gætt langt út fyrir sjálft hættusvæði vegna hugsanlegra eldsumbrota. Þegar við sem rekum samfélagslega nauðsynlega starfsemi á eldvirkum svæðum undirbúum okkur undir að mæta svona atburðum, styðjumst við gjarna við tilbúna, skáldaða atburðarás til að bregðast við. Núna höfum við fyrir augunum hvernig ógnin getur birst í raun og veru. Það er því mikilvægt að sú þekking sem nú byggist upp skerpi sýn okkar á það hvernig skynsamlegast er að vera undir hamfarir búin. Okkur er trúað fyrir orkulindum og vatnsbólum sem nauðsynlegt er að samfélögin sem við þjónum hafi alltaf aðgang að.“

Breytt framsetning álvarna

Sú breyting er gerð á framsetningu árshlutareikningsins, sem samþykktur var af stjórn Orkuveitu Reykjavíkur í dag, að nú er gerð grein fyrir innleystum álvörnum undir rekstrartekjum en ekki meðal fjármunatekna og fjármagnsgjalda eins og áður. Þar eru áfram færð til bókar áhrif breytinga á álverði, að undanskildum varnarsamningum, á ætlaðar framtíðartekjur. Árshlutareikningur samstæðunnar er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðalinn IAS 34 um árshlutareikninga.

Nánari upplýsingar:

Sævar Freyr Þráinsson
Forstjóri
516 6100

Viðhengi



Pièces jointes

Orkuveita Reykjavíkur - Árshlutauppgjör samstæðu_30.9.2023 UFS-mat Reitunar á OR 2023