Kvika banki hf.: Kaupréttaráætlun starfsfólks


Í samræmi við starfskjarastefnu Kviku banka hf. („Kvika“ eða „bankinn“), er í gildi kaupréttaráætlun sem stjórn bankans samþykkti á árinu 2021 í samræmi við heimild aðalfundar félagsins þann 21. apríl 2021. Kaupréttaráætlunin er á grundvelli 10. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 og er fyrir allt starfsfólk samstæðu Kviku banka hf. („samstæðan“).

Þann 10. nóvember 2021 var kaupréttaráætlun útfærð og samþykkt af hálfu stjórnar Kviku og jafnframt samþykkt af hálfu Skattsins þann 9. desember sama ár.

Kaupréttaráætlunin gildir til þriggja ára, frá árinu 2021 til ársins 2024, og er markmið kaupréttaráætlunarinnar að samþætta hagsmuni starfsfólks við langtímamarkmið Kviku og samstæðunnar í heild og hefur öllum fastráðnum starfsmönnum samstæðunnar verið boðið að gera kaupréttarsamninga í samræmi við áætlunina.

Framkvæmd áætlunarinnar hófst þann 15. desember 2021. Hverjum starfsmanni samstæðunnar stóð þá til boða kaupréttir fyrir allt að 1.500.000 krónur á ári á þremur árum, samtals fyrir allt að 4.500.000 krónur. Tvö ár eru liðin af tímabili kaupréttanna og þann 15. desember 2023 var starfsfólki, sem hefur ráðið sig til starfa á síðastliðnu ári, boðnir kaupréttir samkvæmt því sem eftir stendur af kaupréttaráætluninni. Innlausnardagur er þann 15. desember 2024 og þá gefst starfsfólki kostur á að nýta kauprétt fyrir allt að 1.500.000 krónur.

Kaupverð hlutanna reiknast út frá gangverði hluta í viðskiptum í Kauphöll, þar sem hlutir í bankanum eru skráðir, í samræmi við vegið meðalverð í viðskiptum með hluti bankans tíu heila viðskiptadaga fyrir samningsdag, sbr. 4. tölul. 10. gr., sbr. 9. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eða 15,27 krónur hver hlutur.

Þann 15. desember undirrituðu alls 41 starfsmaður samstæðu Kviku kaupréttasamning sem ná til allt að 4.027.471 hluta miðað við 100% nýtingu kauprétta.