SKEL fjárfestingafélag hf.: Yfirlýsing undirrituð um könnunarviðræður vegna samruna Samkaupa, Heimkaupa og Orkunnar


SKEL fjárfestingafélag hf. („SKEL“) og Samkaup hf., kt. 571298-3769 („Samkaup“) hafa undirritað yfirlýsingu um að hefja könnunarviðræður vegna mögulegs samruna Samkaupa og tiltekinna félaga í samstæðu SKEL, nánar tiltekið:

  • Samkaupa, sem reka 64 matvöruverslanir víðsvegar um landið undir fjórum vörumerkjum (Samkaup, Nettó, Kjörbúðin og Iceland) sem spanna allt frá lágvöruverðsverslunum til þægindaverslana.
  • Orkunnar IS ehf. („Orkan“) sem starfrækir 72 orkustöðvar, 14 þvottastöðvar undir merkjum Löðurs, 6 hraðhleðslustöðvar, 2 vetnisstöðvar og 1 metanstöð. Þá á félagið 32 fasteignir og lóðir víðs vegar um landið, auk annarra eigna.
  • Heimkaupa ehf. („Heimkaup“) sem reka 7 apótek undir merkjum Lyfjavals og 9 þægindaverslanir undir merkjum 10-11, Extra og Orkunnar, auk annarra eigna.

SKEL telur að með sameiningu ofangreindra félaga yrði til fjárhagslega sterkt fyrirtæki með ákjósanlega samsetningu tekna og sterka markaðshlutdeild á eftirfarandi lykilmörkuðum með nauðsynjavöru

Smásala (matvara): Samkaup eru með útbreitt net og sterka stöðu víða á landinu. SKEL áætlar að velta Samkaupa geti aukist umtalsvert með verslunareiningum Heimkaupa og mikil samlegðartækifæri séu fólgin í sameiningu þessara eininga. Sameinað félag væri vel í stakk búið til að fjárfesta og styrkja sína stöðu í þeirri hörðu samkeppni sem ríkir á smásölumarkaði.

Eldsneyti, hleðsla og þvottur: Orkan er með sterka markaðshlutdeild á eldsneytismarkaði og stefnir að forystu í orkuskiptum. Þá er Löður með ráðandi hlutdeild á markaði bílaþvotta.

Lyf: Metnaðarfull áform um vöxt og mörkun sérstöðu Lyfjavals hafa litið dagsins ljós. Fyrirtækið er eina lyfjaverslunin sem starfrækir bílalúgur. Mikil og vaxandi eftirspurn er eftir þeirri þjónustu og mun fyrirtækið svara henni.

Könnunarviðræðurnar eru einkaviðræður milli aðila og skuldbinda þeir sig til að ræða ekki við aðra aðila á sama tíma. Gert er ráð fyrir því að niðurstöður könnunarviðræðna aðila liggi fyrir eigi síðar en 22. mars 2024. Ef aðilar verða ásáttir um áframhaldandi viðræður verður undirrituð sérstök viljayfirlýsing um helstu skilmála samruna og formlegar samningaviðræður hafnar.

Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri SKEL:

„SKEL telur mikil og spennandi tækifæri felast í samruna Samkaupa, Orkunnar, Lyfjavals, Löðurs og Heimkaupa. Sameinað félagið yrði fjárhagslega sterkt, með ákjósanlega dreifingu tekna og um 150 útsölustaði víðsvegar um landið. Sameinað félag væri með um 80 milljarða í veltu á ári og hefði alla burði til að nýta sér til fulls þau tækifæri sem eru á smásölumarkaði í dag til hagsbóta fyrir neytendur, starfsfólk og hluthafa. Þá væri sameinað félag áhugaverður fjárfestingarkostur og skráning hlutabréfa sameinaðs félags á Aðalmarkað Nasdaq Iceland ákjósanlegur kostur.

SKEL telur mikilvægt að sameinað félag haldi í núverandi gildi og rætur sínar og haldi sem slíkt áfram að uppfylla ólíkar þarfir viðskiptavina og verði áfram virkur þáttakandi í byggðalögum og nærsamfélögum um allt land.“

Nánari upplýsingar veitir Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, fjarfestar@skel.is.