Ársreikningur Landsnets hf. 2023-Sterk fjárhagsstaða og styrkar stoðir til framtíðar


Framtíðin er ljós 

  • Sterk fjárhagsstaða og styrkar stoðir til framtíðar

Ársreikningur Landsnets 2023 var samþykktur á fundi stjórnar í dag, 15. febrúar 2024.

Helstu atriði ársreikningsins:

  • Hagnaður nam 25,6 milljónum USD (3.482,2 millj.kr)1 á árinu 2023 samanborið við 32,5 milljónir USD (4.426,6 millj.kr.) hagnað á fyrra ári.
  • Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 52,7 milljónum USD (7.175,7 millj.kr.) samanborið við 55,1 milljónir USD (7.505,2 millj.kr) á fyrra ári.
  • Handbært fé í lok árs nam 54,3 milljónum USD og handbært fé frá rekstri nam 72,5 milljónum USD.
  • Heildareignir námu 1.113,6 milljónum USD í árslok samanborið við 1.032,4 milljónir USD í lok fyrra árs.
  • Eigið fé nam 507,5 milljónum USD í árslok og eiginfjárhlutfall 45,6%.
  • Arðsemi eigin fjár, á árgrundvelli, var 5,2% á árinu 2023.

Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets segir niðurstöður ársreikningsins sýna að vel hafi tekist til í umhverfi þar sem óvæntar bilanir og náttúruöflin spiluðu stórt hlutverk. 

„Það ánægjulegt að ársreikningur sem samþykktur var í dag sýnir að fjárhagsleg staða okkar hjá Landsneti er góð þrátt fyrir miklar áskoranir.  

Eldgos og jarðhræringar á Reykjanesi settu mark sitt á árið en við lögðum allt kapp á að verja okkar innviði á svæðinu við Svartsengi sem sönnuðu gildi sitt nú í febrúar. Landsnet er stolt af því að vera virkur þátttakandi í því að verja innviði á Reykjanesi. Það hafa ekki orðið skemmdir á flutningskerfinu í jarðhræringunum en áfram er unnið við varnir innviða við Svartsengi í ljósi stöðunnar þar. Við aðstæður eins og þessar kemur mikilvægi þess að hafa öruggt aðgengi að rafmagni vel í ljós.

Viðgerðin á Vestmannaeyjastreng reyndi mikið á reksturinn, bæði tækni- og fjárhagslega en þar voru mál leyst með útsjónarsemi á mjög hagkvæman hátt. 

Síðasta ár var mikið framkvæmdaár þrátt fyrir að fjárfestingar ársins séu undir áætlun en ástæðan fyrst og fremst tafir við upphaf framkvæmda Suðurnesjalínu 2. 

Jafnframt var unnið af krafti að bættu orkuöryggi til framtíðar með auknu gagnsæi og nútímalegri viðskiptaháttum. Í því samhengi gáfum við út fyrstu orkuspá Landsnets sem setti mikinn svip á umræðu um orkumálin á árinu og tókum í notkun nýtt reiknilíkan til að meta framboðsöryggi næstu ára.

Við stöndum á sterkum grunni og erum vel í stakk búin til að takast á við þau verkefni sem nauðsynlegt er að ráðast í til að tryggja orkuskiptin, en stöðugt rekstrarumhverfi, gagnsætt og virkt viðskiptaumhverfi ásamt styrkingu flutningskerfisins eru þar efst á blaði hjá okkur.”

Rekstrarreikningur

  • Rekstrartekjur námu 169,3 milljónum USD árið 2023 samanborið við 162,8 milljónum USD á fyrra ári. Félagið hefur fjögur megin tekjustreymi; flutning til stórnotenda, flutning til dreifiveitna, innmötun og sölu á flutningstöpum og kerfisþjónustu.
  • Rekstrargjöld hækka um 8,9 milljónir USD á milli ára.  Afskriftir hækkuðu um 3,7 milljónir USD, launakostnaður hækkaði um 3,0 milljónir USD og annar rekstrarkostnaður 2,2 milljónir USD. 
  • Áhrif gengisbreytinga kemur fram í ákveðnum liðum í íslenskum krónum innan tekna og gjalda, en í heild hefur styrkingin óveruleg áhrif á rekstrarhagnað fyrir fjármagnsliði.
  • Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 52,7 milljónum USD samanborið við 55,1 milljónir USD árið áður og lækkar um 2,4 milljónir USD á milli ára.
  • Hrein fjármagnsgjöld nema samtals 20,5 milljónum USD en voru 14,8 milljónir USD á fyrra ári. Hrein fjármagnsgjöld hækka um 5,7 milljónir USD á milli ára.
  • Hagnaður Landsnets hf. samkvæmt rekstrarreikningi nam 25,6 milljónum USD á árinu 2023. Hagnaður ársins 2022 nam 32,5 milljónum USD.
  • EBITDA félagsins var 92,3 milljónir USD á árinu í samanburði við 91,0 milljónir USD á fyrra ári.

Efnahagsreikningur og sjóðstreymi

  • Heildareignir félagsins í árslok námu 1.113,6 milljónum USD samanborið við 1.032,4 milljónir USD í lok fyrra árs.
  • Handbært fé í lok árs nam 54,3 milljónum USD og handbært fé frá rekstri nam 72,5 milljónum USD.
  • Heildarskuldir námu í árslok 606,1 milljónum USD samanborið við 550,1 milljónir USD í lok fyrra árs.
  • Eiginfjárhlutfall í árslok var 45,6% samanborið við 46,7% í lok fyrra árs.


Horfur í rekstri
Áætlanir félagsins fyrir árið 2024 gera ráð fyrir 33,2 milljóna USD hagnaði af rekstri félagsins. Í tekjuáætlun er byggt á þeim magn- og verðbreytingum sem félagið hafði vitneskju um við gerð áætlunarinnar. Kostnaðaráætlun er byggð á raunkostnaði við rekstur félagsins að teknu tilliti til þeirra viðmiða sem ákvörðun tekjumarka felur í sér. Áætlanir félagsins gera ráð fyrir að framkvæmdir nemi a.m.k. 101,7 milljónum USD á árinu. Fjármögnun verkefna er í undirbúningi og telur félagið sig hafa gott aðgengi að lánamörkuðum.

Um ársreikninginn
Ársreikningur Landsnets hf. fyrir árið 2023 er gerður samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS). Uppgjör Landsnets er í Bandaríkjadölum (USD) sem er starfrækslugjaldmiðill félagsins. Ársreikningurinn var samþykktur á fundi stjórnar 15. febrúar 2024.

Um Landsnet
Landsnet tók til starfa árið 2005 og ber ábyrgð á flutningskerfi raforkunnar, einum af mikilvægustu innviðum samfélagsins. Hlutverk félagsins er að annast flutning raforku á Íslandi, uppbyggingu flutningskerfisins og stjórnun raforkukerfisins.

Nánari upplýsingar gefur Guðlaug Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjármála og árangurs, netfang gudlaugs@landsnet.is, sími 563-9300. Nánar á www.landsnet.is  þar sem hægt er að nálgast ársreikninginn.

Viðhengi



Pièces jointes

Ársreikningur Landsnets 31.12.23 Landsnet fréttatilkynning 31.12.2023