Ársuppgjör Brims hf. 2023


Góður rekstur og sterk fjárhagsstaða

Fjórði ársfjórðungur (4F)

  • Rekstrartekjur á 4F 2022 voru 101,7 m€ samanborið við 97,1 m€ á 4F 2022.
  • EBITDA nam 18,5 m€ á 4F samanborið við 15,4 m€ á sama tímabili 2022.
  • Hagnaður á 4F var 8,8 m€ samanborið við 7,2 m€ á 4F 2022

Árið 2023

  • Rekstrartekjur ársins 2023 voru 437,2 m€ samanborið við 450,9 m€ árið 2022.
  • EBITDA ársins 2023 var 97,2 m€ (22,2%) en var 117,7 m€ (26,1%) árið 2022.
  • Hagnaður ársins 2023 var 62,9 m€, en var 79,3 m€ árið áður.
  • Hagnaður á hlut var 0,033 € en var 0,041 € árið 2022.
  • Heildareignir í árslok voru 949,7 m€ samanborið við 942,9 m€ í árslok 2022.
  • Eiginfjárhlutfall var í lok árs 50% og eigið fé samtals 472,8 m€.

Helstu atriði úr starfseminni

  • Rekstur botnfisksviðs á árinu skilaði lægri framlegð en undanfarin tvö ár einkum vegna aðstæðna á mörkuðum þar sem þrýstingur var á afurðaverð.  Verð á sjófrystum þorskafurðum lækkuðu einna mest en verð á landunnum afurðum hélst  nokkuð stöðugt.  Nokkrar breytingar urðu í úthlutun á aflaheimildum kvótaárið 2023/2024.
  • Veiðar og vinnsla uppsjávarfisks gengu vel á árinu. Vel gekk að selja loðnuhrygnu en það hægði töluvert á loðnuhrognasölu og einnig varð töluverð verðlækkun á loðnuhrognum vegna mikillar framleiðslu. Hægar gekk að selja loðnuhæng en áætlað var vegna ástands á landamærum Póllands og Úkraínu. Sala á makrílafurðum gekk vel og voru verð sambærileg milli ára 2022 og 2023. Mikil eftirspurn var eftir síldarafurðum og voru verð hærri en árið áður. Markaðir fyrir mjöl og lýsisafurðir voru mjög sterkir og afurðaverð góð.
  • Á árinu 2023 var afli skipa félagsins 44 þúsund tonn af botnfiski og 165 þúsund tonn af uppsjávarfiski samanborið við tæp 43 þúsund tonn af botnfiski árið áður og tæp 164 þúsund tonn af uppsjávarfiski.  Skipastóll samstæðunnar var 10 skip í árslok.
  • Í apríl var endanlega gengið frá viðskiptum vegna kaupa Brims á 50% eignarhlut í danska félaginu Polar Seafood Denmark A/S (PSD). PSD er sölufyrirtæki, vinnsluaðili og útflytjandi hágæða sjávarafurða úr Norður-Atlantshafi.

Rekstur
Rekstrartekjur Brims hf. árið 2023 námu 437,2 m€ samanborið við 450,9 m€ árið áður. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 97,2 m€ eða 22,2% af rekstrartekjum, en var 117,7 m€ eða 26,1% árið áður. Nettó fjármagnsgjöld voru 14,3 m€ samanborið við 4,2 m€ árið áður.

Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 9,7 m€, en voru  2,0 m€ árið áður. Hagnaður fyrir tekjuskatt var 75,0 m€, samanborið 99,1 m€ árið áður. Gjaldfærður tekjuskattur nam 12,1 m€, en var 19,8 m€ árið áður. Hagnaður ársins varð því 62,9 m€ en var 79,3 m€ árið áður.

Meðalfjöldi ársverka árið 2023 var 694 en var 713 árið 2022. Laun og launatengd gjöld námu samtals 94,7 m€, samanborið við 93,5 m€ árið áður (14,1 milljarðar króna á meðalgengi ársins samanborið við 13,3 milljarða árið áður).

Efnahagur

Heildareignir félagsins námu 949,7 m€ árslok 2023. Þar af voru fastafjármunir 779,4 m€ og veltufjármunir 170,2 m€. Fjárhagsstaða félagins er sterk og nam eigið fé 472,8 m€ og var eiginfjárhlutfall 50,0%, en var 48,0% í lok árs 2022. Heildarskuldir félagsins í árslok 2023 voru 476,9 m€.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 46,4 m€ árið 2023, en var 79,0 m€ árið áður.  Fjárfestingarhreyfingar voru 138,6 m€. Fjármögnunarhreyfingar voru neikvæðar um 35,6 m€. Handbært fé lækkaði því um 127,8 m€ á tímabilinu og var í árslok 34,2 m€.

Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna

Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi ársins 2023        (1 evra = 149,14 ísk) voru tekjur 65,2 milljarður króna, EBITDA 14,5 milljarðar og hagnaður 9,4 milljarðar. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á lokagengi ársins 2023 (1 evra = 150,5 ísk) voru eignir samtals 142,9 milljarðar króna, skuldir 71,8 milljarðar og eigið fé 71,1 milljarðar.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri:

„Rekstur Brims var traustur á árinu 2023 þó gengið hafi á með skini og skúrum í starfsemi félagins.  Heimildir til veiða jukust á sumum fisktegundum en minnkuðu á öðrum og hurfu jafnvel eins og á djúpkarfa en þær veiðar voru skyndilega bannaðar eins og þruma úr heiðskíru lofti.   Á okkar erlendu mörkuðum eru aðstæður misjafnar. Sumstaðar eru háð stríð og stjórnarfar er ótryggt og víða geisar verðbólga sem hefur margvísleg áhrif á viðskiptavini okkar. 

Á árinu kom vel í ljós styrkurinn sem felst í fjölbreyttum rekstri þar sem afkoma uppsjávarsviðs var góð á meðan rekstur botnfisksviðsins var erfiðari. Reksturinn var því í heild sinni ágætur, tekjur félagsins voru 65,2 milljarðar króna og hagnaður nam 9,4 milljörðum króna eða 14,4% af rekstrartekjum ársins.

Efnahagur Brims er sem fyrr traustur, heildareignir eru um 143 milljarðar króna og er eigið fé 71,1 milljarður króna sem nemur helmingi eigna.

Óvissan í rekstri á sjávarútvegsfyrirtæki er margvísleg ekki síst þegar stríð geisa nærri mörkuðum okkar í Evrópu og heimsbyggðin öll glímir við verðhækkanir og verðbólgu. Hér á landi bætir síðan í alla óvissu þegar stjórnsýsla og stjórnvöld boða ítrekað breytingar á forsendum í rekstri greinarinnar og þeirri umgjörð sem fyrirtækin hafa lagað sig að í áratugi. Öll hagnýting auðlinda kallar á langtímahugsun og fjárfestingar sem borga sig upp á áratugum. Stöðugleiki skapar forsendur fyrir aukinni arðsemi.

Grundvallarforsenda í rekstri atvinnugreina eins og sjávarútvegs eru skýrar leikreglur og fyrirsjánleiki og það er það sem Ísland þarf að leggja áherslu á.”

Aðalfundur

Aðalfundur Brims hf. verður haldinn fimmtudaginn 21. mars 2024 klukkan 16:00. Nánari upplýsingar verða veittar á heimasíðu félagsins www.brim.is.

Tillaga stjórnar á aðalfundi um arðgreiðslu

Samkvæmt stefnu félagsins sem kynnt var í skráningarlýsingu félagsins árið 2014 leggur stjórn félagsins til að arðgreiðsla á árinu 2024 vegna rekstrarársins 2023 verði 2,0 kr. á hlut, eða 3.851 millj. kr. (um 25,6 millj. evra á lokagengi ársins 2023, eða 25,9 millj. evra mv. gengi evru 21. febrúar), eða 2,39% af markaðsvirði hlutafjár í lok árs 2023. Arðurinn verði greiddur 30. apríl 2024. Síðasti viðskiptadagur þar sem arður fylgir bréfunum er 21. mars 2024 og arðleysisdagur því 22. mars 2024.

Arðsréttindadagur er 25. mars 2024. Arður greiðist þeim sem skráðir eru í hlutaskrá félagsins í lok arðsréttindadags.

Samþykkt ársreiknings

Ársreikningurinn var samþykktur á stjórnarfundi Brims hf. 22. febrúar 2024. Ársreikningurinn er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS – International Financial Reporting Standards) og hefur verið endurskoðaður af endurskoðendum félagsins.

Kynningarfundur þann 22. febrúar 2024

Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta verður haldinn fimmtudaginn 22. febrúar klukkan 16:30 að Norðurgarði 1, þar mun Guðmundur Kristjánsson forstjóri félagsins kynna uppgjörið.  Fundurinn verður einnig rafrænn og hægt verður að fylgjanst með fundinum á www.brim.is/streymi.  Velkomið er að senda spurningar fyrir fundinn eða á meðan fundi stendur á netfangið fjarfestatengsl@brim.is.  Spurningum verður svarað í lok fundar. 

Brim hf.

Brim er öflugt sjávarútvegsfyrirtæki sem starfar í sátt við samfélagið og umhverfið. Við stuðlum að verðmætasköpun með vöruþróun, tæknilausnum og öflugu starfsfólki. Við tryggjum með ábyrgum veiðum og vinnslu, þar sem áhersla er á sjálfbærni og nýsköpun, að sjávarútvegur verði áfram burðarstólpi í íslensku samfélagi. Við leitum allra leiða til að lágmarka áhrif starfseminnar á umhverfið hvort sem er á sjó eða í landi.

Fjárhagsdagatal

Aðalfundur                              21. mars 2024
Arðgreiðsludagur                    30. apríl 2024
Fyrsti ársfjórðungur                23. maí 2024
Annar ársfjórðungur               29. ágúst 2024
Þriðji ársfjórðungur                 21 . nóvember 2024
Fjórði ársfjórðungur                27. febrúar 2025

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Kristjánsson forstjóri, sími 550-1000.

Viðhengi



Pièces jointes

Ársreikningur Brims 2023 635400YXSJKSF3H3CB31-2023-12-31-is Brim - fjarfestakynning F4 2023 Deloitte - stadfesting vegna skuldabrefaflokks BRIM 221026GB Afkoma Brims hf 2023