Reginn hf.: Sáttarviðræður hefjast við Samkeppniseftirlitið vegna valfrjáls yfirtökutilboðs Regins hf. í allt hlutafé Eikar fasteignafélags hf.


Samkeppniseftirlitið hefur orðið við ósk Regins hf. („Reginn“ eða „félagið“) um að hefja sáttarviðræður vegna valfrjáls yfirtökutilboðs Regins í allt hlutafé Eikar fasteignafélags hf.

Tímafrestur Samkeppniseftirlitsins til rannsóknar á samrunanum hefur verið framlengdur til 5. apríl næstkomandi. Gildistími tilboðsins rennur út þann 15. apríl.

Þann 8. júní 2023 tilkynnti Reginn um ákvörðun stjórnar um að leggja fram valfrjálst yfirtökutilboð í allt hlutafé Eikar fasteignafélags hf. („Eik“) („tilboðið“). Í kjölfarið birti félagið opinbert tilboðsyfirlit, dags. 10. júlí 2023, sbr. viðauka, dags. 14. september 2023, vegna tilboðsins.

Tilboðið er meðal annars háð því skilyrði að Samkeppniseftirlitið samþykki viðskiptin eða geri ekki athugasemdir við viðskiptin sem Reginn sættir sig ekki við. Þann 29. september 2023 skilaði félagið inn samrunaskrá til Samkeppniseftirlitsins sem hefur nú samkeppnisleg áhrif samrunans til rannsóknar.

Eins og fram kemur í tilkynningu Regins, dags. 8. febrúar 2024, hefur félaginu borist andmælaskjal frá Samkeppniseftirlitinu þar sem því frummati eftirlitsins er lýst að viðskiptin hindri virka samkeppni og verði að óbreyttu ekki samþykkt án íhlutunar.

Þann 16. febrúar sl. óskaði Reginn eftir því við Samkeppniseftirlitið að hefja sáttaviðræður um hugsanleg skilyrði vegna viðskiptanna. Samhliða voru lögð fram sjónarmið félagsins að því er varðar frummat Samkeppniseftirlitsins ásamt hugmyndum að skilyrðum. Tillögur Regins að skilyrðum lúta meðal annars að því að sameinað félag Regins og Eikar selji frá sér tilteknar eignir í því skyni að vinna gegn skaðlegum áhrifum sem Samkeppniseftirlitið telur að gætu leitt af viðskiptunum.

Nánar verður upplýst um framgang sáttaviðræðnanna eftir því sem tilefni kann að gefast til og í samræmi við upplýsingaskyldu félagsins.

Nánari upplýsingar veitir Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Regins hf., sími: 821 0001