VÍS: Útgáfa kauprétta vegna kaupaukakerfis ársins 2023


Gerðir hafa verið kaupréttarsamningar við tiltekna stjórnendur þar sem frestuðum hluta kaupauka vegna árangurs ársins 2023 er ráðstafað til kaupa á kauprétti. Kaupaukinn byggir á kaupaukakerfi stjórnenda sem sett var á grundvelli starfskjarastefnu Vátryggingafélags Íslands hf. sem samþykkt var á aðalfundi þann 16. mars 2023. Reglur kerfisins gera nánar tiltekið ráð fyrir að greiðslu 50% af kaupauka ársins sé frestað til þriggja ára. Kaupréttarsamningar hafa því verið gerðir milli félagsins og tiltekinna stjórnenda með nýtingarheimild að þremur árum liðnum.

Fyrir kaupréttina greiða þeir starfsmenn sem hér er tilkynnt um alls 21.347.808 kr. með frestuðum kaupaukum. Skilmálar kaupréttarsamninganna eru í samræmi við starfskjarastefnu og kaupaukakerfi félagsins. Meginefni kaupréttarsamninganna er sem hér segir:

  • Grunngengi í kaupréttarsamningunum er kr. 17,72 á hlut sem jafngildir vegnu meðalgengi í viðskiptum með hluti í félaginu á Nasdaq OMX Iceland síðustu tíu viðskiptadaga fyrir undirritun kaupréttarsamninga. Við grunnverð bætast áhættulausir vextir frá dagsetningu kaupréttarsamnings fram til nýtingardags, sem nú eru 7,63%. Skal kaupverðið m.a. leiðrétt fyrir arðgreiðslum sem kunna að vera ákveðnar á ávinnslutíma kaupréttanna.
  • Ávinnslutími kaupréttanna er 36 mánuðir frá undirritun samnings. Að þeim tíma loknum er heimilt að nýta kaupréttina innan næsta opna tímabils, sem er það tímabil sem hefst tveimur viðskiptadögum eftir birtingu ársfjórðungsuppgjöra og lýkur þegar tvær vikur eru til loka hvers ársfjórðungs.
  • Forstjórar, fjármálastjóri samstæðu og framkvæmdastjórn tryggingarekstrar VÍS skuldbinda sig til þess að halda hlutum sem að markaðsverði samsvara hagnaði eftir skatta af nýttum kauprétti í tvö ár frá nýtingu.
  • Virði kaupréttanna var ákvarðað með Black-Scholes útreikningi og rúmast verðmætin innan þeirra laga og reglna sem um kaupauka vátryggingafélaga gilda.
  • Í ákveðnum tilfellum er félaginu heimilt að afturkalla kauprétti í heild eða að hluta í samræmi við reglur Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.

Upplýsingar um viðskipti stjórnenda með framangreinda kauprétti eru í viðhengi:

Viðhengi



Pièces jointes

Tilkynning og opinber birting viðskipta- Sindri Sigurjónsson Tilkynning og opinber birting viðskipta-Anna Rós Ívarsdóttir Tilkynning og opinber birting viðskipta-Ingibjörg Á Ragnarsd Tilkynning og opinber birting viðskipta-Sigrún H Jóhannsdóttir Tilkynning og opinber birting viðskipta- Guðný Helga Tilkynning og opinber birting viðskipta- Brynjar Þór Hreinsson Tilkynning og opinber birting viðskipta- Jón Árni Traustason Tilkynning og opinber birting viðskipta- Haraldur I. Þórðarsson