Hagar hf.: Magnús Magnússon aðstoðarforstjóri Haga


Magnús Magnússon hefur tekið við stöðu aðstoðarforstjóra Haga, en um nýtt hlutverk innan samstæðu Haga er að ræða. Magnús þekkir vel til Haga en hann hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra stefnumótunar og rekstrar frá því snemma árs 2021, en mun nú ásamt því einnig taka að sér hlutverk aðstoðarforstjóra. Á næstu mánuðum mun hann ásamt öðru taka að sér það verkefni að setja á laggirnar nýtt svið Viðskiptaþróunar, sem er í samræmi við áætlanir Haga um að leggja aukna áherslu á nýja tekjustrauma.

"Rekstur Haga hefur gengið vel á undanförnum árum, þar sem áhersla hefur verið lögð á að styrkja helstu rekstrareiningar í oft ögrandi rekstrarumhverfi. Við munum á næstu misserum halda áfram að styrkja núverandi stoðir í rekstri Haga, en því til viðbótar munum við hér eftir leggja aukna áherslu á viðskiptaþróun sem lykilþátt í okkar starfi. Þetta þýðir að við munum í frekara mæli horfa til nýrra tækifæra, bæði þeirra sem tengjast beint okkar starfsemi, verslun með matvöru og eldsneyti, en einnig til nýrra tekjustrauma eða stoða til viðbótar við okkar kjarnastarfsemi í dag." segir Finnur Oddsson, forstjóri Haga