Hampiðjan – ársreikningur Hampiðjunnar 2023


Lykilstærðir

Allar fjárhæðir í evrum og samanburðartölur í sviga.

Árið 2023

  • Rekstrartekjur ársins voru 322,1 m€ (193,8 m€).
  • EBITDA af reglulegri starfsemi var 37,5 m€ (28,7 m€).
  • Einskiptiskostnaður vegna kaupanna á Mørenot, hlutafjáraukningar og skráningar á aðallista Nasdaq nam um 3,3 m€.
  • Leiðrétt EBITDA vegna þessa einskiptiskostnaðar er því 40,8 m€
  • Fjármagnskostnaður er 8,5 m€ (3,7 m€).
  • Hagnaður ársins nam 11,7 m€ (14,3 m€).
  • Áhrif einskiptiskostnaðar á hagnað ársins nemur tæpum 2,6 m€ og án þess kostnaðar hefði hagnaðurinn verið 14,4 m€.
  • Heildareignir voru 490,0 m€ (295,5 m€ í lok 2022).
  • Vaxtaberandi skuldir voru 168,0 m€ (110,8 m€ í lok 2022).
  • Handbært fé var 53,0 m€ (12,5 m€ í lok 2022).
  • Eiginfjárhlutfall var 55,2% (50,6% í lok 2022).

Fjórði ársfjórðungur 2023

  • Rekstrartekjur fjórða ársfjórðungs voru 75,0 m€ (54,7 m€).
  • EBITDA af reglulegri starfsemi á ársfjórðungnum var 7,0 m€ (7,5 m€).
  • Fjármagnskostnaður ársfjórðungsins vóg þungt og hagnaður ársfjórðungsins nam 0,4 m€ (2,6 m€).

Rekstur ársins

Rekstrartekjur samstæðunnar voru 322,1 m€ og hækkuðu um 66,3% frá fyrra ári.

EBITDA félagsins hækkaði um 30,7% á milli ára eða úr 28,7 m€ á árinu 2022 í 37,5 m€.

Fjármagnskostnaður ársins 2023 nemur 8,5 m€ samanborið við 3,7 m€ árið 2022. Meginskýringin á þessari hækkun tengist Mørenot eða um 3,1 m€ en einnig hefur hækkun á grunnvöxtum og niðurfærsla á langtímakröfu hjá öðrum félögum neikvæð áhrif á fjármagnskostnað að fjárhæð um 1,7 m€.

Hagnaður ársins var 11,7 m€ en var 14,3 m€ á fyrra ári.

Sé leiðrétt fyrir einskiptisliðum 2023 og 2022 er tengjast kaupum á Mørenot, skráningu á aðalmarkað og endurskipulagningarkostnaði í Noregi þá nemur EBITDA ársins 40,8 m€ samanborið við 30,1 m€ árið 2022. Hagnaður ársins hefði numið um 14,4 m€ samanborið við 15,4 m€ á fyrra ári eða lækkun um 6,5%.

Efnahagur

Heildareignir voru 490,0 m€ og hafa hækkað úr 295,5 m€ í árslok 2022.

Eigið fé nam 270,3 m€, en af þeirri upphæð eru 14,7 m€ hlutdeild minnihluta í eigin fé dótturfélaga.

Hlutfall eigin fjár, þegar hlutdeild minnihluta er meðtalin, var í lok ársins 55,2% af heildareignum samstæðunnar en var 50,6% í árslok 2022.

Vaxtaberandi skuldir námu í lok tímabils 168,0 m€ samanborið við 110,8 m€ í ársbyrjun.

Ársreikningurinn er aðgengilegur á heimasíðu Hampiðjunnar hf., www.hampidjan.is.

Í dag verður haldinn fjárfestakynning kl. 16:15 í höfuðstöðvum félagsins að Skarfagörðum 4. Kynningunni verður jafnframt streymt og er streymið aðgengilegt á heimasíðu félagsins, https://hampidjan.is/fjarmal/streymi

Hjörtur Erlendsson, forstjóri:

„Rekstur Hampiðjunnar gekk almennt vel á árinu 2023 og rekstrartekjurnar voru í heild rúmar 322 m€. Velta þeirra fyrirtækja sem voru innan samstæðu Hampiðjunnar, fyrir kaupin á Mørenot, var um 207 m€ sem samsvarar um 6% söluaukningu og því til viðbótar var velta Mørenotfélaganna sem bættust í samstæðuna á árinu um 115 m€. Veltan árið 2022 var um 194 m€ þannig að söluaukning ársins var rúmlega 66%.

Óleiðrétt EBITDA sameinaðs félags varð 37,5 m€ en var árið áður 28,7 m€. Mikill einskiptiskostnaður féll til á árinu sem er bæði tilkominn vegna kaupanna á Mørenot, hagræðingaraðgerða innan Mørenot, útboðs nýs hlutafjár og skráningar á aðalmarkað Nasdaq hér á Íslandi. Einskiptiskostnaðurinn varð samanlagður rúmar 3,3 m€ og leiðrétt EBITDA samstæðunnar telst því vera 40,8 m€ árið 2023. Ekki er búist við miklum leiðréttingum á þessu ári vegna einskiptiskostnaðar því allir stórir liðir vegna kaupanna eru frágengnir.

Grunnlánavextir og fjármagnskostnaður hefur verið hár allt árið og það hefur sett sitt mark á afkomu samstæðu Hampiðjunnar þótt eiginfjárhlutfallið sé hátt og yfir 55%. Hagnaður ársins er því merkjanlega lægri en árið á undan og er nú 11,7 m€ samanborið við 14,3 m€ árið áður. Ef hagnaðurinn væri leiðréttur fyrir einskiptiskostnaðinum á síðasta ári þá myndi hann hafa verið 14,4 m€.

Handbært fé frá rekstri nam tæpum 19,1 m á móti 6,1 m€ árið áður. Eftir töluverða aukningu birgða í kjölfar heimsfaraldursins eru birgðir að minnka aftur og það hefur haft jákvæð áhrif á sjóðstreymið.

Innan samstæðu Hampiðjunnar eru nú 48 fyrirtæki. Ef undan eru skilin framleiðslufyrirtækin 5 í Litháen, Póllandi og Kína og móðurfyrirtækið á Íslandi ásamt öðrum eignarhaldsfyrirtækjum þá eru það 27 fyrirtæki sem standa í framlínunni í sölu til útgerðar- og fiskeldisfyrirtækja.

Starfsemi þessara fyrirtækja gekk að jafnaði vel og sérstaklega á Íslandi, Írlandi, Grænlandi og Danmörku en sala dróst saman í Kanada vegna óvissu um verð á snjókrabba sem hélt aftur af veiðum.

Á árunum 2021 og 2022 voru rekstraraðstæður óvenjulegar því að í kjölfar faraldursins röskuðust aðfangakeðjur mikið og verðlagning á flutningi, orku og hráefnum fór úr böndunum. Segja má að nýtt jafnvægi sé komið á með nægu aðgengi að hráefni á ásættanlegu verði og orkuverð hefur jafnast og er nú um fimmtungi hærra en áður var og er sú breyting væntanlega komin til að vera.

Mikið hefur verið gert til að einfalda rekstur Mørenot eftir kaupin því ekki hafa verið skýr skil á milli aðalrekstrareininga fyrirtækins sem snúa að fiskeldi, veiðarfærum og útsjávariðnaði. Síðastnefndi markaðurinn er samheiti yfir sölur til botnlagsrannsóknarskipa, olíuvinnslu og uppsetninga á vindmyllum á hafi úti og djúpsjávarverkefnum sem eru ýmist björgun verðmæta, námuvinnsla eða rannsóknarverkefni. Skiptingin er þannig að Mørenot Aquaculture sér um fiskeldi, Mørenot Fishery um veiðarfæri og sameinað félag Hampiðjan Offshore og Mørenot Offshore, sem ber nú nafnið Hampidjan Advant, sinnir útsjávariðnaðinum.

Fyrirtækjum innan Mørenot samstæðunnar hefur verið skipulega fækkað með sameiningum og yfirstjórn, sem var að miklu leyti í eignarhaldsfélagi Mørenot, hefur verið minnkuð og henni deilt milli þessara þriggja meginsviða félagsins. Með þessu fæst skýrari kostnaðarskipting og ábyrgðarsvið framkvæmdastjóra fyrirtækjanna verður skýrt og þá einnig ábyrgð þeirra á viðkomandi rekstrareiningu.

Í sumar var starfsemi Mørenot Scotland á Hjaltlandseyjum og Hebridges flutt frá Mørenot til Vónarinnar í Færeyjum og er starfsemin nú rekin undir nafninu Vonin Scotland. Öll þjónusta við fiskeldisfyrirtæki á eyjunum frá Færeyjum suður til Skotlands er því á einni hendi en það felur í sér töluverða hagræðingu.

Í Danmörku hefur veiðarfærahluti Mørenot Denmark verið færður til Cosmos, dótturfélags Hampiðjunnar í Danmörku, og einnig hefur dótturfyrirtæki Cosmos í Thyborøn, Nordsøtrawl, verið sameinað við móðurfyrirtækið í kjölfar þess að Cosmos keypti 20% hlut minnihlutaeiganda þegar viðkomandi fór á eftirlaun. Yfirfærsla á þekkingu og veiðarfæratækni í flottrollum frá Hampiðjan Ísland til Mørenot Fishery í Noregi hefur gengið að óskum og er fyrsta Gloríutrollið nú þegar selt og komið í notkun og framleiðsla á fleiri trollum fyrir Mørenot hafin á netaverkstæði okkar í Litháen.

Reksturinn gekk vel hjá Mørenot Fishery allt árið þótt aðeins drægi úr á fjórða ársfjórðungi, starfsemi Mørenot Aquaculture var viðunandi fyrstu þrjá ársfjórðungana en á síðasta ársfjórðungi ársins komu inn neikvæðir utanaðkomandi þættir sem höfðu mikil áhrif á reksturinn og er þar helst að nefna erfitt veðurfar í Noregi fyrir áramót og þess að ekki tókst að halda uppi þjónustustigi í viðhaldsverkefnum þótt mikið af þeim lægju fyrir. Einnig var pöntunarstaða á nýjum fiskeldiskvíum á síðasta ársfjórðungi undir væntingum stjórnenda.

Eins og stefnt var að í kjölfar hlutafjáraukningarinnar síðastliðið sumar voru lán Mørenot greidd niður um meira en helming. Samtals nam niðurgreiðslan að meðtöldum kröfukaupalánum og birgjaskuldum um 39 m€ . Í kjölfarið var samið um skiptingu eftirstandandi lána á meginfyrirtækin þrjú í Mørenot og gengið frá þeim lánasamningum fyrir lok ársins.

Ef borin eru saman árin 2022 og 2023, sem er fyrsta ár Mørenot innan samstæðu Hampiðjunnar, leiðrétt fyrir einskiptiskostnaði, þá má sjá að EBITDA framlegð Mørenot hefur aukist um 2,1 m€ úr 9,2 m€  í 11,3 m€ á síðasta ári og er því 9,7%. Sambærilegt fyrir samstæðuna án Mørenot eru 30,2 m€  og hlutfallið er því 14,6%. Fyrir samstæðuna í heild sinni er hlutfall leiðréttrar EBITDA 12,6%.

Töluvert hefur því áunnist í að bæta rekstur Mørenot frá fyrra ári og markmið ársins var að ná hallalausum rekstri samstæðunnar á fyrsta árinu í eigu Hampiðjunnar. Það má segja að það markmið hafi nánast náðst. Þannig vantaði einungis 116 þ€ til að ná hallalausum rekstri og skrifast það á hærra vaxtastig en búist var við í byrjun ársins og á það sem vantaði uppá í fiskeldishlutanum í lok ársins.

Sífellt er unnið að því að byggja upp og bæta aðstöðu fyrirtækja Hampiðjunnar víða um heim enda er góð aðstaða grundvöllur að góðri og vandaðri þjónustu með hárri framleiðni til að tryggja samkeppnishæfni.

Í Kanada flutti Hampiðjan Canada starfsemi sína í St.John's úr leiguhúsnæði yfir í húsnæði sem keypt var fyrir starfsemina. Hentar nýja húsnæðið töluvert betur fyrir veiðarfæragerð og þjónustu en þar sem starfsemin var áður.

Í Norðskála í Færeyjum var áfram unnið að uppbyggingu á fiskeldisþjónustunni í kjölfar stækkunar á síðasta ári þar sem bætt var við stórum vinnusal og öll aðstaða starfsmanna bætt. Nú er verið að leggja lokahönd á viðbótarbyggingu fyrir íburðartæki og þurrkaðstöðu fyrir fiskeldiskvíarnar. Þar með líkur uppbyggingunni á svæðinu en samhliða þessari stækkun hefur verið bætt við stærri netaþvottavél með fullkomnum hreinsibúnaði fyrir þvottavatnið.

Í Skagen í Danmörku hefur Cosmos, dótturfélag Hampiðjunnar, hafið byggingu á nýju og fullkomnu 4.800 m2 netaverkstæði til að sinna síaukinni þörf fyrir viðgerðir á flottrollum enda er Skagen orðin stærsta uppsjávarskipahöfn Danmerkur. Bygging nýja netaverkstæðis gengur vel og ef veður hamlar ekki þá ætti verkstæðið að vera tilbúið til notkunar í sumar. Nýja netaverkstæðið verður vandlega búið tækjum og verður eitt hið tæknilegasta og fullkomnasta sem völ er á. Það mun auka möguleika okkar til að þjónusta skip sem koma til hafnar í Skagen en þar er ein stærsta uppsjávarhöfn í Evrópu. Þess má geta að Hampiðjan hefur undanfarna áratugi hannað og framleitt allan eigin tækjabúnað, vindur, tromlur og blakkir, í Litháen fyrir eigin netaverkstæði um allan heim.

Á eynni Skye, sem liggur fast upp við vesturströnd Skotlands, er að hefjast bygging á fullkominni þjónustustöð við fiskeldið í nánu samstarfi við Mowi sem telst vera stærsta laxeldisfyrirtæki heims og byggingin er á vegum Vonin Scotland. Áætlað er að stöðin verði tilbúin til notkunar haustið 2025. Með þeirri stöð fjölgar fiskeldisþjónustustöðvum samstæðunnar í 13 við N-Atlantshaf og að auki eru stöðvar á Spáni og á vesturströnd Kanada svo í heildina eru stöðvarnar 15 talsins. Ekkert annað þjónustufyrirtæki við N-Atlantshaf hefur jafn viðamikla þjónustu við fiskeldisnet og það fyrirtæki sem kemst næst því rekur 5 stöðvar.

Starfsmenn Hampiðjunnar voru að meðaltali 1.947 á árinu og fjölgaði því um 741 úr 1.206 starfsmönnum árið á undan. Það skýrist af innkomu Mørenot í samstæðuna. Á síðasta ári störfuðu 104 starfsmenn á Íslandi sem er eilítil auking frá fyrra ári. Af heildinni eru nú rúmlega 5% starfa hér á landi. Sem fyrr eru fjölmennustu starfsstöðvarnar í Litháen en þar starfa nú um 750 starfsmenn.

Hampiðjan er nú skráð á aðallista Nasdaq Iceland og í lok ársins voru hluthafar 2.665 því fjölmargir nýjir hluthafar komu inn í hlutafjárútboðinu síðastliðið sumar.

Eins og kynnt var síðastliðið sumar þá mun það taka nokkur ár að ná fram allri hagræðingu og samlegð sem fylgja kaupunum á Mørenot. Fyrsta árið af þeim fimm sem voru nefnd er nú liðið og mikið hefur nú þegar áunnist og ekki annað að sjá á þessum tímapunkti en að sú áætlun muni standast eins og lagt var upp með. Fátt hefur komið á óvart eftir að gengið var frá kaupunum en hinsvegar virðast hagræðingar- og samlegðarmöguleikar vera meiri en voru sýnilegir í kaupferlinu. Með innkomu Mørenot í samstæðuna hefur virðiskeðjan styrkst og tækifærum fjölgað og það verður spennandi verkefni að vinna úr öllum þeim möguleikum sem hafa skapast á næstu árum.“   

Viðhengi



Pièces jointes

25490002T5TRM5T6US82-2023-12-31-is Hampiðjan hf. Ársreikningur 2023