Sjóvá – Árshlutauppgjör 1. ársfjórðungs 2024


Helstu niðurstöður úr árshlutauppgjöri Sjóvá-Almennra trygginga hf. vegna fyrsta ársfjórðungs 2024:

Fyrsti ársfjórðungur 2024 og horfur

  • Hagnaður af vátryggingasamningum fyrir skatta 242 m.kr. (1F 2023: 95 m.kr. tap)
  • Hagnaður af fjárfestingastarfsemi fyrir skatta 363 m.kr. (1F 2023: 812 m.kr.)
  • Hagnaður tímabilsins 421 m.kr. (1F 2023: 636 m.kr.)
  • Ávöxtun fjárfestingareigna í stýringu 1,2% (1F 2023: 1,6%)
  • Samsett hlutfall 97,0% (1F 2023: 101,3%)
  • Horfur fyrir árið 2024 eru óbreyttar og er afkoma af vátryggingasamningum fyrir árið 2024 og til næstu 12 mánaða áætluð 1.100-1.600 m.kr. og samsett hlutfall 95-97%.

Hermann Björnsson, forstjóri:

Afkoma Sjóvár á fyrsta ársfjórðungi nam 421 m.kr. og samsett hlutfall var 97%. Afkoma fjárfestinga fyrir fjármagnsliði var 703 m.kr. og afkoma af vátryggingasamningum var 242 m.kr.

Tekjur af vátryggingasamningum jukust um 10,1% samanborið við sama tímabil í fyrra og er tekjuvöxturinn jafnt á einstaklings- og fyrirtækjamarkaði.

Almennt séð var tjónaþróun í takt við áætlanir og umsvif í þjóðfélaginu þar sem tíðarfar var nokkuð betra en á 1F 2023. Eitt stórt brunatjón kom inn í okkar bækur á fjórðungnum. Í áætlunum er gert ráð fyrir tjónum af þessari stærðargráðu en eðli máls samkvæmt hafa þau afgerandi áhrif í þeim fjórðungi sem þau falla til.

Afkoma af fjárfestingastarfsemi fyrir fjármagnsliði og skatta var 703 m.kr. sem er ásættanlegt í ljósi markaðsaðstæðna en miklar sveiflur hafa verið á eignamörkuðum það sem af er ári. Ríkisskuldabréf og önnur skuldabréf skiluðu jákvæðri ávöxtun á fjórðungum en skráð – og óskráð hlutabréf neikvæðri ávöxtun. Ávöxtun skráðra hlutabréfa var -1,1%, ríkisskuldabréfa 2,6% og safnsins alls 1,2%. Í lok fyrsta fjórðungs nam stærð eignasafnsins 56,6 milljörðum kr.

Tillaga um heimild til kaupa á eigin hlutabréfum var samþykkt á aðalfundi 7. mars 2024 og hefur nú samþykki fengist frá Fjármálaeftirlitinu. Endurkaup félagsins munu sem fyrr taka mið af gjaldþolsviðmiðum stjórnar.

Í byrjun apríl voru 10 ár frá skráningu Sjóvár á aðallista kauphallarinnar. Frá skráningu hefur Sjóvá orðið að stærsta vátryggingafélagi landsins, skilað jákvæðri afkomu af vátryggingasamningum á hverju ári og ánægja viðskiptavina hefur aukist en Sjóvá hefur verið efst fjármálafyrirtækja í Íslensku ánægjuvoginni síðastliðin 7 ár. Þá hefur félagið reynst afar arðbært fyrir eigendur með hagfelldri þróun hlutabréfaverðs félagsins ásamt reglulegum greiðslum til hluthafa.

Þá er gaman að segja frá því að í ár eru 25 ár síðan samstarf Sjóvár og Landsbjargar hófst. Sjóvá hefur átt í afar farsælu samstarfi við félagið í tengslum við ýmis forvarnarverkefni, öryggismál og tryggingar. Þá styrkti Sjóvá Landsbjörg árið 2022 um 142,5 m.kr. til kaupa á þremur skipum sem hafa nú öll verið tekin í notkun. Við erum afar stolt af því að hafa stutt við bakið á þessu öfluga félagi eins lengi og raun ber vitni og hlökkum til að halda þessu góða samstarfi áfram.

Horfur fyrir árið 2024 eru óbreyttar og er afkoma af vátryggingasamningum fyrir árið 2024 og til næstu 12 mánaða áætluð 1.100-1.600 m.kr. og samsett hlutfall 95-97%. Þá eru áhrif áfallinna vaxta (vöxtunar) vátryggingaskuldar í samræmi við væntingar á fjórðungnum og má ætla að áhrifin verði neikvæð um 1.600-1.800 m.kr. á árinu 2024. Ekki verða birtar horfur fyrir afkomu af fjárfestingastarfsemi en áætlanir félagsins gera ráð fyrir að ávöxtun fjárfestingareigna í stýringu nemi 9,0% á ári til lengri tíma miðað við núverandi vaxtastig og fjárfestingastefnu. Ekki verður upplýst um frávik frá afkomu af fjárfestingastarfsemi nema þær verði raktar til breytinga á óskráðum eignum eða verulegra breytinga á fjárfestingastefnu.

Kynningarfundur 19. apríl kl. 16:15

Markaðsaðilum og fjárfestum er boðið á kynningarfund í fundarsal félagsins í Kringlunni 5, 6. hæð þann 19. apríl kl. 16:15. Þar munu Hermann Björnsson forstjóri, Sigríður Vala Halldórsdóttir framkvæmdastjóri fjármála og upplýsingatækni og Þórður Pálsson forstöðumaður fjárfestinga kynna uppgjörið og fara yfir afkomu félagsins. Kynningunni verður jafnframt streymt á slóðinni https://www.sjova.is/um-okkur/fjarfestar/afkomukynning-1f-2024/.

Vilji aðilar bera upp spurningar má senda þær á netfangið fjarfestar@sjova.is fyrir fundinn eða á meðan á fundi stendur og verður þeim svarað í lok kynningarinnar.

Uppgjörsefni verður aðgengilegt á vef Sjóvár www.sjova.is/fjarfestar frá þeim tíma er kynningin hefst og verður upptaka af fundinum aðgengileg á sömu síðu að fundi loknum.

Fjárhagsdagatal

2. ársfjórðungur 2024 17. júlí 2024
3. ársfjórðungur 2024 21. október 2024
Ársuppgjör 2024 6. febrúar 2025
Aðalfundur 2025 13. mars 2025

Nánari upplýsingar
Meðfylgjandi er fréttatilkynning, samandreginn árshlutareikningur samstæðunnar og fjárfestakynning Sjóvá-Almennra trygginga hf. vegna fyrsta ársfjórðungs 2024.

Nánari upplýsingar veitir Davíð Scheving Thorsteinsson í síma 869-8109 eða fjarfestar@sjova.is.


Viðhengi



Pièces jointes

Árshlutareikningur Sjóvá 31.3.2024 Fréttatilkynning Sjóvá 1F 2024 Sjóvá - Fjárfestakynning 1F 2024