Sterkt rekstrarár með auknum tekjum og bættri afkomu
Ársreikningur Haga hf. fyrir rekstrarárið 2023/24 var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins á stjórnarfundi þann 23. apríl 2024. Reikningurinn er fyrir tímabilið 1. mars 2023 til 29. febrúar 2024. Ársreikningurinn hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og er hann gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) og viðeigandi ákvæði laga um ársreikninga. Endurskoðendur félagsins, PricewaterhouseCoopers ehf., hafa endurskoðað reikninginn og áritað hann fyrirvaralausri áritun.
Helstu lykiltölur
- Vörusala 4F nam 42.788 m.kr. (6,5% vöxtur frá 4F 2022/23). Vörusala 12M nam 173.270 m.kr. (7,0% vöxtur frá 12M 2022/23). [4F 2022/23: 40.160 m.kr., 12M 2022/23: 161.992 m.kr.]
- Framlegð 4F nam 8.952 m.kr. (20,9%) og 35.989 m.kr. (20,8%) fyrir 12M. [4F 2022/23: 7.739 m.kr. (19,3%), 12M 2022/23: 30.987 m.kr. (19,1%)]
- Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) 4F nam 2.840 m.kr. eða 6,6% af veltu. EBITDA 12M nam 13.063 m.kr. eða 7,5% af veltu. [4F 2022/23: 2.406 m.kr. (6,0%), 12M 2022/23: 12.041 m.kr. (7,4%)]
- Hagnaður 4F nam 1.191 m.kr. eða 2,8% af veltu. Hagnaður 12M nam 5.044 m.kr. eða 2,9% af veltu. [4F 2022/23: 735 m.kr. (1,8%), 12M 2022/23: 4.949 m.kr. (3,1%)]
- Grunnhagnaður á hlut 4F var 1,09 kr. og 4,59 kr. fyrir 12M. [4F 2022/23: 0,66 kr., 12M 2022/23: 4,40 kr.]. Þynntur hagnaður á hlut 4F var 1,08 kr. og 4,51 kr. fyrir 12M. [4F 2022/23: 0,65 kr., 12M 2022/23: 4,32 kr.]
- Eigið fé nam 28.188 m.kr. í lok tímabils og eiginfjárhlutfall 36,5%. [Árslok 2022/23: 27.931 m.kr. og 38,8%]
- Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2023/24 gerði ráð fyrir að EBITDA yrði 12.900-13.400 m.kr.
Helstu fréttir af starfsemi
- Rekstur á 4F gekk vel með áframhaldandi veltuaukningu og afkomubata. Jólaverslun gekk vonum framar.
- Vörusala jókst um 6,5% á 4F en seldum stykkjum í dagvöruverslunum fjölgaði um 3,3% milli ára og heimsóknum viðskiptavina fjölgaði sömuleiðis, eða um 10,1% á fjórðungnum. Seldum eldsneytislítrum fækkaði um 1,4% á fjórðungnum, einkum vegna loðnubrests.
- Framlegð í krónum talið jókst um 15,7% milli ára og framlegðarhlutfallið nemur 20,9% eða hækkun um 1,7%-stig milli ára. Styrking framlegðar frá fyrra ári tengist starfsemi Olís og sveiflum í heimsmarkaðsverði olíu, en framlegðarhlutfall í dagvöru stendur í stað á milli ára.
- Um síðastliðin áramót voru framkvæmda-stjórabreytingar í tveimur stærstu rekstrareiningum Haga, Bónus og Olís.
- Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2024/25 gerir ráð fyrir að EBITDA verði á bilinu 13.800-14.300 m.kr. og fjárfestingaráætlun nemur 4.500-4.800 m.kr.
- Ávinningur af þróun fasteigna byrjaður að skila sér til hluthafa Haga í gegnum eignarhald í fasteignarþróunarfélaginu Klasa.
- Í apríl sl. var tilkynnt um að Hagar, ásamt meðeigendum, hefðu tekið ákvörðun um að hefja undirbúning sölumeðferðar á eignarhlutum í Olíudreifingu, EAK og EBK.
Finnur Oddsson, forstjóri:
Starfsemi Haga á síðasta fjórðungi rekstrarársins 2023/24 gekk vel. Vörusala samstæðu nam 42.788 m.kr. sem er 7% aukning miðað við sama tímabil árið á undan. Framlegð talin í krónum jókst um 16% og styrkist einnig sem hlutfall af tekjum. EBITDA nam 2.840 m.kr. og hagnaður 1.191 m.kr., sem hvoru tveggja er umtalsverð aukning frá fyrra ári, annars vegar vegna bætts rekstrar og hins vegar vegna afkomu hlutdeildarfélaga.
Árangur á fjórðungnum slær botninn í gott ár hjá samstæðu Haga þar sem rekstur allra helstu eininga styrktist. Tekjur jukust um 7% og voru ríflega 173 ma. kr., EBITDA ársins var 13.063 m.kr. eða 7,5% af veltu og hagnaður 5.044 m.kr. Að teknu tilliti til einskiptisliða sem féllu til á fyrra ári, þá hefur afkoma styrkst töluvert. Við erum því ánægð með reksturinn á árinu, sérstaklega þegar horft er til að rekstrarumhverfi hefur verið ögrandi, m.a. vegna stöðugra hækkana á verði aðfanga til dagvöruverslunar og sveiflna á olíumörkuðum.
Tekjur verslana og vöruhúsa jukust um 12% á fjórða ársfjórðungi og voru 32.165 m.kr. Fyrir utan áhrif verðbólgu, þ.e. verðhækkana frá heildsölum og framleiðendum, þá var raunvöxtur töluverður, afleiðing fjölgunar viðskiptavina og seldra eininga hjá dagvöruverslunum, Stórkaup, Zöru og Eldum rétt. Þessi aukna eftirspurn skilar sér svo aftur í bættri afkomu verslana og vöruhúsa miðað við fyrra ár.
Umsvif hjá Bónus hafa aukist á hverjum fjórðungi undanfarin nokkur ár, með fjölgun viðskiptavina og auknu seldu magni. Þar er ljóst að viðskiptavinir hafa tekið vel í nýjar verslanir sem opnaðar voru á árinu, lengri opnunartíma, endurbætur á eldri verslunum og nýjar þjónustuleiðir á borð við skönnunarlausnina Gripið & Greitt. Þessar umbætur miða að því að auðvelda viðskiptavinum aðgengi, spara tíma þeirra og auka þægindi í verslunarferðum. Þó þannig að hagkvæmni sé gætt til hins ýtrasta, enda er ljóst að saga af hagkvæmustu matvörukörfu um allt land dregur að, einkum á verðbólgutímum eins og hafa verið. Jólasala í Hagkaup var mikil eins og undanfarin ár og Eldum rétt hefur náð að festa sig í sessi sem einföld og þægileg lausn fyrir æ fleiri fjölskyldur og einstaklinga. Starfsemi vöruhúsa Haga, Aðfanga og Banana, gekk vel á met álagsmánuðum í kringum hátíðirnar, en stækkun vöruhúsa og aukin nýting tækni hafa einfaldað verklag og aukið skilvirkni.
Tekjur hjá Olís námu 11.051 m.kr. á fjórðungnum og drógust saman um ríflega 7% á milli ára. Þessi samdráttur skýrist annars vegar af lækkun á heimsmarkaðsverði olíu frá fyrra ári og hins vegar vegna lítilsháttar fækkunar á heildarfjölda seldra lítra á tímabilinu. Þar munar mestu um samdrátt í sölu til stórnotenda, sem verður vegna loðnubrests í ár í samanburði við ágæta vertíð árið á undan. Sala eldsneytis á smásölumarkaði var svipuð á milli ára, en bætt ásýnd og þjónustuframboð stöðva Olís hefur skilað sér í aukinni sölu á þurrvöru og nýjum tekjum, m.a. vegna afhendinga pakkasendinga og af raforkusölu. Afkoma dregst saman miðað við sama fjórðung fyrir ári. Það breytir því hins vegar ekki að nýliðið rekstrarár var í heild með þeim sterkari í sögu Olís.
Verkefni á vegum Klasa fasteignaþróunarfélags, þar sem Hagar eiga 1/3 hlut, gengu vel á síðasta ári. Félagið hélt áfram þróun á eftirsóknarverðum byggingarreitum, undirbjó eigin byggingarframkvæmdir og vann að sölu á tilbúnum lóðum til byggingaraðila. Í dag fela þróunarverkefni á vegum Klasa í sér byggingarmagn sem telur ríflega 300.000 m2 en meirihluti þeirra fermetra geta verið tilbúnir fyrir byggingaraðila innan árs eða eru byggingarhæfir í dag. Eins og merkja má af hlutdeild Haga í afkomu Klasa á síðasta ári, þá hafa markmið okkar um að flýta fyrir verðmætasköpun á grunni þróunareigna samstæðunnar þegar gengið eftir. Það er þó aðeins að litlum hluta, enda líklegt að töluverð spurn verði eftir tilbúnum byggingarreitum frá Klasa á næstu mánuðum og misserum. Við væntum þess því að Klasi muni áfram hafa jákvæð áhrif á afkomu Haga á næstu árum.
Þróun og rekstur samstæðu Haga á fjórðungnum og rekstrarárinu 2023/24 endurspeglar að stefnumótandi áherslur síðustu ára og aðgerðir til að styrkja félagið hafa gefist vel. Til skemmri tíma verður eitt mikilvægasta verkefni okkar að vinna áfram gegn verðhækkunum í dagvöru þar sem enn er töluverður hækkunarþrýstingur á aðfangahliðinni. Við höfum á undanförnum vikum átt gott samtal við marga af okkar helstu samstarfsaðilum, heildsala og framleiðendur, sem deila þessu verkefni með okkur og hafa margir hverjir lagt töluvert á sig til að gæta hófs og draga úr boðuðum verðhækkunum. Samstaða um stöðugleika verðs liggur til grundvallar þess að markmið nýgerðra kjarasamninga náist, sem er hagur allra.
Það hefur verið stígandi í rekstri samstæðu Haga og heilt yfir gengið vel á undanförnum árum, með áherslu á að auka skilvirkni rekstrar og styrkja helstu einingar. Við munum ekki kvika frá þessum áherslum á næstu misserum, en sem viðbót þá munum við í auknum mæli horfa til tækifæra í að byggja nýja tekjustrauma, bæði tengt núverandi starfsemi í verslun með matvöru og eldsneyti og nýjum stoðum til viðbótar við okkar kjarnastarfsemi í dag.
Fjárhagsleg staða Haga er góð, helstu rekstrareiningar ganga vel, og félagið hefur á að skipa öflugum hópi starfsfólks sem hefur metnað fyrir því að þjóna viðskiptavinum með því að gera verslun hagkvæma, þægilega og skemmtilega. Heilt yfir er staða félagsins því sterk og horfur ágætar.
Afkomuspá stjórnenda fyrir rekstrarárið 2024/25 gerir ráð fyrir því að EBITDA samstæðunnar verði á bilinu 13.800-14.300 m.kr.
Kynningarfundur miðvikudaginn 24. apríl 2024
Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og hluthafa verður haldinn á Nauthól, Nauthólsvegi 106 í Reykjavík, miðvikudaginn 24. apríl kl. 08:30. Þar munu Finnur Oddsson, forstjóri, og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs, kynna rekstur og afkomu félagsins, ásamt því að svara fyrirspurnum.
Fundinum verður auk þess streymt og er skráning á streymið hér: https://www.hagar.is/skraning
Kynningargögn verða aðgengileg á heimasíðu Haga, www.hagar.is, við upphaf fundar.
Frekari upplýsingar um uppgjörið má finna í meðfylgjandi fréttatilkynningu og ársreikningi.
Nánari upplýsingar veita Finnur Oddsson, forstjóri félagsins (fo@hagar.is), og Guðrún Eva Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs (geg@hagar.is), í síma 530-5500 eða tölvupósti.
Viðhengi
- 635400TICHH43JJTNP54-2024-02-29-is
- 635400TICHH43JJTNP54-2024-02-29-is.zip-viewer
- Hagar Ársreikningur 29.02.2024 ísl
- Fréttatilkynning Hagar 4F 2023-24