Ríkisreikningur 2023: Meira jafnvægi í þjóðarbúinu og lækkandi verðbólga ávinningur ábyrgrar stefnu í ríkisfjármálum


Uppgjör ríkisreiknings fyrir árið 2023 hefur nú verið birt og ríkisreikningur sendur Alþingi. Staða ríkissjóðs styrktist enn á árinu 2023. Rekstrarhalli minnkaði verulega og var minni en áætlanir gerðu ráð fyrir. Annað árið í röð batnaði staða ríkissjóðs töluvert meira en leiðir af hagvexti einum saman. Endurspeglar það markvissa eftirfylgni á þeirri stefnu stjórnvalda að halda nú aftur af ríkisumsvifum og tryggja að skuldir ríkissjóðs lækki í hlutfalli við landsframleiðslu.

„Ávinningur af ábyrgri stefnu í ríkisfjármálum birtist nú í mun meira jafnvægi í þjóðarbúinu og lækkandi verðbólgu í kjölfar efnahagslegra sviptivinda undangenginna ára. Samfélagslegur ábati af sterkri stöðu ríkissjóðs birtist einnig í því hversu vel hann var í stakk búinn til að takast á hendur mikil, óvænt og tilfallandi útgjöld vegna jarðhræringanna í Grindavík og nauðsynlegar stuðningsaðgerðir þeim tengdum,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra um niðurstöður ríkisreiknings.

Breytingar eru á reikningnum vegna innleiðingar á alþjóðlegum reikningsskilastöðlum og er reikningurinn birtur sem heildarsamstæða A-, B- og C- hluta ríkisins í fyrsta sinn sem er í samræmi við innleiðingaráætlun á alþjóðlegum reikningsskilastöðlum. Afkoma ársins samkvæmt heildarsamstæðu er neikvæð um 81,4 ma.kr. Tekjur samstæðu námu 1.370,8 ma.kr. og rekstrargjöld 1.390,4 ma.kr. Hrein fjármagnsgjöld voru neikvæð um 71,9 ma.kr.

Ársreikningur ríkissjóðs fyrir A1-hluta er birtur í seinni hluta ríkisreiknings.

Þess ber að geta að rekstrarafkoma ríkisreiknings er birt á grunni reikningsskilastaðla fyrir opinbera aðila (IPSAS) en heildarafkoma í fjármálaáætlun og fjárlögum er birt samkvæmt hagskýrslustaðli (GFS). Báðum aðferðum er ætlað að tryggja samkvæmni og alþjóðlega samanburðarhæfni. Til að bera afkomu ríkissjóðs samkvæmt ríkisreikningi við afkomumarkmið fjármálaáætlunar og fjárlaga þarf því að aðlaga niðurstöðu ársreiknings A1- hluta að hagskýrslustaðlinum. Á þeim grunni var í fjárlögum ársins 2023 gert ráð fyrir að heildarafkoma yrði neikvæð um 119,6 ma.kr. Niðurstaða ársins reyndist hins vegar neikvæð heildarafkoma um 20,0 ma.kr. Þá var frumjöfnuður, afkoma fyrir fjármagnsliði, jákvæður annað árið í röð, frumjöfnuður var jákvæður um 78,7 ma.kr. en var áætlaður neikvæður um 50,3 ma.kr. samkvæmt samþykktum fjárlögum.

„Það er stöðugt verkefni að ná sem mestum árangri í ríkisrekstrinum. Við höldum því áfram að nýta tækifæri til þess að bæta þjónustu við borgarana og byggja upp öfluga innviði samhliða því sem sterk staða ríkissjóðs er fest enn frekar í sessi,“ segir fjármála- og efnahagsráðherra.

Viðhengi



Pièces jointes

Rikisreikningur 2023