Orkuveitan | 6 mánaða uppgjör – Tekjuvöxtur og aukinn hagnaður


Tekjur Orkuveitunnar (Orkuveitu Reykjavíkur) voru talsvert meiri á fyrri helmingi ársins en á sama tímabili 2023. Nemur aukningin 9,3% og hagnaður á tímabilinu nánast þrefaldaðist frá fyrra ári, var 4,3 milljarðar króna fyrstu sex mánuði ársins í ár en 1,6 milljarðar í fyrra. Þetta kemur fram í árshlutareikningi samstæðu Orkuveitunnar fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2024, sem samþykktur var af stjórn í dag. Innan samstæðunnar eru, auk móðurfélagsins, Veitur, Orka náttúrunnar, Ljósleiðarinn og Carbfix. 

Veltufé frá rekstri fyrstu sex mánuði ársins nam 14,6 milljörðum króna og eykst um 4,6% milli ára. Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum voru 13,7 milljarðar króna. Eignir samstæðunnar eru bókfærðar á 495 milljarða króna miðað við 30. júní sl. og eiginfjárhlutfallið er 52,4%.

Í miðju kafi í mikilvægum verkefnum
Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar, segir vöxtinn ánægjulegan. „Orkuveitan er aflvaki nauðsynlegra umskipta. Við erum í miðju kafi í fjölbreyttum loftslagsverkefnum. Þar á meðal er aukin orkuöflun til að sinna núverandi eftirspurn og til framtíðar og kolefnisbindingu hér á landi og í útlöndum. Þetta kallar á verulega fjárfestingar í tækjum og öðrum búnaði en líka í þekkingu fólks,“ segir Sævar Freyr. Hann bendir á að heildarfjárfestingar Orkuveitunnar á fyrri helmingi ársins hafi numið tæpum 14 milljörðum króna. „Styrkur Orkuveitunnar nýtist vel í þessi stóru sjálfbæru samfélagslegu verkefni en veltufé frá rekstri á fyrri helmingi ársins nam 14,6 milljörðum króna,“ bætir Sævar Freyr við.

Styður við sjálfbæran vöxt
Sævar Freyr segir nýja stefnu Orkuveitunnar miða að því að styðja við sjálfbæran vöxt samfélagsins. „Við höfum skýr dæmi um hvernig við gerum það og til dæmis má taka að sala á rafmagni í gegnum hleðslukerfi Orku náttúrunnar fyrir rafbíla hefur tæplega ferfaldast síðustu tvö ár. Þannig styðjum við orkuskiptin í samgöngum,“ segir Sævar Freyr. „En við verðum líka að fylgja þeim eldri eftir,“ bætir hann við og bendir á að notkun viðskiptavina Veitna á heitu vatni hefur aukist um 11% frá því fyrstu sex mánuðina 2022.

Viðurkenning fyrir sjálfbærnistarf
Orkuveitan hefur nú á árinu hlotið góðar einkunnir fyrir sjálfbærnistarf fyrirtækisins. Í viðhengdu UFS-mati Reitunar hlýtur fyrirtækið 88 stig af 100 mögulegum og eru umhverfis- og loftslagsmálin sérstakur styrkleiki samstæðunnar. Reitun metur um 40 útgefendur fjármálagerninga hér á landi. Þessi styrkleiki kom einnig í ljós í Sjálfbærnivísi PwC, sem gefinn var út á dögunum. Þar er Orkuveitan talin á meðal fremstu fyrirtækja landsins í loftslagsmálum en 50 stærstu fyrirtæki landsins voru tekin út af PwC.

Tengiliður:
Snorri Hafsteinn Þorkelsson
framkvæmdastjóri fjármála
snorri.hafsteinn.thorkelsson@orkuveitan.is

Viðhengi



Pièces jointes

Orkuveitan - UFS-mat Reitunar 2024 Orkuveitan - samandreginn árshlutareikningur samstæðu 1.1.-30.6.2024