Þjónusta og lífsgæði íbúa Garðabæjar áfram í fremstu röð
Álögum á íbúa Garðabæjar verður áfram stillt í hóf, grunnrekstur bæjarins styrkist enn frekar og skuldir verða sem áður hóflegar samkvæmt nýrri fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2025. Fjárhagsáætlun ársins 2025 var lögð fram til fyrri umræðu á bæjarstjórnarfundi í dag, fimmtudaginn 7. nóvember.
„Með þessari áætlun gerum við ráð fyrir að renna stoðum enn frekar undir traustan fjárhag Garðabæjar. Við sjáum það á útkomuspá þessa árs að hagræðingaraðgerðir hafa borið árangur. Þjónusta Garðabæjar verður áfram í hæsta gæðaflokki, uppbygging innviða heldur áfram og við ætlum okkur að halda í gæðin sem við bjóðum upp á,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar.
Mikill bati hefur orðið á grunnrekstri Garðabæjar árið 2024, eins og fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir. Veltufé frá rekstri í A sjóði styrkist verulega. Veltufé frá rekstri fyrir samstæðuna í heild er áætlað um 2.700 m.kr. Hagræðingaraðgerðir hafa skilað sér og reksturinn hefur styrkst.
Íbúafjölgun heldur áfram og eru Garðbæingar nú ríflega 20 þúsund. Mikil uppbygging stendur yfir í Garðabæ, en eins og á yfirstandandi ári verður framkvæmdum forgangsraðað eftir mikilvægi.
Samkvæmt fjárhagsáætlun 2025 verður áhersla lögð á að klára síðasta áfanga Urriðaholtsskóla og hefja mikilvægar veituframkvæmdir á Álftanesi. Áætlað er að framkvæma fyrir 4.921 m.kr.
Fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir að álögum á íbúa verði áfram stillt í hóf, en hlutfall útsvarsprósentu Garðabæjar er það lægsta meðal stærstu sveitarfélaga landsins. Fasteignaskattar á íbúa verða ekki hækkaðir umfram verðlag.
Lykiltölur fjárhagsáætlunar:
- Rekstrarniðurstaða A sjóðs er jákvæð um 112 m.kr.
- Rekstrarniðurstaða A og B sjóðs er jákvæð um 469 m.kr.
- Veltufé frá rekstri nemur um 2.700 m.kr. og hefur grunnrekstur bæjarins styrkst verulega.
- Skuldaviðmið skv. reglugerð nemur um 103,7% hjá A- sjóði og 105,7% hjá A og B sjóði
- Skuldahlutfall A sjóðs lækkar í 122%.
„Við horfum til framtíðar en lítum einnig stolt til baka á hvernig við höfum viðhaldið góðri stöðu bæjarins í flóknu rekstrarumhverfi verðbólgunnar, hárra vaxta og óvissu kjarasamninga. Okkur hefur tekist að standa vörð um þjónustustig Garðabæjar og vernda lífsgæði íbúa,“ segir Almar.
Vakin er athygli á því að fjárhagsáætlun Garðabæjar verður einnig til umfjöllunar á bæjarstjórnarfundi 5. desember nk. Því má gera ráð fyrir að áætlunin muni taka einhverjum breytingum á milli umræðna í bæjarstjórn Garðabæjar.
Viðhengi
- Framkvæmdaáætlun 2025-2028 DRÖG
- Garðabær Fjárhagsáætlun 2025-2028 - ENDANLEGT
- Greinargerð_fjárhagsáætlun_2025_Drög