SKEL fjárfestingafélag hf.: Úthlutun kauprétta


Stjórn SKEL hefur ákveðið að veita tilteknum starfsmönnum félagsins kauprétti að allt að 10.801.254 hlutum í félaginu.

Kaupréttarsamningarnir eru veittir í því skyni að samtvinna hagsmuni félagsins og starfsmanna til lengri tíma. Skilmálar kaupréttarsamninganna eru í samræmi við kaupréttaráætlun og starfskjarastefnu sem samþykkt var á aðalfundi félagsins þann 7. mars 2024, þar sem hluthafafundur samþykkti að veita stjórn heimild til að úthluta kaupréttum starfsmanna félagsins, annarra en þeirra lykilstjórnenda er fengu úthlutaða kauprétti á grundvelli kaupréttaráætlunar sem samþykkt var á aðalfundi félagsins hinn 10. mars 2022.

  • Nýtingarverð kaupréttanna er kr. 16,956 á hlut, sem er vegið meðalverð í viðskiptum með hluti í félaginu á Nasdaq Iceland tíu heila viðskiptadaga fyrir útgáfu kauprétta. Verðið leiðréttist (til lækkunar) fyrir framtíðararðgreiðslum og samsvarandi úthlutun til hluthafa og leiðréttist (til hækkunar) með árlegum vöxtum sem nema 3% ofan á áhættulausa vexti frá útgáfudegi og fram að fyrsta mögulega nýtingardegi fyrir hvert nýtingartímabil.
  • Ávinnslutími er þrjú ár frá úthlutun og hefst nýtingartímabil þegar í stað að honum loknum en þá er unnt að nýta 1/3 af kauprétti, ári eftir það er unnt að nýta 1/3 af kauprétti og ári eftir það 1/3 af kauprétti.
  • Greitt skal fyrir kaupréttarhlutina með reiðufé þegar og ef þeir verða nýttir.
  • Ákveðið hlutfall af kaupréttarhlutum, 15% innleysts hagnaðar kaupréttarhafa, ef um hagnað verður að ræða, að frádregnum öllum sköttum og öðrum skyldugreiðslum í formi hlutafjár í félaginu, skal geyma til starfsloka.
  • Almennt séð falla kaupréttir niður fyrir ávinnslutíma ef ráðningarsambandi kaupréttarhafa við félagið er slitið.

Í kjölfar úthlutunar kaupréttanna nemur heildarfjöldi útistandandi kauprétta sem SKEL hefur veitt lykilstarfsmönnum sínum 107.602.943 hlutum eða um 5,73 % hlutafjár í félaginu.

Nánari upplýsingar veitir Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri SKEL. (fjarfestar@skel.is)