Orkuveitan | 9 mánaða uppgjör – Traust afkoma undirstaða sjálfbærs vaxtar


Rekstur Orkuveitunnar (Orkuveita Reykjavíkur) skilaði 5,1 milljarðs króna afgangi fyrstu níu mánuði ársins. Það er 44% aukning frá sama tímabili fyrra árs og góð undirstaða fyrirhugaðs vaxtar Orkuveitunnar á næstu árum, að mati Sævars Freys Þráinssonar forstjóra. Árshlutareikningur samstæðu Orkuveitunnar fyrir þrjá fyrstu fjórðungana 2024 var samþykktur af stjórn í dag. Innan samstæðunnar eru Veitur, Orka náttúrunnar, Ljósleiðarann og Carbfix, auk móðurfélagsins.

Veltufé frá rekstri fyrstu níu mánuði ársins nam 20,7 milljörðum króna og jókst um 5,2% milli ára. Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum námu 21,4 milljörðum króna á tímabilinu sem er 20% aukning frá sama tímabili ársins 2023.

Jákvæð teikn

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar, sér margt jákvætt fyrir þann nauðsynlega vöxt starfseminnar sem boðaður var í fjárhagsspá samstæðunnar í síðasta mánuði. „Þjónusta  Orkuveitunnar og dótturfyrirtækjanna er traust,“ segir Sævar, „og það standa yfir fjölmörg verkefni svo hún verði það um fyrirsjáanlega framtíð. Þeirra á meðal er aukin stafræn þjónusta, áframhaldandi uppbygging fyrir orkuskiptin og á dögunum fengum við góðar fréttir af öflun aukins vatns í hitaveitu Veitna á höfuðborgarsvæðinu,“ bætir hann við. „Allt styður þetta við að Orkuveitan sé aflvaki sjálfbærrar framtíðar, sem eru þau einkennisorð sem við höfum sameinast undir.“

Tengiliður:
Snorri Hafsteinn Þorkelsson
framkvæmdastjóri Fjármála Orkuveitunnar
sími: 516 6100, netfang: snorri.hafsteinn.thorkelsson@orkuveitan.is

Viðhengi



Pièces jointes

Orkuveitan - samandreginn árshlutareikningur samstæðu 1.1.-30.9.2024