Lagt til að sameina Fjárfestingarfélag Sparisjóðanna og VBS fjárfestingarbanka.


Á fundum stjórna Fjárfestingarfélags sparisjóðanna (FSP hf.) og VBS fjárfestingar­banka hf. á föstudag var ákveðið að leggja til við hluthafafundi í félögunum að sameina félögin undir nafni og kennitölu VBS, að fengnu samþykki Fjármálaeftirlits. 
 
Með samruna verður til öflugur fjárfestingarbanki með tæplega 17 milljarða eignir og eigið fé upp á tæpa 6 milljarða. Lögð verður áhersla á alla almenna fjárfestingarbankaþjónustu og hefur bankinn drjúgan fjárhagslegan styrk til að vaxa umtalsvert á komandi misserum. Þá mun bankinn eiga meirihluta í Behrens fyrirtækjaráðgjöf sem sérhæfir sig í ýmiss konar fyrirtækjaverkefnum og hefur meðal annars opnað skrifstofur í bæði Lettlandi og Litháen.
 
Verði af sameiningu fá hluthafar FSP í sinn hlut 48% í sameinuðu félagi og hluthafar VBS 52%. Hlutafé VBS verður aukið um tæplega 200 milljónir króna að nafnverði og verður eftir aukningu um 415 milljónir. Skiptigengið í viðskiptunum er um 20,5 sem þýðir að markaðsverð félagsins losar 8,5 milljarða. Samkvæmt lögum um hlutafélög þarf samrunaáætlun að liggja fyrir í minnst 4 vikur áður en hluthafafundur fjallar um samrunann. Áætlað er að halda hluthafafundina sem fyrst að þeim fresti liðnum.


Attachments

Samrunaefnahagsreikningur.pdf Samrunagogn 09-03-2007.pdf