Ársreikningur Sveitarfélagsins Árborgar fyrir árið 2006 var tekinn til fyrri umræðu í bæjarstjórn miðvikudaginn 25. apríl, og var honum vísað til seinni umræðu. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í sveitarstjórn og verður seinni umræðan í bæjarstjórn miðvikudaginn 9. maí n.k. Rekstur ársins 2006 Samstæðureikningur Árborgar samanstendur af A-hluta og B-hluta. Í A-hluta eru Aðalsjóður, Eignasjóður, Þjónustustöð og Fasteignafélag Árborgar. Í B-hluta eru Leigubústaðir, Byggingarsjóður aldraðra, Fráveita, Vatnsveita og Selfossveitur. Meginreglan er sú að í A-hluta flokkast þær rekstrareiningar sveitarfélagsins sem fjármagnaðar eru að hluta eða öllu leyti með skatttekjum, en í B-hluta flokkast þær rekstrareiningar, stofnanir og fyrirtæki sem reknar eru sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar og hafa lagaheimild til að innheimta þjónustugjöld til þess að standa að fullu undir útgjöldum sínum. Heildartekjur eru 3.443 millj.kr. og heildarútgjöld með afskriftum en án fjármagnsliða 3.019 millj.kr. Að öllu samanlögðu nema heildarútgjöld með afskriftum án fjámagnsliða 87,7% af heildartekjum A og B hluta ársreikningsins. Fræðslu- og uppeldismál eru umfangsmesti málaflokkur í rekstri sveitarfélagsins, tekur til sín 1.459 millj.kr. Sveitarfélagið Árborg er mjög stór vinnuveitandi; greiðir um 1.595 milllj.kr. í laun og launatengd gjöld. Handbært fé frá rekstri eru 334,3 millj.kr., afborganir lána eru 269 millj.kr. og nettó fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum er 1.045,7 millj.kr. Tekin voru ný lán á árinu alls 825 millj.kr. Reikningurinn sýnir jákvæð frávik miðað við endurskoðaða fjárhagsáætlun ársins 2006 sem nemur 199,7 millj.kr. Útsvarstekjur eru 65 millj.kr. hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir og þá skila tekjur frá Jöfnunarsjóði sér betur en áætlanir gerður ráð fyrir eða um 49 millj.kr. Einnig er um jákvæð frávik í öðrum málaflokkum. Í stofnunum og deildum undir A-hluta munar mest um 15,6 millj.kr. sem félagsmálin eru undir áætlun, 50,9 millj.kr. sem fræðslumálin eru undir áætlun, hreinlætismál eru 10 millj.kr. undir áætlun, umferðarmál um 6,7 millj.kr. undir áætlun og skipulags og byggingarmál 29,7 millj.kr. undir áætlun. Æskulýðs- og íþróttamál eru 5,7 millj.kr yfir áætlun, umhverfismál 4,2 millj.kr, uppreiknuð lífeyrisskuldbinding 34,1 millj.kr. yfir áætlun, aðrir sjóðir í Aðalsjóði vega minna. Þá eru nettó fjármagnsliðir í Aðalsjóði jákvæðir um 15,6 millj.kr Eignasjóður þjónustustöð og rekstur fasteignafélags eru samtals 18 millj.kr. yfir áætlun. Í B-hluta skilar Fráveitan lakari afkomu sem nemur 4,9 millj.kr en Selfossveitur skila betri afkomu sem nemur 22,3 millj.kr. Fjárfestingar Fjárfestingar námu alls 1.067,1 millj.kr., sem skiptist þannig: fasteignir 750,1 millj.kr, veitu- og gatnakerfi 278,4 millj.kr. og vélar, áhöld og tæki 38,6 millj.kr. Þá var söluverð fastafjármuna 21,5 millj.kr og bókfærður söluhagnaður 2,2 millj.kr. Framtíðarsýn Mikil uppbygging hefur einkennt rekstur sveitarfélagsins síðustu ár. Á árinu 2006 var byrjað á byggingu seinni áfanga Sunnulækjarskóla og gert ráð fyrir því að hann verði tekinn í notkun haustið 2007. Á árinu 2006 var einnig lokið við byggingu nýs 6 deilda leikskóla og hafinn undirbúningur að öðrum 6 deilda leikskóla. Þá er verið að taka húsnæðismál Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri til endurskoðunar og gert ráð fyrir að hefja framkvæmdir við hann á árinu 2007. Áfram verður unnið að uppbyggingu fráveitu-, hitaveitu og kaldavatnskerfis. Fjárfestingar næstu ára verða áfram umtalsverðar vegna þeirrar hröðu uppbyggingar sem gert er ráð fyrir í sveitafélaginu. Á síðasta ári fjölgaði íbúum Árborgar um 350 eða 5%. Gert er ráð fyrir því að sú þróun haldi áfram enn um sinn, enda mikil uppbygging framundan. Fjölgunin skilar sér í auknum skatttekjum en að sama skapi aukinni þenslu í þjónustuþáttum sveitarfélagsins s.s. skóla - og leikskólmálum. Gert er ráð fyrir því í áætlunum að fjölgunin hafi jákvæð áhrif á reksturinn. Hægt verður að nálgast ársreikninginn á heimasíðu Árborgar, http://www.arborg.is eftir að hann hefur verið tekinn til seinni umræðu í bæjarstjórn.