2007


Arðsemi VBS fjárfestingarbanka 48% fyrir skatta

Fyrsta milliuppgjörið bendir til þess að mikill og arðbær vöxtur sé fram undan

VBS fjárfestingarbanki hf. skilaði 1.352 milljóna króna hagnaði fyrir skatta á
fyrri hluta ársins 2007. Það jafngildir 48% ávöxtun eigin fjár á ári og lætur
nærri að hagnaður hafi numið 10 milljónum króna á hverjum virkum degi frá því
að samruni VBS og FSP hf.  tók gildi um áramótin. Að teknu tilliti til skatta
var hagnaðurinn 1.114 milljónir sem jafngildir 39% ávöxtun eigin fjár á
ársgrundvelli. Samkvæmt fyrsta hálfs árs uppgjöri sameinaðs banka nemur eigið
fé rúmum 7,7 milljörðum króna og er eiginfjárhlutfall (CAD) 30,3%. Hlutfall
rekstrakostnaðar af tekjum var aðeins 23% sem er með því lægsta sem þekkist hjá
íslenskum fjármálafyrirtækjum. Fjárhagslegur styrkur og aðrar forsendur eru því
fyrir hendi til stækkunar bankans og gefur árangurinn hingað til fyrirheit um
að sá vöxtur muni einkennast af góðri arðsemi eigin fjár. 

Jón Þórisson, framkvæmdastjóri, segir árangurinn framar björtustu vonum. „Eftir
sameininguna við FSP höfum við unnið markvisst  að því að auka fjölbreytni í
starfseminni. Við höfum náð ánægjulegum viðsnúningi í vaxtatekjum, byggt upp
lánasafn og aukið verulega tekjur af miðlun verðbréfa og eignastýringu sem og
af milligöngu og ráðgjöf fyrir fyrirtæki. Á sama tíma er rekstrarkostnaðurinn
mjög lágur. Sameiningin hefur því heppnast fullkomlega og við erum komin á
fulla ferð. Verkefnastaðan okkar er mjög góð á öllum afkomusviðum og því horfum
við fram á mikinn og góðan vöxt á næstunni, “ segir Jón. 

Starfsemi VBS skiptist í eftirtalin svið: Fyrirtækjasvið. lánasvið,
eignastýringu, markaðsviðskipti og framkvæmdafjármögnun auk stoðsviða. Gengi
hlutabréfa VBS var um áramót 17,5 krónur á hvern hlut en var 32 krónur á hlut
þann 30. júní, og hefur því gengi bankans hækkað um ríflega 82%. Að auki fengu
hluthafar greiddan arð í maí sem nam um 70 milljónum. Miðað við gengið 32 er
verðmæti VBS rúmir 14,2 milljarðar króna. 



Meðfylgjandi ítarefni: 
i) Lykilþættir úr rekstri VBS fjárfestingarbanka á fyrri hluta ársins 2007
ii) Yfirlit yfir einstök svið VBS fjárfestingarbanka


---
Nánari upplýsingar veitir Jón Þórisson, framkvæmdastjóri, í síma 894 0482
 

Lykilþættir úr rekstri VBS fjárfestingarbanka á fyrri hluta ársins 2007

•  Hagnaður fyrir skatta nam 1.352 milljónum sem jafngildir 48% ávöxtun eigin
   fjár á ársgrundvelli. 

•  Hagnaður eftir skatta nam 1.114 milljónum sem jafngildir 39% ávöxtun eigin
   fjár á ársgrundvelli. 

•  Eigið fé bankans var rúmir 7,7 milljarðar þegar sex mánuðir voru liðnir af
   árinu. 

•  Hreinar rekstrartekjur voru 1.783 milljónir.

•  Hlutfall rekstrakostnaðar af tekjum var 23% sem er með því lægsta sem þekkist
   hjá íslenskum fjármálafyrirtækjum. 

•  Eignir bankans námu 23,6 milljörðum í lok tímabilsins.

•  Eigið fé (CAD) er 30,3%, sem sýnir mikinn fjárhagslegan styrk og mikla
   vaxtarmöguleika. 

•  Mikil breyting hefur orðið á samsetningu tekna á fyrri árshelmingi þar sem
   vaxtatekjur og þóknunartekjur eru nú mun stærri þáttur í heildartekjum. 

•  VBS fjárfestingarbanki hf. og FSP hf. sameinuðust á tímabilinu og miðast
   samruninn við 1. janúar 2007. 

•  Árshlutareikningur bankans er nú í fyrsta sinn gerður í samræmi við
   alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). 

•  Gengi hlutabréfa í bankanum hækkaði um 82% á fyrri hluta ársins.

•  Hluthafar í VBS fjárfestingarbanka voru 104 í lok júní.



 
Yfirlit yfir einstök svið VBS fjárfestingarbanka

Eignastýring - forstöðumaður: Björn Ólafsson
Eignastýring VBS hefur skilað viðskiptavinum sínum góðri ávöxtun það sem af er
árinu, en eignir viðskiptavina í umsjá VBS hafa vaxið um 50% frá 30. júní 2006
og nema nú um 27 milljörðum króna. Viðskiptavinum eignastýringar hefur
jafnframt fjölgað umtalsvert á sama tímabili. Sala á fjárfestingarvörum svo sem
sjóðum Carnegie er einnig vaxandi þáttur í starfsemi eignastýringar. 

Fyrirtækjasvið - forstöðumaður: Magnús Sch. Thorsteinsson
Skammt er síðan fyrirtækjasvið var sett á laggirnar í bankanum og hefur það
farið mjög vel af stað. Á fyrri hluta árs hafði sviðið m.a. milligöngu um kaup
á JB byggingarfélagi, kaup á Emmess ís og kaup á verslun Sævars Karls.
Fyrirtækjasvið VBS einbeitir sér að þjónustu við lítil og meðalstór fyrirtæki
og sérstaða VBS felst í tafarlausri afgreiðslu mála og stuðningi við
áætlanagerð og mótun framtíðarsýnar þeirra fjárfesta sem í hlut eiga.
Verkefnastaða er góð og horfir vel með afkomu sviðsins á síðari hluta ársins. 

Framkvæmdafjármögnun - forstöðumaður: Tómas Eiríksson
Svið framkvæmdafjármögnunar hefur um árabil sérhæft sig í að skipuleggja
fjármögnun byggingarframkvæmda, bæði með beinni þátttöku VBS sem lánveitanda en
einnig með útgáfu og sölu veðskuldabréfa. Með vexti VBS skapast tækifæri til að
taka þátt í stærri verkefnum en áður hefur verið mögulegt. 

Lánasvið - forstöðumaður: Brynjólfur Bjarnason
Mikill vöxtur er í lánastarfsemi VBS og hefur áhersla verið lögð á að auka
dreifingu útlánasafnsins með tilliti til atvinnugreina, mynta, tegunda lána,
lánstíma o.s.frv. Mikil eftirspurn er eftir þjónustu bankans á þessu sviði og
er sérstaða hans einkum fólgin í miklum sveigjanleika og getu til að bregðast
hratt við óskum viðskiptavina. 


Markaðsviðskipti - forstöðumaður: Valdimar Svavarsson
Markaðsviðskipti VBS náðu góðum árangri á fyrrihluta ársins. Tekjur af miðlun
innlendra og erlendra hlutabréfa hafa vaxið jafnt og þétt og markaðshlutdeild
VBS í Kauphöllinni hefur aukist verulega síðustu mánuði. Miðlun skammtíma
skuldabréfa gekk einnig vel og er nú sem áður lykilþáttur í starfsemi sviðsins.
Markvisst hefur verið unnið að því að auka enn umsvif sviðsins og styrkja
stoðirnar með ráðningu nýrra starfsmanna og nýjum áherslum og var sú vinna
farin að skila tilsettum árangri undir lok tímabilsins. 

Stoðsvið
Stoðsvið bankans hafa verið efld á fyrri hluta ársins til að auðvelda vöxt
bankans. Áhættustýring og fjárstýring hafa verið gerðar að sjálfstæðum
verksviðum og settur hefur verið forstöðumaður fyrir hvort svið. Einnig hefur
verið ráðinn forstöðumaður fyrir lögfræðisvið. Forstöðumenn stoðsviða eru:
Guðmundur Frímannsson - fjármálasvið, Sigurður H. Kristjánsson - fjárstýring,
Guðmundur Birgisson - áhættustýring og Högni Friðþjófsson - lögfræðisvið.

Attachments

vbs_6_man_2007_tilkynning.pdf vbs fjarfestingabanki - 06 07.pdf