Árshlutareikningur Fasteignafélagsins Stoða hf. hefur að geyma samandreginn samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess. Árshlutareikningur félagsins fyrir tímabilið 1. janúar til 30. júní 2007 er gerður í samræmi við alþjóðlegan reikningsskilastaðal um árshlutareikninga, IAS 34. Helstu atburðir janúar - júní 2007: • Í febrúar gerði félagið samning um kaup á fasteignafélaginu Landsafli ehf. af Landsbankanum. Helstu eignir félagsins eru: Höfðabakki 9 og Suðurlandsbraut 34 í Reykjavík. Rekstur félagsins er hluti af samstæðureikningi félagsins frá yfirtökudegi sem var 1. mars 2007. • Í febrúar jók félagið hlutafé sitt um 522 millj. kr. og seldi til þriggja nýrra fjárfesta: Landsbanka Íslands, Fjárfestingafélagsins Máttar ehf. og SJ1 ehf. • Í mars seldi félagið allt hlutafé sitt í S fasteignum ehf. til Eignarhaldsfélagsins Fons hf. Helstu eignir félagsins eru bensínstöðvar Skeljungs hf. Rekstur S fasteigna var hluti af samstæðureikningi félagsins til 28. febrúar 2007. • Í júní tilkynnti félagið um fyrirætlan sína að leggja fram valfrjálst yfirtökutilboð til allra hluthafa danska félagsins Keops A/S. Yfirtökutilboð félagsins hljóðaði upp á DKK 24,0 á hlut eða samtals DKK 4.337 millj. / ISK 51.000 millj. fyrir allt hlutafé Keops. Stjórn Keops hefur mælt með tilboðinu og er það stutt með áliti frá bæði Glitni banka og Carnegie bank. Tilboðsfresturinn rennur út 31. ágúst 2007. Niðurstaða tilboðsins verður tilkynnt 3. september 2007. Lykiltölur, samstæðureikningur: • Hagnaður fyrstu sex mánuði ársins 2007 nam 4.336 millj. kr. en nam 4.186 millj. kr. fyrir sama tímabil árið áður. • Rekstrartekjur fyrstu sex mánuði ársins 2007 námu 4.162 millj. kr. en námu 2.778 millj. kr. fyrir sama tímabil árið áður. • Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 170.319 millj. kr. en námu 156.634 millj. kr. í árslok 2006. • Eigið fé félagsins í lok tímabilsins nam 34.077 millj. kr. en þar af nam hlutafé 2.721 millj. kr. Eigið fé í árslok 2006 nam 22.717 millj. kr. • Eiginfjárhlutfall félagsins var 20% Um félagið og horfur: Félagið er fasteignafélag sem sérhæfir sig í útleigu og rekstri atvinnuhúsnæðis. Fasteignir félagsins eru verslunarhúsnæði, skrifstofur, hótel og vörugeymslur og er fermetrafjöldinn yfir 648 þúsund. Fjöldi leigutaka er rúmlega 1.000. Meðal stærstu leigutaka má nefna Haga hf., Magasin Du Nord, ILLUM, Flugleiðahótel, Fasteignir Ríkissjóðs, Gudme Raaschou Bank og Danke Bank. Nýtingarhlutfall fasteigna er um 97%. Horfur í rekstri félagsins eru góðar. Endurskoðun Árshlutauppgjörið hefur verið kannað af endurskoðendum félagsins, KPMG hf.. Nánari upplýsingar veita: Skarphéðinn Berg Steinarsson, forstjóri félagsins í síma: 575-9000 og Páll Benediktsson, Forstöðumaður upplýsingasviðs í síma:895-6066