- Skrifað undir samrunaáætlun BYRS og Sparisjóðs Norðlendinga


Stjórnir Byrs sparisjóðs og Sparisjóðs Norðlendinga hafa skrifað undir áætlun
um samruna sparisjóðanna og miðast hann við 1. júlí 2007. Gert er ráð fyrir að
hlutur stofnfjáreigenda í Byr sparisjóði verði 90,5% í sameinuðum sjóði og
hlutur stofnfjáreigenda í Sparisjóði Norðlendinga verður 9,5%. Til að
framangreint hlutfall náist verður stofnfé í Sparisjóði Norðlendinga aukið um
krónur 234.860.000 áður en til samrunans kemur. Markmiðið með samrunanum er að
styrkja stöðu sparisjóðanna í harðnandi samkeppni á fjármálamarkaði til
hagsbóta fyrir viðskiptavini, starfsfólk og stofnfjáreigendur. 

Íslenskur fjármálamarkaður hefur undanfarin ár einkennst af mikilli grósku og
vexti. Fjármálafyrirtæki hafa vaxið og dafnað og samkeppni hefur aukist mikið.
Sameining sparisjóðanna eru viðbrögð við þessari þróun. Með samrunanum verður
til stærri og öflugri eining sem er vel í stakk búin til að takast á við ný og
krefjandi verkefni. Með sameiningunni aukast möguleikar til framþróunar og
vaxtar og hefur sameinaður sparisjóður sterkari stöðu til sóknar. 

Byr sparisjóður er vaxandi fyrirtæki sem býður einstaklingum og fyrirtækjum
faglega ráðgjöf og persónulega þjónustu í fjármálum. Byr sparisjóður varð til
við sameiningu Sparisjóðs vélstjóra og Sparisjóðs Hafnarfjarðar árið 2006.
Sameining Byrs sparisjóðs og Sparisjóðs Kópavogs hefur verið samþykkt af
stjórnum og stofnfjáraðilum sjóðanna og býður samþykkis Fjármálaeftirlitsins og
Samkeppniseftirlitsins. 

Sparisjóður Norðlendinga var stofnaður þann 30. júní 1997 með samruna
Sparisjóðs Akureyrar og Arnarneshrepps og Sparisjóðs Glæsibæjarhrepps. Hann
sérhæfir sig í þjónustu við einstaklinga og fyrirtæki á Norðurlandi og hefur
vaxið mikið á undanförnum árum. Með sameiningu opnast tækifæri fyrir efldan
sparisjóð að auka þjónustu sína og taka þátt í stærri verkefnum við uppbyggingu
öflugs atvinnulífs á Norðurlandi. 

Samruni Byrs sparisjóðs og Sparisjóðs Norðlendinga er háður samþykki
stofnfjáreigenda sjóðanna, Fjármálaeftirlitsins og Samkeppniseftirlitsins. 

Frekari upplýsingar veita:

Ragnar Z. Guðjónsson, sparisjóðsstjóri BYRS - sparisjóðs
sími: 575 4000
netfang: RagnarZG@byr.is 

Örn Arnar Óskarsson, sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Norðlendinga
sími: 460 2500
netfang: orn@spnor.is

Attachments

samrunaatlun spnor.pdf samrunaatlun byr.pdf skyrsla matsmanna byr og spnor.pdf drog a samrunaefnahag byr og spnor.pdf