Afkoma Vinnslustöðvarinnar hf. Rekstrartímabilið 1. janúar 2007 - 31. desember 2007 Stjórn Vinnslustöðvarinnar hf. samþykkti í dag uppgjör félagsins fyrir síðastliðið rekstrarár. Þar kemur meðal annars fram eftirfarandi: 636 milljóna króna hagnaður á rekstrarárinu • Hagnaður rekstrarársins var 636 milljónir króna og jókst um 429 milljónir króna frá fyrra ári þegar hann var 207 milljónir króna. • Heildartekjur félagsins voru 5.618 milljónir króna og drógust saman um 175 milljónir króna frá fyrra ári. Tekjur fiskvinnslu jukust lítillega eða um 2% og tekjur útgerðar jukust einnig lítillega eða um 4%. Rekstrargjöld jukust um tæp 9%. • Framlegð félagsins (hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði) nam 1.210 milljónum króna eða 21,5% af tekjum og dróst saman um 535 milljónir króna frá fyrra ári en þá var framlegðarhlutfall 30,1%. • Veltufé frá rekstri nam 1.031 milljón króna á árinu og var 18,4% af rekstrartekjum. Veltufé frá rekstri dróst saman um 32% frá fyrra ári þegar það nam 1.512 milljónum króna. • Afskriftir jukust um 350 milljónir króna frá fyrra ári og námu 694 milljónum króna. Aukningin felst fyrst og fremst í aukafyrningum vegna niðurrifs á hluta af húsnæði félagsins og í virðisrýrnun aflaheimilda sem gerð er í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla. • Niðurstaða fjármagnsliða var jákvæð um 216 milljónir króna. Gengishagnaður nam 423 milljónum króna en á síðasta rekstrarári var hins vegar 796 milljóna króna gengistap. • Tekjur Hugins ehf., hlutdeildarfélags Vinnslustöðvarinnar, voru 836 milljónir króna. Framlegð félagsins á tímabilinu var 189 milljónir króna og jókst um 90 milljónir króna frá fyrra ári. Hagnaður félagsins eftir skatta nam 105 milljónum króna, þar af nam gengishagnaður félagsins 77 milljónum króna. Hlutdeild Vinnslustöðvarinnar í hagnaði Hugins ehf. nam tæpri 51 milljón króna á rekstrarárinu. • Tekjur About Fish ehf., hlutdeildarfélags Vinnslustöðvarinnar, voru 1.786 milljónir króna og framlegð félagsins á tímabilinu var neikvæð um tæpar 11 milljónir króna. Hagnaður eftir skatta nam rúmum 9 milljónum króna á árinu og var hlutdeild Vinnslustöðvarinnar í hagnaði tæpar 5 milljónir króna. 444 milljón króna tap á fjórða ársfjórðungi Á fjórða ársfjórðungi, þ.e. frá 1. október til 31. desember 2007, voru tekjur 1.061 milljón króna og rekstrargjöld 1.038 milljónir króna. Framlegð tímabilsins var því 23 milljónir króna en 444 milljóna króna tap varð af rekstri fjórðungsins, sem skýrist að mestu leyti af gengistapi fjórðungsins og aukafyrningum húseigna vegna niðurrifs. Hagnaður var á rekstri félagsins á sama tímabili í fyrra að fjárhæð 144 milljónir króna. Hlutdeild félagsins í tapi hlutdeildarfélagsins Hugins ehf. nam 21 milljón króna á fjórðungnum. Rekstur Vinnslustöðvarinnar gekk ekki nógu vel á haustmánuðum, einkum var það fiskvinnsla félagsins sem gekk illa. Afurðaverð síldar var fremur lágt og verð fiskimjöls og karfaafurða lækkaði á tímabilinu. Þá var veðurfar einkar erfitt til sjósóknar. Á haustmánuðum var hafin bygging tæplega 6.000 tonna frystiklefa og lýkur þeim framkvæmdum innan tíðar. Efnahagur í árslok Eignir félagsins lækkuðu um 348 milljónir króna frá byrjun árs til ársloka. Heildarskuldir og skuldbindingar Vinnslustöðvarinnar hf. lækkuðu um 533 milljónir króna frá upphafi árs til ársloka og eru 6.229 milljónir króna. Nettóskuldir eru 4.055 milljónir króna en þær voru 4.558 milljónir króna í lok síðasta árs og lækkuðu því um 503 milljónir króna. Eigið fé hækkaði frá áramótum um 184 milljónir króna. Breytingin skýrist annars vegar af hækkun vegna hagnaðar ársins að upphæð tæplega 636 milljónir króna og hins vegar af lækkun vegna útgreiðslu arðs að upphæð 451 milljón króna. Rekstrarhorfur á yfirstandandi ári Rekstrarhorfur á yfirstandandi rekstrarári eru óvissar eins og nokkur undanfarin ár. Upphafskvóti í loðnu er lítill og loðnuleit hefur gengið illa. Þá voru aflaheimildir í þorski skornar umtalsvert niður á yfirstandandi fiskveiðiári. Þrátt fyrir verðlækkun einstakra mikilvægra afurðaflokka Vinnslustöðvarinnar er fiskverð á erlendum mörkuðum enn hátt þegar litið er til sögunnar. Þá hefur lækkandi gengi krónunnar jákvæð áhrif á rekstrarhorfur félagsins. Afskráning Vinnslustöðvarinnar hf. úr OMX Nordic Exchange Stjórn og hluthafafundur Vinnslustöðvarinnar hf. hafa óskað eftir því við OMX Nordic Exchange að afskrá félagið úr kauphöll. Stjórn félagsins hefur borist svar við beiðninni og verður Vinnslustöðin hf. ekki afskráð úr kauphöll fyrr en 14. nóvember 2008. Aðalfundur og tillögur um arð Ákveðið hefur verið að halda aðalfund félagsins föstudaginn 2. maí 2008 í Akógeshúsinu og hefst fundurinn kl. 16:00. Stjórn félagsins gerir tillögu um að arðgreiðsla nemi 30%. Birtingardagatal Vinnslustöðvarinnar hf. 1. ársfjórðungur 2008 2. maí 2008 2. ársfjórðungur 2008 Vika 28 júlí - 1. ágúst 2008 3. ársfjórðungur 2008 Vika 3. - 7. nóvember 2008 Ársuppgjör 2008 Vika 9.- 13 febrúar 2009 Aðalfundur 2. maí 2008 Birting ársskýrslu 2007 2. maí 2008 Greiðsla arðs Stjórnin leggur til að greiddur verði 30% arður Frekari upplýsingar: Sigurgeir B. Kristgeirsson framkvæmdastjóri í símum 488 8004 og 897 9607
2007
| Source: Vinnslustöðin hf.