Mikill viðsnúningur í rekstri 365 hf. frá fyrra ári Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) ársins 2007 nam 1.162 m.kr. en á árinu 2006 var EBITDA tap 12 m.kr. ef söluhagnaður dreifikerfis* er undanskilinn. Tekjur á árinu 2007 námu 12.381 m.kr. og jukust um tæp 12% á milli ára. Rekstrarbati varð að upphæð 1.364 m.kr. hjá félaginu ef horft er til afkomu fyrir skatta af áframhaldandi starfsemi, en tap fyrir skatta nam 136 m.kr. á árinu 2007. Niðurstaða reksturs á árinu 2007 varð tap að upphæð 2.283 m.kr. að teknu tilliti til þeirrar starfsemi sem hefur verið lögð niður en eignarhlutur í Wyndeham var færður niður að fullu að fjárhæð 2.095 m.kr. Helstu niðurstöður ársins: • Sala tímabilsins nam 12.381 m.kr. og jókst um 1.285 m.kr. eða 11,6% frá árinu 2006 • Innri vöxtur tekna (pro forma**) var 10,5% frá fyrra ári • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 1.162 m.kr. en var neikvæður um 12 m.kr. á árinu 2006 af reglulegum rekstri*. • EBITDA hlutfall nam 9,4% en reiknaðist sem 0% af reglulegum rekstri* í fyrra. • Nettó fjármagnsgjöld námu 646 m.kr. en þar á meðal var nettó gengishagnaður 184 m.kr. • Tap eftir skatta nam 2.283 m.kr. • Eigið fé var 4.545 m.kr. og eiginfjárhlutfall var 31% • Veltufjárhlutfallið var 0,87 en var um síðustu áramót 0,62 Helstu niðurstöður fjórða ársfjórðungs: • Sala tímabilsins nam 4.051 m.kr. og jókst um 871 m.kr. eða 27,4% frá árinu 2006 • Innri vöxtur (pro forma**) á tímabilinu var 10,6% frá fyrra ári • Bókfærður var 33 m.kr. söluhagnaður vegna sölu á hljóðverum félagsins • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 404 m.kr. en var um 25 m.kr. af reglulegum rekstri á fjórða ársfjórðungi 2006 • EBITDA hlutfall nam 10% en var 1% af reglulegum rekstri í fyrra • Niðurstöður virðisrýrnunarprófa leiddu til niðurfærslu viðskiptavildar að upphæð 89 m.kr. • Nettó fjármagnsgjöld námu 262 m.kr. en þar á meðal var gengistap 117 m.kr. • Tap eftir skatta nam 2.243 m.kr. Ari Edwald, forstjóri: „Félagið er í sókn“ „Rekstrarárangur á árinu 2007 sýnir að félagið er í sókn bæði er varðar tekjuvöxt og afkomu grunneininga sem staðfestir viðsnúning á rekstri félagsins frá fyrra ári. Rekstur fjölmiðlahlutans gekk vel á árinu og skilaði 900 m.kr. í EBITDA sem er einn besti árangur sem náðst hefur í þessari starfsemi á Íslandi. Sala og dreifing í afþreyingahluta rekstursins gekk vel á árinu en hinsvegar var framleiðsluhlutinn ekki að standa undir væntingum. Í heild er rekstur félagsins þó mjög nærri þeim áætlunum sem kynntar hafa verið. Við viljum gæta varfærni við mat á eignarhlutum félagsins og með því að færa niður eignahlut í Wyndeham Press Group að fullu hefur óvissu verið eytt og gegnsæi félagsins aukið. Á árinu voru stigin mikilvæg skref í að styrkja fjárhagsstöðu félagsins með sölu á eignum og niðurgreiðslu skulda. Veltufjárhlutfall félagsins er í árslok 0,87 og eiginfjárhlutfall 31%. Stefnt er að því að auka fjárhagslegan styrk félagsins ennfrekar á næstunni með aukningu á hlutafé að söluverði um 1.500 m.kr. en með þeirri ráðstöfun er verið að laga efnahag félagsins að núverandi starfsemi og búa í haginn fyrir áframhaldandi uppbyggingu.“ ** Í Pro forma útreikningi eru þeir miðlar sem nú eru í rekstri félagsins bornir saman milli ára og tekið tillit til þess að rekstrareiningarnar Sena og D3 urðu hluti af samstæðunni frá 1. febrúar 2006. * Þegar fjallað er um EBITDA af reglulegum rekstur hefur söluhagnaður dreifikerfis sjónvarps að upphæð 1.563 m.kr. verið undanskilinn á árinu 2006. Ársreikningur 365 hf. fyrir árið 2007 Reikningsskilaaðferðir og samþykkt reikninga Ársreikningur 365 hf. er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) eins og þeir hafa verið staðfestir af ESB. Ársreikningur samstæðunnar hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess ásamt hlutdeild samstæðunnar í hlutdeildarfélögum. EFG ehf. varð hluti af samstæðunni frá 1. október 2007. Stjórn félagsins samþykkti ársreikninginn þann 6. febrúar 2007. Rekstrarreikningur Rekstri 365 hf. er skipt upp í tvo starfsþætti í ársreikningnum. Annars vegar fjölmiðla sem 365 miðlar ehf. tilheyra og hins vegar afþreying sem félögin Sena ehf. og EFG ehf. falla undir. Félagið í heild Sölutekjur ársins 2007 námu 12.381 m.kr. en voru 11.096 á árinu 2006 og jukust því um 1.285 m.kr. eða tæplega 12% milli ára. EBITDA ársins var 1.162 m.kr. en var neikvæð um 12 m.kr. á árinu 2006 og hefur því aukist um 1.174 m.kr. á milli ára af reglulegum rekstri. Í lok september seldi félagið fasteign að Vatnagörðum 4 og rekstur hljóðvera sinna. Söluhagnaður afþreyingahlutans var því samtals 68 m.kr. Sölutekjur námu 4.051 m.kr. á fjórða ársfjórðungi 2007 og jukust um 27,4% frá fyrra ári. Innri vöxtur (pro forma) nam hins vegar 10,6%. Framlegð af rekstri 365 hf. nam 1.347 m.kr. á fjórða ársfjórðungi 2007 og var framlegðarhlutfallið 33,2%* en var 28,2% á sama tímabili í fyrra. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam á fjórða ársfjórðungi 404 m.kr. og jókst um 379 m.kr. frá fyrra ári af reglulegri starfsemi. Hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) nam 194 m.kr. en var neikvæður um 226 m.kr.** á sama tíma í fyrra. Rekstrarbatinn er því 420 m.kr. Fjölmiðlar Sölutekjur fjölmiðla námu 8.182 m.kr. á árinu 2007 og jukust um 432 m.kr. eða 5,6% frá fyrra ári. Innri vöxtur (pro forma) nam 881 m.kr. sem er 12,2% aukning frá fyrra ári. EBITDA fjölmiðla nam 900 m.kr. á árinu 2007 en hún var 165 m.kr. að teknu tilliti til söluhagnaðar dreifikerfis og einskiptiskostnaðar vegna endurskipulagningar á árinu 2006. Aukningin var því 735 m.kr. frá fyrra ári sem endurspeglar vel heppnaða endurskipulagningu á rekstri fjölmiðlafyrirtækisins á síðasta ári. Sölutekjur fjölmiðla námu 2.368 m.kr. á fjórða ársfjórðungi og hækkuðu um 303 m.kr. eða 14,7% frá fyrra ári. Ef aðeins er horft til þeirra miðla sem nú eru í rekstri hjá 365 miðlum ehf. (pro forma) jukust tekjur þeirra um tæp 18,4% á milli ára. Góður vöxtur var á öllum sviðum fjölmiðlahlutans í ársfjórðungnum m.v. fyrra ár. Þetta á jafnt við um auglýsingatekjur og áskriftatekjur. EBITDA fjölmiðla nam 319 m.kr. á fjórða ársfjórðungi 2007 samanborið við neikvæða EBITDA 70 m.kr. fyrir sama tímabil í fyrra af reglulegri starfsemi** og hækkaði því um 389 m.kr. milli ára. Afþreying Sölutekjur afþreyingasviðs á árinu 2007 námu 4.955 m.kr. og jukust um 1.187 m.kr. á milli ára eða 31,5%. Innri vöxtur (pro forma) afþreyingarsviðs jókst um 12,7% á milli ára. EBITDA ársins nam 345 m.kr. og jókst um 40 m.kr. eða 13% milli ára. Rekstur sölu- og dreifingarhluta afþreyingasviðs (Sena ehf.) gekk vel á árinu, en rekstur framleiðsluhlutans (EFG ehf.) stóðst ekki væntingar stjórnenda. Síðustu mánuði hefur verið unnið að því að endurskipuleggja reksturinn með nýjum stjórnendum. Tekjur á afþreyingarsviði námu 1.839 m.kr. á fjórða ársfjórðungi 2007 en námu 1.420 m.kr. á sama tímabili árið áður og jukust því um 419 m.kr. eða 29,5%. EBITDA afþreyingasviðs á fjórða ársfjórðungi nam 152 m.kr. og jókst um 115 m.kr. frá fyrra ári. Rekstrarbatann má rekja til betri afkomu af sölu- og dreifingarhluta afþreyingasviðs (Sena ehf.). Efnahagsreikningur Heildareignir samkvæmt efnahagsreikningi þann 31. desember 2007 námu 14.683 m.kr. borið saman við 18.769 m.kr. í árslok 2006. Veltufjárhlutfall var 0,87 í lok árs 2007 borið saman við 0,62 í lok árs 2006. Eiginfjárhlutfall var 31% samanborið við 32,7% í lok árs 2006. Heildarskuldir félagsins hafa lækkað um 2.494 m.kr. frá árslokum 2006 og þar af hafa vaxtaberandi lán félagsins lækkað um 1.434 m.kr., en félagið seldi eignarhlut sinn í Hands Holding í byrjun júlí og var andvirðinu varið til lækkunar skulda. Viðskiptaskuldir og aðrar skuldir hafa lækkað um 1.106 m.kr. frá fyrra ári. Nettó vaxtaberandi skuldir í lok árs 2007 námu 7.078 m.kr. * Framlegðarhlutfall er reiknað sem sala að frádregnu kostnaðarverði seldrar vöru og þjónustu sem hlutfall af sölutekjum. ** Söluhagnaður vegna dreifikerfis sjónvarps að upphæð 1.563 m.kr. er ekki meðtalinn. Sjóðstreymi Handbært fé til rekstrar á tímabilinu án fjármagnsliða og skatta nam 354 m.kr. Neikvætt fjárflæði skýrist m.a. af því að í upphafi árs voru greiddar upp viðskiptaskuldir frá fyrra ári sem tilheyrðu fjárfestingastarfsemi félagsins á því ári sem nú hefur verið aflögð. Á tímabilinu hækkaði fyrirframgreiddur kostnaður og skýrist það að mestu af auknum innkaupum af íþróttaefni. Á tímabilinu voru greidd vaxtagjöld að upphæð 812 m.kr. sem voru hærri en ella vegna sérstakrar uppgreiðslu á lánum félagsins í kjölfar eignasölu. Heildarfjárfestingahreyfingar námu 1.784 m.kr. og þar af námu fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum 426 m.kr. en á sama tímabili voru seldir varanlegir rekstrarfjármunir fyrir 194 m.kr. Fjármögnunarhreyfingar voru neikvæðar um 1.458 m.kr. Félagið seldi eignarhlut sinn í Hands Holding á tímabilinu að upphæð 1.620 m.kr. og andvirði þess var notað til að greiða niður lán. Handbært fé í lok árs nam 190 m.kr. og lækkaði um 756 m.kr. frá ársbyrjun. Rekstrarhorfur 2008 Stjórnendur eru ánægðir með þann árangur sem náðist á síðasta ári. Eftir slakan rekstrarárangur á árinu 2006 var rekstur félagsins endurskipulagður þar sem lögð var áhersla á að styrkja helstu rekstrareiningar fjölmiðlahluta félagsins sem eru Fréttablaðið, Stöð 2, Bylgjan og Vísir. Samhliða þessu voru aðrar rekstrareiningar ýmist lagðar niður eða seldar, jafnframt því sem lögð var áhersla á að lækka kostnað. Þessar aðgerðir hafa skilað sér í mjög bættri framlegð. Með niðurfærslu á eignarhlut í Wyndeham hefur óvissu verið eytt og félagið orðið skýr valkostur fyrir fjárfesta á sviði fjölmiðlunar og afþreyingar. Á árinu voru stigin mikilvæg skref í að styrkja fjárhagsstöðu félagsins með sölu á eignum og niðurgreiðslu skulda. Til að auka ennfrekar fjárhagslegan styrk félagsins er í undirbúningi hlutafjáraukning að söluverði um 1.500 m.kr. og hefur stjórn félagsins samþykkt að leggja fram tillögu á næsta hluthafafundi að svo verði. Með fyrirvara um samþykki þess fundar hefur verið samið við Saga Capital fjárfestingabanka um sölutryggingu á útboðinu. Stjórnendur áætla að tekjur ársins 2008 verði á bilinu 13,5 til 14,0 milljarðar og EBITDA verði 1.300 til 1.400 m.kr. Kynningarfundur Kynningarfundur fyrir hluthafa og markaðsaðila verður haldinn fimmtudaginn 7. febrúar, kl. 12:00 að Skaftahlíð 24 í norðurhúsi (skrifstofur). Þar munu Ari Edwald forstjóri og Viðar Þorkelsson fjármálastjóri kynna afkomu félagsins og starfsemi þess. Hægt er að nálgast upplýsingar eftir fundinn á heimasíðu félagsins www.365.is og á heimasíðu OMX Nordic Exchange á Íslandi, www.omxgroup.com/nordicexchange. Birtingardagar fyrir reikningsárið 2008 Fyrsti ársfjórðungur: 6. maí 2008 Annar ársfjórðungur: 30. júlí 2008 Þriðji ársfjórðungur: 30. október 2008 Fjórði ársfjórðungur og ársuppgjör 2008: 4. febrúar 2009 Nánari upplýsingar veita: Ari Edwald forstjóri í síma 821 0365 og Viðar Þorkelsson fjármálastjóri í síma 669 9100 ** Söluhagnaður vegna dreifikerfis sjónvarps að upphæð 1.563 m.kr. er ekki meðtalinn